Menn vilja lesa og heyra Njálu aftur og aftur

Sjálfsagt eru þeir sem skráðu sig, farnir að hlakka verulega til að byrja á Njálu námskeiði Endurmenntunar HÍ, sem nú er að hefjast. Ástríður, hetjur og dauði í Brennu-Njálssögu, er heitið sem Torfi Túlíníus prófessor í miðaldasögu hefur gefið námskeiðinu. Það eru þegar komnir þrír hópar á námskeiðið, tveir sem verða á staðnum í Endurmenntun og svo einn  í fjarkennslu.  Það fer ekki á milli mála að Njála er ein vinsælasta Íslendingasagan sem við eigum. En hvers vegna er hún svona vinsæl?  „Hún er mjög skemmtileg“, segir Torfi. „Við höfum varðveitt mörg miðaldahandrit af henni og hún hefur verið vinsæl öldum saman. Ég held að það sé af því að hún er svo góð. Menn vilja lesa og heyra hana aftur og aftur“.

Fer í rólegheitum yfir kaflana

Torfi segist ánægður með að kennarar við háskólann séu með námskeiðin hjá Endurmenntun. Hann segist fá mikið út úr kennslunni. „Það er farið í rólegheitum yfir þetta kafla fyrir kafla, sem er mjög skemmtilegt og áhugvert. Ég staldra við orðtök, fer yfir það sem er á seyði í sögunni og reyni að draga fram dýpri merkningu hennar. Ég fer einnig yfir það sem fræðimenn, bæði yngri og eldri segja um söguna. Svo eru nemendurnir vel menntað og upplýst fólk sem kemur með skemmtilegar spurningar“, segir hann.

Stundum lætur fólk ástríðurnar hlaupa með sig í gönur

Þótt Njála segi frá miklum ástríðum og sé harmþrungin saga, gerist ýmislegt spaugilegt í henni líka. „Það er gott og vont fólk í sögunni og stundum gerir gott fólk vonda hluti og lætur ástríðurnar hlaupa með sig í gönur“, segir Torfi og bætir við að kvenpersónur sögunnar séu mjög áhugaverðar og fjölbreyttar. „Þetta birtist snemma í sögunni þegar Hrútur föðurbróðir Hallgerðar, spyr í veislu þar sem Hallgerður er ung að árum, hvaðan þjófsaugu séu komin í fjölskylduna. Svo er það Gunnhildur Noregsdrottning sem skipar Hrúti að koma og sofa hjá sér. Hann vill halda heim til heitkonu sinnar á Íslandi og þá leggur hún það á hann, að hann muni aldrei geta notið heitkonunnar. Hvers vegna gerir hún þetta? Vegna þess að hann er ekki hreinskilinn við hana“, segir Torfi.

Lesandinn hættir að hafa samúð með Hallgerði

Torfi segir að þótt Hallgerður sé skaphörð hafi lesandinn samúð með henni. „Hún er gift fyrsta sinni gegn vilja sínum og Þjóstólfur fóstri hennar drepur eiginmanninn, vegna þess að hann lagði hendur á hana. Hann drepur einnig eiginmann númer tvö, sem Hallgerður elskaði. Þegar hún giftist Gunnari hættir lesandinn að hafa samúð með henni. Hún fer fram með svo miklu offorsi. Góður höfundur getur stýrt samúð lesandans með persónunum. Höfundur Njálu dregur upp mikið af flottum og mótsagnakenndum persónum, svo er hann svo góður í að sviðsetja samtöl“, segir Torfi.

Hélt stórveislur og þurfti að skemmta gestum

Áhugamenn um Íslendingasögurnar í nútímanum hafa mikil velt höfundi Njálu fyrir sér, hver var hann eiginlega?  Um það hafa verið settar fram margar kenningar.  Fyrr á öldum var lítið spáð í höfunda sagnanna, enda unnu þeir stundum saman, tóku efni hver frá öðrum og bættu jafnvel við sögurnar ýmsu frá eigin brjósti.  Torfi segir að Hermann Pálsson prófessor í Edinborg hafi skrifað um uppruna Njálu. „Hann hélt því fram að Árni Þorláksson biskup í Skálholti á síðari hluta 13.aldar væri höfundur hennar. Rökin sem hann tínir til eru staðarþekking Njáluhöfundar sem kemur heim og saman við það sem við getum vitað um ferðir Árna, auk þess sem hann var afkomandi ýmissa persónas sögunnar sem augljóslega hafa samúð höfundar. Árni var góður túlkandi Biblíunnar og hélt stórveislur á sinni tíð. Hann var mannasættir og hafði til að bera mikinn persónuleika“, segir hann.

Kirkjunnar menn höfðu þekkingu á innra lífi fólks

„Ég er svolítið hallur undir kenningu Hermanns. Höfundur Njálu var mannasættir og áhugasamur um lög og það var Árni líka. Svo hélt hann stórveislur, sem stóðu oft í marga daga. Brúðkaupsveislur stóðu í viku og jólaboð í tvær vikur.  Sagnaritunin spratt þannig af þörf fyrir að skemmta gestunum.  Árni biskup var manngerðin til að semja þetta. Sumum finnst fráleitt, að kirkjunnar maður hafi skrifað um ástir, hættulegar konur og bardaga, en kirkjunnar menn eru líka menn. Þeir voru á þessum tíma vanir að heyra alls kyns sögur, þeir voru skriftafeður og höfðu þekkingu á innra lífi fólks. Mér finnst þetta ekki fráleitt“, segir Torfi að lokum.

Mynd: Eldsveitir.is

Ritstjórn september 25, 2023 13:18