Aron Axel Cortes á hádegistónleikum

Þriðjudaginn 4. nóvember kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á næstu hádegistónleika í Hafnarborg en þá verður barítóninn Aron Axel Cortes gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Á efnisskrá tónleikanna, sem bera yfirskriftina „Ást sem klikkar“, verða aríur úr óperum eftir Mozart, Donizetti, Wagner og Gounod.

Aron Axel Cortes, barítón, hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík þar sem hann nam bæði söng og kórstjórn og útskrifaðist árið 2009. Samhliða því stundaði hann nám í píanó og tónsmíðum við Tónlistarskólann í Reykjavík. Árið 2009 hóf hann nám við Mozarteum, fyrst hjá Mörthu Sharp og síðan árið 2014 hjá Boris Bakow og Therese Lindquist, þaðan sem hann lauk meistaragráðu í ljóðum og óratóríu árið 2016. Þá hafði han áður lokið meistaragráðu í óperu frá háskólanum árið 2014. Eftir útskrift hefur Aron Axel síðan sótt einkatíma hjá Helene Karusso í Vínarborg. Hann hefur einnig sótt meistaranámskeið hjá Kiri Te Kanawa, Kristni Sigmundssyni, Richard Stokes og Clary Taylor. Meðal óperuhlutverka sem Aron hefur leikið á sviði má nefna Don Giovanni úr samnefndri óperu Mozarts sem og greifann úr Brúðkaupi Fígarós, Escamillo úr Carmen eftir Bizet og Marcello úr La bohème eftir Puccini.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.