Nær helmingur námskeiða Endurmenntunar í gegnum ZOOM

Þegar COVID skall á urðum við að bregðast  hratt við og hugsa í lausnum því ekki var hægt að gera ráð fyrir öllum þátttakendum hingað á Dunhagann. Við gerðum nokkrar tilraunir með fjarkennslu í gegnum ZOOM, sem reyndist einfalt og auðvelt tæknilega bæði fyrir þátttakendur og kennara“, segir Jóhanna Rútsdóttir þróunarstjóri í Endurmenntun Háskóla Íslands þegar blaðamaður Lifðu núna brá sér í heimsókn til hennar til að forvitnast um námskeiðin sem þar eru haldin á tímum kórónuveirunnar . „Þetta gekk ótrúlega vel, kennararnir voru frábærir og vorið skilaði okkur nokkrum lærdómsríkum tilraunum“, bætir hún við.

Sneru dagskránni við á mánuði

Þegar það varð ljóst  í byrjun ágúst að COVID var alls ekki búið, tóku starfsmenn Endurmenntunar og kennararnir sig til og færðu  um helming dagskrárinnar yfir í fjarnámskeið og þau eru nú  45% námskeiðanna sem stofnunin býður uppá. „Það  kemur skýrt fram á vefnum okkar hvaða námskeið eru kennd á staðnum og hver þeirra eru í fjarkennslu. Við sendum þátttakendum ítarlegar leiðbeiningar um þátttöku í ZOOM áður en námskeið hefst og hægt er að fá  frekari aðstoð hjá okkur ef þörf krefur . „Framboð fjarnámskeiða hefur aldrei verið eins mikið hjá okkur og er auk þess afar fjölbreytilegt “, segir Jóhanna.  Viðbrögð eru  að hennar sögn mjög góð, fólk er ánægt með fjarnámskeiðin, bæði þeir sem eru varir um sig vegna faraldursins og þeir sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu. Hún segir þetta fyrirkomulag komið til að vera.

Meirihluti þátttakenda 50 ára og eldri

Það má skipta námskeiðum Endurmenntunar í tvo flokka. Annars vegar starfstengd námskeið á daginn, bæði almenn og fagtengd, en hins vegar kvöldnámskeið fyrir alla sem tengjast menningu og ýmsum fróðleik,  sem og persónulegri hæfni fólks. Um 80% þeirra sem sækja kvöldnámskeiðin er fólk um fimmtugt eða eldra og  konur eru þar í meirihluta. Meðal vinsælla námskeiða má nefna Íslendingasagnanámskeiðin, leikhúsnámskeiðin sem haldin eru í samvinnu við leikhúsin, ýmiss tungumálanámskeið, ættfræði og ritun æviminninga.  Á hverjum vetri eru um 400 námskeið á dagskrá Endurmenntunar og um  8000  manns sækja þau að jafnaði.  Aldursforsetinn á námskeiðunum í fyrra  var 94 ára.

Hætta við að koma og taka fjarnámskeið

„Þeir sem hafa tök á að mæta hingað til okkar  kjósa flestir að sækja námskeiðið sitt  á staðnum, en það er mjög stór hópur sem kýs nú frekar fjarkennsluna. Við höfum fundið það vel síðustu daga, að með auknum fjölda smita fjölgar í þeim hópi. . Þetta mun líklega sveiflast svona til næstu mánuði og því er frábært að vera komin með leið til að mæta síbreytilegri þörf þátttakenda og þjónusta alla“, segir Jóhanna. „Ég held það komi flestum á óvart hvað þetta er einfalt. Þú getur setið heima hjá þér í hægindastól með tebolla og stillt hjóðið eins hátt og þú vilt. Þú sérð kennarann og glærurnar hans sem og aðra þátttakendur og getur varpað fram spurningum og tekið þátt í umræðum““.

Fjarnámskeið í rauntíma

Jóhanna segir að þátttakendur  á fjarnámskeiðunum   þurfi að hafa nettengda tölvu með vefmyndavél og hljóðnema. Námsgögnin eru rafræn og fólk fær þau send í tölvupósti.  „Fjarnámskeiðin eru haldin í rauntíma og við biðjum fólk um að koma sér fyrir á stað þar sem það getur notið námskeiðsins án þess að eitthvað í umhverfi þess trufli á meðan á námskeiðinu stendur. Svo er þetta bara eins og ávallt, gott að mæta tímanlega svona til að átta sig á rafrænu kennslustofunni og hitta kennarann og hópinn áður en kennslan hefst“.

Kaffi og kleinur partur af námskeiðinu

Það er ekki ástæða til að láta COVID stoppa sig í að fara á skemmtileg námskeið í vetur og margir hafa þann háttinn á, rétt eins og þeir sem kaupa áskrift að Sinfóníutónleikum eða hjá leikhúsunum, að kynna sér námskeið Endurmenntunar og skrá sig á vetrarnámskeiðin strax á haustin. Jóhanna segir að það komi enn upp sá misskilningur að fólk þurfi að vera með háskólamenntun til að sækja námskeið Endurmenntunar. „Lang flest  námskeiðanna er öllum opinn óháð aldri, störfum  og menntun“ segir hún.  Það verður fagnaðarefni þegar Covid hættir að stjórna því hvort og hvenær þátttakendum er óhætt að  sækja námskeiðin hjá okkur . Það er nefnilega eitt að  taka námskeið til að fræðast og hafa það skemmtilegt, annað er samveran sem skiptir miklu máli – þegar  hún er möguleg. Maður er manns gaman. Kaffipásan er mikilvæg og fólk hittir hér gjarnan einhvern sem það þekkir.  „Kaffið og kleinurnar“ eru mikilvægur partur af námskeiðinu“, segir Jóhanna að lokum.

 

Ritstjórn september 22, 2020 06:28