Í þessari viku verða tvennir spennandi tónleikar í Hannesarholti. Tinna Margrét er ung og efnileg söngkona sem er að gefa út sín fyrstu jólalög. Í tilefni þess heldur hún ásamt hljómsveit jólatónleika í Hannesarholti 18.desember klukkan 20:00.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún afrekað margt. Hún hefur lokið klassískum söng frá Tónlistarskóla Garðabæjar, leikið og sungið á fjölum Þjóðleikhússins. Hún hefur skrifað, leikstýrt og leikið í eigin söngleik um ævi afa síns og einnig stofnað og stýrt listahátíð. Tónleikarnir einkennast af hátíðleika og fágun. Hún mun taka klassísk jólalög í bland við jólalög með jazz fíling. Titillag tónleikanna er lagið „Hljóða nótt“ en það var afi hennar söngkonunnar, Pálmar Ólason, sem samdi lagið við texta eftir Séra Magnús Guðmundsson.

Með Tinnu verður frábær hljómsveit skipuð þeim, Matthíasi Helga Sigurðarsyni gítarleikara, Magnúsi Stephensen píanóleikara, Alberti Linnet Arasyni bassaleikara og Magnúsi Skúlasyni trommuleikara. Bakraddir syngja þær Mirra Björt Harðardóttir og Sigríður Ásta Olgeirsdóttir. Miðasala fer fram á tix.is og um að gera að næla sér í miða og eiga notalega jólastund í Hannesarholti.

Þann 20. desember kl. 20 kemur svo tríó píanóleikarans Kára Egilssonar, ásamt saxófónleikaranum góðkunna Jóel Pálssyni og leikur frumsamin lög eftir Kára og sérvalin lög eftir aðra í nýjum útsetningum. Auk Kára og Jóels verða Nicolas Moreaux á bassa og Matthías Hemstock á trommur. Kári hefur verið úti í námi við Berklee tónlistarháskólann í Boston og verða nokkur lög sem hann hefur samið í haust frumflutt á tónleikunum. Miðasala fer fram á tix.is

Ritstjórn desember 17, 2024 16:45