Það er margt skrifað og myndað í heimi tískunnar en kannski ekki svo mikið um tísku eldra fólks. Fyrirsæturnar sem sýna fötin sem við kaupum flest, eru yfirleitt fólk milli tvítugs og þrítugs. Hér kemur hins vegar stytt endursögn af bandarísku síðunni AARP, sem fjallar um fatatísku eldra fólks, enda gaman að velta henni fyrir sér. Greinin er eftir Simon nokkurn Doonan. Sumt af því sem hann nefnir á við hér á landi en annað síður og sumt alls ekki. Hér var reynt að staðfæra greinina að hluta. Gjörið svo vel.
Velsæmi og formlegheit fyrir þá eldri
Fyrir mörgum árum, kom einhver af þessum sjálfskipuðu tískulöggum, fram með hugmyndina um að fólk ætti að klæða sig eftir aldri. Hún gengur út á eftirfarandi: Því eldri sem þú ert því íhaldssamari áttu að vera í klæðaburði. Litir og áberandi föt eru fyrir unga fólkið. Aðhald, velsæmi og formlegheit eru fyrir þá sem eru eldri. Af einhverjum ástæðum var því slegið föstu að um leið og kona yrði fimmtug ætti hún að henda frá sér diskó veskinu og byrja að klæða sig eins og þunglyndur bókasafnsvörður frá 1940.
Því eldri því djarfari
Ég hef verið í tískuiðnaðinum í áratugi en aldrei skilið þetta þrúgandi viðhorf að fólk eigi að klæða sig eftir aldri. Í raun legg ég til hið gagnstæða: Ég legg til að því eldri sem þú verður því djarfari ættir þú að vera í klæðaburði. Ekki láta aðra halda aftur af þér með hugmyndum sínum um góðan eða slæman klæðaburð. Þú hefur greitt þínar skuldir. Þú hefur unnið þér inn rétt til að mála bæinn rauðan. Láttu vaða.
Aldrei auðveldara að kaupa tískufatnað
Ég er ekki að leggja það til að við förum öll að klæða okkur eins og trúðar í sirkus eða súludansarar. Þvert á móti. Ég er að tala um að bæta fatastílinn með skemmtilegheitum og frumlegheitum og það sem meira er, að tjá sig í gegnum hann. Við lifum í heimi tískunnar. Á tímum H&M tískunnar, samvinnu lágvöruverslanakeðja við hönnuði og allra internet tilboðanna sem eru í gangi, hefur aldrei verið auðveldara að verða sér úti um tískuföt og það hefur aldrei verið ódýrara. Þú getur keypt þér hvaða hlut sem er, á hvaða verði sem er, í hvaða stærð sem er, á öllum tímum sólarhringsins. Ég sló inn leitarorðið ”hlébarðabuxur” í leitarvélina mína og fékk upp 29 milljónir niðurstaðna, verð og stærðarbilin eru ótrúleg.
Að lífga uppá fatastílinn
Þér gætu fundist allir þessir valmöguleikar svolítið ruglandi, en andaðu rólega. Það er alls ekki erfitt að lífga uppá fatastílinn. Það er til einföld uppskrift að því, sama hvort sem þú ert karl eða kona. Byrjum á stelpunum. Þú fellur mjög líklega undir einn af eftirfarandi flokkum: Þú ert fáguð, síguni eða sérvitur í klæðaburði.
