200 manns á námskeiði um Sturlungu

Eins og svo margir aðrir lærði starfsfólk Endurmenntunar og viðskiptavinir stofnunarinnar heilmikið í Covid faraldrinum og þrátt fyrir að fjarkennsla sé mikilvæg og tímabær þá eru margir þátttakendur þakklátir fyrir að eiga þess kost aftur að mæta í hús Endurmenntunar á Dunhaga 7 til að hitta aðra og fræðast í góðum félagsskap.  „Það spreyttu sig afar margir á þátttöku fjarnámskeiða við tölvuna heima og því þekkja nú fleiri en áður kosti og og hugsanlega galla slíks fjarnáms“, segir Jóhanna Rútsdóttir náms- og þróunarstjóri hjá Endurmenntun og bætir við að þessi tími hafi haft mikil áhrif á landslagið í námskeiðahaldi. „Einn ótvíræður kostur við að taka þátt í fjarnámskeiði er að ferðatími sparast og þátttakendur geta verið staddir hvar sem er í heiminum. Fjarnámskeiðsformið eykur því til dæmis möguleika þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins á að sækja námskeið hjá Endurmenntun sem og þeirra sem dvelja erlendis“, segir hún. „Á móti kemur að samskiptaformið verður annað og þátttakendur fjarnámskeiða fara því meðal annars á mis við þann ávinning sem hlýst af því að hitta annað fólk sem deilir sama áhuga og eiga samtal um hugðarefnin. Félagsskapurinn er mikilvægur þáttur fyrir mörg okkar“.

Sívinsæl Íslendingasagnanámskeið

Íslendingasagnanámskeið Endurmenntunar hafa verið gríðarlega vinsæl í gegnum áratugi en um 200 manns eru nú á námskeiði um Sturlungu og um 20% þátttakenda eru í fjarnámi.  „Mörg þeirra sem sækja Íslendingasagnanámskeiðin koma ár eftir ár fyrir fróðleikinn og félagsskapinn. Þetta er dýrmætur félagsskapur fyrir marga“, segir Jóhanna og bætir við að fólk geti þegar farið að láta sig hlakka til námskeiðs Torfa Tuliniusar um Laxdælu sem verður á dagskrá eftir áramót. Það er þó óþarfi að láta sér leiðast þangað til enda nóg um að vera hjá Endurmenntun.

Eldri borgara afsáttur hjá EHÍ

Eldri borgurum er veittur 10% afsláttur af námskeiðsgjaldi hjá Endurmenntun. Afslátturinn er tengdur kennitölu viðskiptavina og virkjast sjálfkrafa þegar greiðsluseðill fer út. Þeir sem skrá sig á fimm eða fleiri námskeið á sama misseri fá 20% afslátt af námskeiðsgjöldunum.  Þá selur EHÍ gjafabréf, sem geta hentað námsfúsum eldri borgurum sem eru hvergi hætt að læra. Hægt er að versla gjafabréfin á yay.is

Mikill fjöldi námskeiða í boði á þessu misseri

Námskeið Endurmenntunar eru fjölbreytt og geta hentað bæði þeim sem eru á vinnumarkaði og vilja styrkja sig í starfi og þeim sem vilja fræðast um skemmtileg viðfangsefni á sviði menninga og lista. Á misserinu sem nú stendur yfir eru hátt á annað hundrað námskeið í boði ýmist í stað- eða fjarkennslu.

Námskeið í skapandi skrifum og ættfræði hafa verið vinsæl meðal eldra fólks og þau eru enn í boði. Þá má nefna skemmtileg námskeið um Garðfugla, Draumaráðningar og ótal margt fleira. Nokkur námskeið eru talin upp hér fyrir neðan, en vefur EHÍ hefur einnig að geyma mjög aðgengilegar upplýsingar um námskeiðin og hann má skoða hér.

Að ferðast með lest – brunað áfram á vit ævintýranna  

Á námskeiðinu 7.nóvember verður fjallað um ferðalög með lestum en sérstök áhersla er lögð á lestarferðir í Evrópu og hvernig hægt er að komast um á þægilegan hátt, styttri og lengri leiðir. Farið verður yfir praktíska hluti, hvernig hægt er að skipuleggja og bera sig að á lestarstöðvum. Sérstaklega verður fjallað um undraheim næturlestanna, hvernig þær hafa fengið uppreisn æru og þá athygli sem þær eiga skilið á tímum þegar allir ábyrgir ferðalangar huga að kolefnisfótspori sínu. Sjá meiri upplýsingar hér.

Umsjónarmaður er Guðrún Ólafsdóttir, reyndur ferðalangur með meiru.

Smásagnaskrif   

Á námskeiðinu 8. nóvember verður smásagan skoðuð í sögulegu samhengi og rýnt í verk nokkurra þekktra smásagnahöfunda. Þá verður nákvæmlega farið yfir ólíkar leiðir og hina náttúrulegu afmörkun efnis smásögunnar. Nemendur fá einfaldar skýringar, viðeigandi verkefni og fjölmörg dæmi sem opna skilning. Til allra verkþátta er vandað og öllum leiðbeiningum fylgt úr hlaði með sérsniðnum æfingum. Kennari er Kristján Hreinsson, skáld og heimspekingur. Sjá meira um námskeiðið hér.

Ástand íslensku eldstöðvanna um þessar mundir.

Óvenjumörg eldstöðvakerfi á Íslandi hafa nýlega sýnt merki um aukna virkni. Auk kerfanna á Reykjanesskaga má telja Grímsvötn, Bárðarbungu, Heklu, Öskju, Öræfajökul og Ljósufjöll. Á námskeiðinu sem verður haldið 23. – 30.nóvember verður farið yfir helstu aðferðir sem beitt er til að greina ástand kerfanna og líklega þróun atburða.

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ sér um námskeiðið, sjá meiri upplýsingar hér.

Gönguferðir á Tenerife

Tenerife hefur upp á ýmislegt meira að bjóða en sól og strendur. Áhugafólk um útivist og göngur sækir gjarnan þangað, enda eru í boði óteljandi gönguleiðir, í fjölbreyttu landslagi. Þar ættu allir að geta fundið gönguleið á því erfiðleikastigi sem hentar hverju sinni. Ekki spillir heldur veðurfarið fyrir, en eyjan er sérlega aðlaðandi fyrir göngur að vetrarlagi.

Hnitmiðað námskeið 10. nóvember sem hefur það markmið að búa þátttakendur undir gönguferðir á eigin vegum á Tenerife Umsjón námskeiðs hefur Snæfríður Ingadóttir ferðalangur með meiru og hérna má sjá meiri upplýsingar um það.

 

 

 

Ritstjórn nóvember 3, 2022 07:00