Áhuginn á fortíðinni vaknar um fimmtugt

Námskeið um Íslendingasögurnar hafa verið á boðstólum hjá  Endurmenntun Háskóla Íslands um árabil. Jón Böðvarsson heitinn, fyrrverandi skólameistari, hóf leiðsögnina á þessum námskeiðum. Á hans vakt uxu námskeiðin hægt og rólega og urðu að lokum geysilega vinsæl. Eftir daga Jóns tók aðstoðarmaður hans, Magnús Jónsson, við keflinu og vinsældir námskeiðanna héldu áfram. Nú er það Ármann Jakobsson prófessor við HÍ sem sér, ásamt fleirum, um þessi námskeið hjá Endurmenntun og vinsældirnar hafa síst dvínað. Þessir þrír menn tileinkuðu sér allir sinn stíl í kennslunni og Ármann segist hafa lært af hinum tveimur en hafi meðvitað fundið sinn eigin stíl. Jón og Magnús voru ekki háskólakennarar en Ármann kemur úr háskólasamfélaginu og einnig Torfi Tulinius sem sá um námskeiðið í vor. Hann segir að í Háskólanum finnist fólki að háskólakennarar eigi að taka að sér kennslu á þessum námskeiðum, m.a. af því að það sé hollt fyrir þá að kynnast hópunum á slíkum námskeiðum og til að sýna almenningi að það sem þeir eru að gera þurfi ekki að vera lokað í turni sem almenningur hafi ekki aðgang að.

Hvað skýrir áhugann á gömlu sögunum?

Okkur lék forvitni á að heyra skoðun Ármann á því hvað hann héldi að orsakaði þennan mikla áhuga á Íslendingasögunum okkar svona ár eftir ár. Hann segir að það hafi komið sér á óvart hversu margir héldu áfram að sækja þessi námskeið og nokkrir hafi komið á þau öll. Hann bætir við að eðlilega séu flestir sem sæki námskeið um þetta efni á og yfir miðjum aldri sem komi til af ýmsu. “Ég held að þar sem námskeiðin eru í 8 vikur í senn finnist yngra fólki ef til vill of bindandi að mæta einu sinni í viku svo lengi á meðan þeir sem eldri eru séu vanari vinnulotum og hafi  líklega meiri eirð en yngra fólk.“ Fjöldi þátttakenda á námskeiðunum eru frá 150 til 270 mest og skipta vinsældir sagnanna mestu máli hvað varðar fjöldann. Ármann segir að þegar Egilssaga, Njála  eða Eyrbyggja séu teknar fyrir fyllist námskeiðin undantekningarlaust.

Fortíðaráhuginn grípur fólk  um fimmtugt

Ármann segist hafa tekið eftir því að þegar fólk er komið á miðjan aldur grípi það þessi veira sem sé áhuginn á því sem liðið er. Og jafnvel þeir sem hafi aldrei pælt í ættfræði fái hann gjarnan á þessum aldri. “Áhugi á upprunanum gæti orðið að áhuga á Íslendingasögunum því fyrir 50 – 60 árum þegar þetta fólk var að alast upp voru Íslendingasögurnar í hávegum hafðar og áhugi ungmenna og barna var kveiktur. Nú vill þetta fólk vita meira og kemur þess vegna á svona námskeið.” Ármann veltir fyrir sér hvort það sama verði uppi á teningnum eftir 30 ár eða hvort þetta sé hugsanlega seinasta kynslóðin sem brenni af slíkum áhuga á sögunum okkar.

Ármann blaðar í Morkinskinnu

Námskeiðin eru fróðleikur og afþreying í bland

Að sögn Ármanns eru námskeiðin um Íslendingasögurnar hugsuð sem blanda af fróðleik og afþreyingu. “Kennararnir reyna sitt besta að vera skemmtilegir, svona eins og leikari á sviði, og það getur verið bæði gleði og streita,” segir hann brosandi. “Námskeiðin eru eiginlega eins manns sýning þar sem kennarinn hefur orðið. Það er ekki hefð fyrir því á þessum námskeiðum að nemendur tali og þátttakendur eru líklega ekki komnir til að hlusta á aðra nemendur. Almennt gildir það raunar um kennsluhópa að samræður hefjast ekki fyrr en hópur fer niður fyrir 20 manns nema að kennari hafi því mun meira fyrir því.”