Tökum fágaða stílinn fyrst, segir í greininni. Þessi stíll er talinn sá fjölmennasti. Fyrstar í þessum stíl skal frægar telja Jackie Kennedy og Michelle Obama. Enda hafa þær efni á því. Lifðu núna bað um álit á því hvaða Íslendingar gætu fyllt þennan flokk og fékk nöfn eins og: Þórunn Sigurðardóttir leikstjóri, Herdís Þorgeirsdóttir fyrrverandi forsetaframbjóðandi og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir prófessor. Fágaði stíllinn er klassiskur en þó áberandi. Hann er kvenlegur, aðlaðandi og jafnvel nokkuð kynþokkafullur. Hver segir líka að eldri konur geti ekki verið kynþokkafullar? Fágaða týpan elskar aðsniðinn jakka yfir vel sniðin föt. Síðan eru það fylgihlutirnir og nóg af þeim. Enginn elskar handtöskur frá þekktum hönnuðum meira en fágaða týpan. Og hún elskar skó. Fágaða týpan vill sýnast hamingjusöm, njóta velmegunar og vera jákvæð. Hún fer í handsnyrtingu og lætur laga á sér hárið. Fágaða týpan mun um þessar mundir vera með handtösku í duffel stíl. Hvort sem hún er úr Coach eða YSL, aðalatriðið er að vera með töskuna á handleggnum.
Kannski hljómar þetta eins og of mikil fyrirhöfn. Kannski viltu frekar eyða tímanum þínum í að mála eða prjóna í staðinn fyrir að hoppa á milli snyrtibúða og snyrtistofa. Kannski passar þú betur í næsta flokk.
Sígauni. Í þessum flokki eru færri en í fágunarflokknum en ekki síður mikilvægir. Hugsaðu um Ali MacGraw að slaka á eða Goldie Hawn með kokteil í hendi. Með flæðandi lokka, í víðum gallabuxum, þykkum peysum, með grænbláa skartgripi, í útsaumuðum sjölum, flaksandi satin pilsum, þykkum sandölum og með stóra leðurtösku. Þetta útlit er auðvelt og hippalegt en samt ekki hallærislegt. Sígunastíllinn er fullkominn fyrir fólk sem er komið yfir fimmtugt. Auðveldari en fágaði stíllinn. Sígunastíllinn er þægilegur og víður. Hann snýst um handsaumaðar töskur, um sjöl í staðinn fyrir kápur. Hann snýst um að búa til sína eigin skartgripi, snýst um að nota ilmvötn með patchouli. Bara ekki of bókstaflega, þú vilt ekki láta rugla þér saman við manneskju sem fór út á Hrekkjavöku sem hippi en kom aldrei tilbaka. Meðal íslenskra kvenna gæti Edda Björgvinsdóttir leikona til dæmis fallið inn í þennan flokk, að minnsta kosti að hluta. Höfundur greinarinnar á bandarísku síðunni tekur skýrt fram að þessar týpur séu ekki meitlaðar í stein. Margar eru fágaða týpan þegar eitthvað stendur til en koma svo heim í sígunapeysuna eða öfugt. Fágaðar á daginn en sígunar á kvöldin, segir hann. Dorrit Moussaief fyrrum forsetafrú Íslands er vissulega fáguð týpa í klæðaburði, en hún er jafnframt uppátækjasöm í klæðaburði og greinilegur áhrifavaldur í tískunni.
Áhrifamiklir sérvitringar. Síðast en ekki síst, erum við með sérvitringana. Þó hópurinn sé lítill er hann mjög margbreytilegur. Greinarhöfundur segir að í honum séu týpur frá Whoopi Goldberg til Lady Gaga. Hér á Íslandi er Ragnhildur Gísladóttir tónlistarmaður gott dæmi um þennan stíl og Björk Guðmundsdóttir söngkona einnig. Við tökum eftir þessum týpum því þær hafa skapað sér sinn eigin sérstaka stíl, segir greinarhöfundur. Sumir sérvitringar, eins og til dæmis Tilda Swinson hafa sterk tengsl inn í tískubransann segir í greinini. Aðrar eru skapandi týpur héðan og þaðan sem hafa gaman af því að láta dáðst að sér og sýna sig.
Og þessi hópur spannar alla aldurshópa. Dæmi um sérvitringa er hægt að finna á einni af mínum uppáhaldsvefsíðum segir greinarhöfundur, Advanced Style, advancedstyle.blogspot.no. Ari Seth Cohen, stofnandi síðunnar, fagnar því að konur komnar á ákveðinn aldur ögri tískunni.
