Staðan er ævinlega sú sama. Þig langar að tala, en makinn er að horfa á sjónvarpið eða situr við tölvuna. Þú byrjar að segja honum eitthvað, eða spyrja hann spurningar og hann umlar eittvað, eða það sem verra er svarar ekki. Þér finnst eins og þú sért ósýnileg og hann er pirraður á því að þú skulir vera að trufla hann. – Þú lækkar raustina uns hún þagnar alveg. Þetta er sígilt vandamál sem margar konur þekkja, segir í grein á vefnum considerable.com. Það er sennilegt að karlar þekki þetta vandamál líka en við hjá Lifðu núna ákváðum að þýða greinina og staðfæra örlítið. En hvernig á að fá makann til að leggja við hlustir, þannig að hann heyri það sem þú hefur að segja? Dr. Terri Orbuch, sérfræðingur í ástarsamböndum gefur nokkur ráð í greininni, sem sögð eru virka. .
1.Veldu réttan stað og stund
Tímasetning skiptir öllu máli og þú verður að taka mið af aðstæðum, segir Dr.Terri. Að reyna að ræða við mannin þinn á meðan hann er að horfa á fótboltaleik, eða rétt áður en þið farið í háttinn, er ekki góð hugmynd.
Oft snýst þessi vandi meira um okkur sjálf en makann, segir hún. Okkur langar að tala um eitthvað sem við erum að hugsa um þá stundina og viljum gera það strax, því það hentar okkur best. En það er ekki víst að það henti makanum.
Leið til að fá hlustun: Veldu rólegan tíma, þegar þið eruð tvö saman. Kannski yfir kvöldverðinum. Eða farið í stutta gönguferð um hverfið og ræðið saman í leiðinni.
Önnur góð leið er að ræða saman í bílnum, ef þið eruð að fara eitthvað saman. Körlum finnst gott að leysa vandamál þegar fólk situr hlið við hlið, á meðan konum finnst gott að horfa framan í fólk þegar leysa á vandasöm mál.
2. Gaumgæfðu orð þín vel
Karlar og konur heyra hlutina ekki eins. Konum finnst gott að tala til að tengjast og ná sambandi við fólk. Þeim finnst gott að leggja öll spil á borðið. Karlar upplifa sömu orðræðu sem vandamál og hugsa strax, hvað hef ég nú gert?
Leið til að fá hlustun: Áður en þú byrjar að ræða það sem þig langar að tala um, reyndu að byrja á að segja eitthvað jákvætt. Ef þú byrjar á að nefna það hvað allt gangi vel í vinnunni hjá makanum eða þakka fyrir greiða sem hann gerði þér í gær, léttir það strax andrúmsloftið og auðveldar honum að slaka á. Það gerir að verkum að hann er opnari fyrir því sem þarf að ræða, segir hún.
3. Notaðu setningar sem byrja á ÉG ekki setningar sem byrja á ÞÚ
Ef þú segir til dæmis „Þú virðir mig ekki viðlits“ eða „Þú gengur aldrei frá fötunum þínum“, fer hinn aðilinn í vörn. Hann upplifir þetta sem ásökun.
Leið til að fá hlustun: Það er betra að segja „Mér finnst það ömurlegt þegar þú hendir fötunum þínum á gólfið“, eða „Það særir mig þegar þú svarar mér ekki þegar ég tala við þig.“. Ef þú notar orðið ég og talar út frá sjálfri/sjálfum þér, skilur sá sem þú talar við, hvaða áhrif hegðun hans hefur á þig.
4. Forðastu að blanda öllu saman í einn graut
Ef við lendum í rifrildi höfum við öll tilhneigingu til að fara að ræða ýmislegt sem hefur farið úrskeiðis í sambandinu áður og grafa upp gamlar syndir. Blanda öllu saman. Þetta kallar Dr. Terri „kitchensikning“.
Hún segir að ekkert komi út úr þessu, þar sem þetta fær þann sem rætt er við til að láta sem hann heyri ekki í þér. Þegar þú svo vilt ræða málin í næsta skipti, reiknar hann með sama hrærigraut og hlusta ekki á það sem þú hefur að segja.
Leið til að fá hlustun: Haltu þig við efnið. Ef þú finnur að þú ert pirruð eða ert að reiðast, andaðu þá djúpt nokkrum sinnum. Ef þú ert alveg að missa tökin á samræðunni, hættu þá bara og taktu þráðinn upp aftur síðar þegar þú ert upplagðari.
5. Láttu hann vita af umræðunni með fyrirvara
„Karlar vilja ekki láta koma sér á óvart“ segir Dr. Terri. Ef þú vilt ræða við makann um eitthvað sérstakt, eða mál sem þú hefur áhyggjur af, láttu hann þá vita með fyrirvara.
Leið til að fá hlustun: Sendu tölvupóst eða sms skilaboð og segðu að þig langi til að taka frá tíma til að ræða ákveðið málefni. Eða hringdu bara í makann og fáðu hann til að taka frá tíma fyrir mikilvægt samtal. „Þetta hjálpar körlum að undirbúa sig andlega fyrir það sem koma skal, segir Dr. Terri.
6. Vertu góð fyrirmynd
Þetta er kannski það mikilvægasta sem þú getur gert. „Góð leið til að ná athygli annarra er að veita þeim sjálfum athygli. Þetta er lögmálið um gagnvirkni“, segir Terri. Hún segir að ef þú ert elskulegur og veitir því athygli sem makinn þinn segir, gefir þú gott fordæmi sem hann muni síðan fylgja næst þegar ræða þarf erfið mál.
Leið til að fá hlustun: Næst þegar makinn talar við þig, gefðu honum allan þinn tíma. Slökktu á sjónvarpinu, leggðu frá þér bókina sem þú ert að lesa eða lokaðu tölvunni. Ef þú kemur fram eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig, síast það inn og makinn fer að breyta hegðun sinni.
„Það virkar“, segir hún. „Kannski ekki á einum degi, eða fyrstu vikunni, en smá saman munt þú sjá að hegðun makans breytist“.