Fjölbreyttur hópur sækir námskeiðin 

Þátttakendur á námskeiðunum er mjög fjölbreyttur hópur að sögn Ármanns. Stór hluti sé fólk sem sé hætt að vinna, þarna megi sjá marga eldri lögfræðinga, lækna, verkfræðinga, kennara  og fólki úr atvinnulífinu. “Fyrst hugsaði ég að þetta fólk myndi kannski ekki þola mikið þegar kæmi að fræðikenningum og slíku. En það er nánast sama hvernig ég hef kynnt það sem ég hef fram að færa, því er nánast alltaf vel tekið. Klisjan er sú að ungt fólk sé mjög opið fyrir nýjungum en þeir sem eldri séu vilji ekki heyra um þær. En það kemur mér hins vegar sífellt á óvart hvað þátttakendur eru opnir og tilbúnir til að hlusta á nýjar kenningar. Það er engan veginn fast í gömlum fróðleik eða úteltum hugmyndum.”

Sögurnar geta aldrei verið sannar

Ármann segir að það geti verið mjög áhugavert þegar það er viðeigandi að bera saman þessar gömlu sögur við það sem er að gerast hjá okkur núna á dögum. Honum þyki gaman að láta sögurnar varpa ljósi á nútímann. Stjórnmálin og mannasiðir eru málefni sem sé mjög skemmtilegt að bera saman því sögurnar lýsi siðum og venjum sem geta verið ótrúlega líkar því sem við eigum að venjast í dag. Til dæmis sé endalaust rifrildi í Njálu um það hvar fólk situr við hin og þessi tilefni og eins geti sætaskipan verið viðkvæmt mál í sjálfu námskeiðinu. “Það hefur komið fyrir að fólk mætir of seint í tíma og finnur út að einhver annar hefur sest í sætið sem það taldi sitt. Þannig skilur fólkið  vel vandamálið sem kemur upp í Njálssögu og að það skipti máli hvar hver situr. Það eru ýmis sígild vandamál í sögunum:  Gestaboð þar sem gestgjafi móðgar gestina til dæmis eða gesturinn sem situr of lengi o.s.frv. Sögurnar eru einmitt mjög skemmilegar því í þeim er mikil vitund um samfélagsleg málefni. Fólk sem fætt var um aldamótin 1900 fannst þessar gömlu sögur nánast vera um sig. Þá var gert var ráð fyrir Íslandi sem hefði ekkert breyst frá 1300 til 1900 en þannig var það auðvitað ekki,” segir Ármann. Hann segir að öfugt við marga íslenska lesendur fjalli erlendir fræðimenn

Myndir af Jóni Sigurðssyni og Ingibjörgu eiginkonu hans prýða skrifstofuhurðina hjá Ármanni í Árnagarði

aldrei um hvort Íslendingasögurnar séu sannar eða ekki. Þeir líti á þær sem útgáfu einhvers af því sem gerðist en þær geti ekki verið sannar og það skipti heldur ekki öllu máli.

Námskeið sem fjalla um fortíðina

Ármann hefur einnig verið með námskeið þar sem fjallað er um Gíslasögu, Hrafnkelssögu og Gunnlaugssögu. Þær eru ekki alveg jafn þekktar en trekkja samt. Þátttakendur sem setið hafa þessi  námskeið segja að þau séu ekki aðeins fróðleg heldur líka hin mesta skemmtun og gefi þeim tækifæri til að hitta aðra með sama áhugamál. Þau séu að sumu leyti eins og að fara í leikhús enda sé hefð fyrir því að kennararnir séu hið skemmtilegasta fólk.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn september 28, 2018 09:51