- Hvalir, fuglar og fögur náttúra
Dagsferð til Vestmannaeyja er frábær leið til að skemmta og fræða bæði sjálfan sig og barnabörnin. Með því að leggja af stað snemma morguns má ná ferð til Vestmannaeyja klukkan 10.45 frá Landeyjahöfn. Fyrsta stopp í Eyjum ætti þá að vera einhver góður veitingastaður til að fá sér hádegisverð. Heimsókn í Eldheima væri næst og svo Þekkingarsetur Vestmannaeyja þar sem hvalirnir Litla Hvít og Litla Grá búa. Minjasafn Vestmannaeyja er áhugaverður viðkomustaður, einnig Stafkirkjan á Skansinum, Stórhöfði, Sprangan, Herjólfsdalur og gönguferð upp á nýja hrauninu er alveg nauðsynleg til að börnin fá tilfinningu fyrir náttúruhamförunum í Eyjum 1973.
- Leikvöllur, skrúðgarður og kyrrlátt kaffihús
Borgarnes er ekki nema rétt skottúr og þar er margt hægt að gera sér til skemmtunar. Bregða sér í sund, annað hvort í sundlauginni eða keyra að Deildartunguhver og heimsækja Kraumu. Skalla-Grímsgarður er einstaklega fallegur á sumrin og öll börn hafa gaman af að hlaupa frjáls um milli blóma og gosbrunna og trjáa. Bjössaróló er einstakur róluvöllur og þar gefast fjölbreytt tækifæri til að fara í skemmtilega og skapandi leiki. Heimsóknina er svo tilvalið að enda í Kaffi kyrrð. Það er einstakt og ljúft andrúmsloft á þessu kaffihúsi og innréttingarnar ævintýralegar bæði fyrir börn og fullorðna að njóta.
- Fossar, gamlir munir og gróður
Skógasafn er einstaklega áhugavert byggðasafn og tilvalin leið til að gefa barnabörnunum innsýn inn í sögu landsins og forna búskaparhætti. Hið sama gildir um Samgöngusafnið. Umhverfið á Skógum gefur líka færi á löngum og styttri gönguferðum sem eru til þess fallnar að njóta náttúrunnar. Til að mynda má ganga að Skógafossi og rifja upp þjóðsöguna um landnámsmanninn Þrasa Þórólfsson er sagður hafa komið fyrir fjársjóðskistu sinni í fossinum og nokkrir fullhugar reynt í gegnum tíðina að ná henni. Kvernufoss er svo rétt fyrir austan Skógafoss og bæði gilið og fossinn vel þess virði að skoða. Gróðurinn á þessu svæði er ríkulegur og Plöntuhandbókin ætti skilyrðislaust að vera með í för og nota tækifærið til að leita uppi algengar og sjaldséðari plöntur og læra nöfnin á þeim. Í Skógasafni er Freya Café og þar er hægt að fá margsskonar gómsætar veitingar en það er alltaf góð leið til að ljúka skemmtilegu ferðalagi að fá sér eitthvað gott að borða.
- Kuðungar, sandur og sól
Fjaran við Stokkseyri og Eyrarbakka er meðal þeirra skemmtilegustu á landinu. Þaðan má stund sjá hvali blása úti fyrir í góðu skyggni, seli gægjast upp úr sjónum og fyrir hugrakka er brimið í vondum veðrum áhugavert. Þetta er stærsta hraunfjara landsins, endi hins mikla Þjórsárhrauns, 8000 ára gamals hrauns en er það stærsta hraun bæði að flatar- og rúmmáli sem vitað er til að hafi komið upp í einu gosi í nútíma, þá er átt við nútíma í jarðfræðilegum skilningi. Allt í kring er fjölbreytt fuglalíf á ótal tjörnum og smápollum og fuglaskoðunarhús í friðlandi í Flóa og gaman að fara með börn þangað og leyfa þeim að kíkja á fuglana. Í fjörunni á vorin má hins vegar sjá rauðbrysting,a lóuþræl, sanderlu, tildru, margæs, rauðhöfðaönd og fleiri bæði sjófugla og endur. Við Stokkseyru er mikið af litríkum doppum, þ.e. smákuðungum sem börn hafa gaman af að tína og skoða litbrigðin.
- Heimsókn í Friðheima og Sólheima
Í Friðheimum hafa hjónin, Knútur og Helena, skapað sannkallaðan sælureit. Þau rækta tómata og hesta og bjóða ferðamönnum að kynnast hvoru tveggja. Þau eiga fimm börn sem öll taka virkan þátt í rekstrinum og það er mikið ævintýri fyrir borgarbörn að kynnast ylrækt, sérstaklega á þann sjálfbæra hátt sem iðkaður er í Friðheimum og að heimsókn í hesthús er einnig upplifun. Þá er ekki úr vegi að renna við í Sólheimum á heimleiðinni og leyfa börnum að ganga um þorpið og skoða handverk íbúanna.