Þrátt fyrir að vera fámennur hópur, eru sérvitringar áhrifamiklir. Flíkurnar sem Cindy Lauper eða Gwen Stefani, eru í í dag, eru flíkurnar sem þú gætir verið í á morgun, eða eftir ár, eða jafnvel aldrei. Hverjum er ekki sama! Aðalhlutverk sérvitringa er að gera heiminn að áhugaverðari stað, til að skemmta okkur og hvetja okkur til að stíga út fyrir þægindarammann
Fatnaður karlanna
Nú þegar við erum búin að greina kvenlegu stílana skulum við skipta yfir í karlmennina, segir greinarhöfundur.
Samkvæmt minni reynslu eru karlmenn ekki jafn sveigjanlegir og konur þegar kemur að fatastíl. Þó að þeir séu nokkrir sem eru tilbúnir til að fara ótroðnar slóðir eru flestir að leita að einkennisbúningi, einhverju kerfi. En einkennisbúningur getur líka verið frelsandi, ef það er sá rétti.
Klæðir Mick Jagger sig eftir aldri?
Ég hef rekið mig á að flestir karlmenn eiga leynilega tískufyrirmynd, gamaldags karlmannlega tískufyrirmynd sem er vel falin í hugarfylgsnum þeirra. Þetta er bara spurning um að finna hana. Ég er að tala um Steve McQueen eða James Dean. Ég er sjálfur alltaf í hnepptum blómaskyrtum. Af hverju? Af því að Mick Jagger var alltaf í þeim árið 1966, og kallaðu mig brjálaðan, Mick gamli er enn mitt tískugoð nr. 1.
Til að finna út hvert er þitt tískugoð getur þú spurt þig, hvaða karlmanni dáist þú að fyrir útlit hans. Er það til dæmis Marlon Brando í On the Waterfront, stuttermabolir, rúllukragabolir og stuttir einfaldir jakkar. Eða kannski útlit Cary Grants í To Catch a Thief.
Vertu eins og þú vilt
Þegar þú hefur náð að ímynda þér þitt tískugoð, hafðu hlutina þá einfalda. Veldu nokkra hluti og keyptu þá. Langar þig að vera eins og Clint Eastwood í Play Misty for me? Með fullt af röndóttum skyrtum getur þú náð langt. Þó þú sért ekki með jafnmikið hár og Clint var með í þá daga þá getur þú náð börtunum. Láttu engan segja þér að þú getir ekki verið eins og þú vilt. Ef frúin setur fótinn niður, skaltu senda hana til mín.
Karlar með flottan fatastíl
Það er kannski dæmigert að fatatíska kvenna fær lungann úr þessari grein. Tíska karlanna virðist ekki jafn dæmigerð, þeim er að minnsta kosti ekki skipt í ákveðnar týpur þegar kemur að fatastíl. Meðal íslenskra karlamanna er að finna karlmenn með góðan fatastíl, að mati þeirra áhugamanna um tísku sem Lifðu núna leitaði álits hjá. Þar eru til dæmis nefndir: Bogi Ágústsson fréttamaður, Egill Ólafsson söngvari, Jakob Magnússon Stuðmaður og rithöfundurinn Sjón.
Lífgað uppá fatastílinn
En hér í lokin veitir greinarhöfundur bandarísku greinarinnar konum og körlum nokkur ráð varðandi fatastílinn. Taktu lítil skref. Þú getur ekki endurnýjað fataskápinn á einni nóttu. Af hverju ekki að byrja á einhverju sem verður þitt merki. Johnny Cash var með svartar skyrtur og bindi. Willie Nelson er með flétturnar sínar. Meryl Streep er með litlu kattargleraugun sín. Það eina sem þú þarft er eitthvað lítið til að hjálpa fólki að muna hversu frábær þú ert. Þetta gæti verið töfrandi nýr varalitur eða kannski stór armbönd fyrir konurnar, eða fyrir karlmennina, töff vasaklútur
Góða ferð, hafið það gott á ferðlagi ykkar um tískuheiminn.
Þessi grein er úr safni Lifðu núna.