Geta ekki samþykkt frumvarpsdrögin óbreytt

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

 

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hefur skilað inn umsögn sinni um drög að frumvarpi til laga um almannatryggingar sem fyrir liggur. Félagið er sammála ýmsum atriðum frumvarpsins, svo sem um sveigjanleg starfslok og fleira. Engu að síður telur félagið sig ekki geta með nokkru móti samþykkt drögin óbreytt. Þar séu of mörg atriði sem ekki séu  ásættanleg. Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður félagsins segir að afnám frítekjumarka af atvinnutekjum, sem gert er ráð fyrir í drögunum vinni þannig gegn því markmiði frumvarpsins að fólk vinni lengur en nú er. Skerðing sé enn of mikil og hún hafi  efasemdir um að það sé rétt að fella grunnlífeyri alveg niður eins og lagt sé til. Lífeyriskerfi séu mismunandi, en mörg lönd séu með grunnlífeyri, sem sé þá hugsaður sem viðurkenning fyrir ævistarf manna. Grunnlífeyrir Almannatrygginga sem allir efrirlaunamenn fá núna, nemur um 40.000 krónum.

Í umsögn félagsins segir meðal annars:

Því er haldið fram í opinberri umræðu að grunnstoð eftirlaunakerfisins sé lífeyrissjóðirnir og síðan komi almannatryggingar sem viðbót. Þetta er alrangt og stenst enga skoðun. Lífeyrissjóðirnir voru hugsaðir sem viðbót við greiðslur frá almannatryggingum. Það er þess vegna óviðunandi að leggja niður grunnlífeyri til allra í almannatryggingum, eins og drögin gera ráð fyrir. Það væri eðlilegra að hækka hann verulega, þannig að hann verði viðunandi og lífeyrir frá lífeyrissjóðunum komi svo til viðbótar

Samkvæmt frumvarpsdrögunum munu nánast allir lífeyrisþegar með tekjur undir 100.000 kr. á mánuði fá hærri greiðslur frá TR, ef tillögurnar ná fram að ganga og langflestir með tekjur á bilinu 100-300 þús. kr. á mánuð, en í umsögninni kemur fram að verði grunnlífeyrir afnuminn, muni það hafa í för með sér að rúmlega 4000 manns lækki í eftirlaunum.   Þá er minnt á að krafa eldri borgara um að fá líkt og launafólk hækkun í 300 þúsund krónur sé hvergi nefnd í lagadrögunum en hún standi óhögguð.  Eins og áður sagði er félagið hlynnt þeim ákvæðum frumvarpsins sem fjalla um sveigjanleg starfslok og fleira og um það segir í umsögninni:

FEB tekur undir þau ákvæði sem fjalla um aukinn sveigjanleika og upphaf lífeyristöku. Í tillögunum er gert ráð fyrir að hægt sé að fresta töku lífeyris til 80 ára aldurs, enda hafi viðkomandi ekki fengið greiddan lífeyri hjá lífeyrissjóðum.
FEB telur mikilvægt að sambærileg ákvæði um sveigjanleika og upphaf lífeyristöku gildi samhliða einnig hjá lífeyrissjóðunum. Hjá lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði miðast t.d. hinn almenni eftirlaunaaldur við 67 ára aldur. Sjóðfélagi hefur val um að flýta töku lífeyris til 65 ára aldurs eða fresta til allt að 70 ára aldurs. Frestun lífeyris fram yfir 70 ára aldur hjá TR er hins vegar marklaus nema sambærileg ákvæði gildi hjá sjóðunum.
FEB tekur einnig undir þá tillögu að hækka hinn almenna lífeyristökualdur í áföngum og miða þá við 70 ára aldursmarkið. Hins vegar telur FEB þær tillögur ógerlegar nema sambærileg ákvæði gildi samtímis um alla starfandi lífeyrissjóði.

 

 

Ritstjórn ágúst 15, 2016 09:07