Þegar börnin flytja að heiman

Þessa grein sem skrifuð er af konu sem heitir Laurie Lico Albanese, fundum við á netinu á síðu sem heitir considerable.com. Það var fróðlegt að lesa lýsingu hennar á því þegar hún fór aftur að búa ein með manninum sínum, eftir að börnin fóru að heiman. Hérna fyrir neðan er greinin í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Yfirgefið hreiður

Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst orðatiltækið „yfirgefið hreiður“ ömurlegt. Að tengja þessi tvö orð skapar tilfinningu um að menn hafi misst eitthvað. Að það sé autt pláss á heimili sem er gert úr sprekum og trjágreinum og það geti fokið á haf út í næsta stormi.

Þar sem við hjónin búum í þriggja hæða húsi í hollenskum stíl, ásamt hundi, tveimur stórum ísskápum og skrifstofu á efstu hæðinni, myndi ég ekki kalla heimilið hreiður. Ég myndi heldur ekki segja að það væri yfirgefið, jafnvel þótt börnin okkar séu bæði flutt að heiman.

Myndir frá ýmsum tímabilum ævinnar prýða veggina, allt frá barnamyndum sem eru málaðar með litlum fingrum, uppí myndir af því þegar börnin útskrifuðust úr háskóla. Af grænmetisgarðinum sem er fullur af grænkáli, tómötum og basil, auk mynda af góðum vinum og fjölskyldu. Einnig frá sumarfríum sem við höfum farið í um ævina.

En þegar ég horfðist í augu við að ég þyrfti aftur að fara að búa ein með manninum mínum honum Frank, eftir 25 ára hjónaband, varð ég áhyggjufull.

Erfiðleikar

Lífið var ekki auðvelt fyrst eftir að við byrjuðum að vera saman. Við voru hamingjusöm, en blönk. Við vorum ekki búin að búa saman lengi, þegar við fluttum til Chicago og giftum okkur. Ári síðar eignuðumst við dóttur. Þegar Frank hætti að selja bækur og settist aftur á skólabekk til að taka MBA gráðu, urðum við enn blankari.

Og lífið hélt áfram. Móðir mín lést úr lungnakrabbameini í sama mánuði og við eignuðumst annað barnið okkar, strák. Líf mitt einkenndist af sorg, brjóstapumpum og vaxandi blankheitum.  Um það leyti sem Frank útskrifaðist voru bankareikningarnir tæmdir. Það komu dagar, sem ég fór ekki í búðina af því við áttum ekki krónu.

Áhyggjur og sorg snerust upp í kvíða og hærðsluköst. Móðir mín var dáin, eiginmaðurinn var í New York að leita ser að vinnu og í sex mánuði vaknaði ég grátandi upp á hverjum einasta morgni.

Einhvern veginn komumst við klakklaust í gegnum þetta og fórum að lifa hamingjusömu fjölskyldulífi. Ég hafði nóg að gera. Ég fékk útgefnar smásögur og varð þekkt fyrir að vera með margt í gangi í einu, kona sem gat haldið mörgum boltum á lofti samtímis

Þetta gekk svona lengi, en þegar börnin fluttu bæði að heiman fyrir nokkrum árum velti ég fyrir mér. Hvað ef þetta voru bara sjónhverfingar, ef ég hefði einungis lært að halda svona mörgum boltum á lofti í einu, til að fela kvíða minn og óöryggi? Hvað ef það myndi hafa slæm áhrif á hjónabandið þegar við færum að búa saman tvö án barnanna? Ef það myndi draga fram streituna, þögnina og efann, í stað þess að laða fram það besta í sambandinu?

Þögnin, var ég búin að segja ykkur frá því að maðurinn minn er ákaflega dulur .

Þögnin

Fyrstu mánuðina eftir að sonur okkur fór í háskóla, beið ég oft eftir því að Frank segði eitthvað, bara hvað sem var, en svaraði ekki bara ef ég bryddaði uppá samræðum.

Þegar ég hafði beðið svo lengi að þolinmæðina þraut, sagði ég við hann. „Í Guðs bænum Frank, þú verður að tala meira við mig“. Brátt vorum við farin að ræða um það að hann segði aldrei orð. Mér fannst betra að tala um það, en þegja.

Þetta var byrjunin og það braut ísinn, þannig að við fórum að ræða hvernig við gætum lagað okkur að þessu nýja lífi okkar tveggja saman. „Ég þoli ekki þá kvöð lengur að þurfa alltaf að elda kvöldmat klukkan sjö“, sagði ég. „Að gera innkaupalista, versla, elda, leggja á borð og ganga frá eftir matinn. Við erum bara tvö og þetta tekur alltof langan tíma“.

Frank hlustaði á mig. Ef okkur langar ekki að elda, förum við núna út að borða eða borðum eitthvað sem er til í ísskápnum. Frank hefur hresst uppá matreiðsluhæfileika sína og hefur reynst góður í að útbúa eitthvað gott úr afgöngum.

Ég er farin að venjast því að það er rólegt í húsinu.

Kostirnir

Það er enginn að spila háværa tónlist lengur og það þarf ekki að fylgjast með útivistartímum barnanna eða því hvernig stendur í bólið hjá þeim í dag. Og kynlífið, við getum stundað kynlíf þegar okkur dettur í hug. Þess vegna klukkan þrjú að degi til, eða um helgar þegar við erum upplögð.

Þegar hnén fóru að bila varð ég að hætta að spila tennis. Þá fengum við okkur ný hjól og fórum að hjóla. Frank fór að stunda Tai Chi og ég jóga.

Mér til undrunar færðist yfir okkur ákveðin ró og mér fannst það notalegt.

Ég lærði að fylgja deginum í stað þess að vera alltaf að skipuleggja allt. Þegar sonur okkar fór til náms í Edinborg fórum við þangað í heimsókn og þegar dóttirin lauk námi og kenndi í eitt ár í Phnom Pen, skelltum við Frank okkur þangað. Það kom í ljós að ferðalög – og að hafa fjárráð til að ferðast – er einn helsti kosturinn við „yfirgefið hreiður“.

Erum eldri en ekki hætt öllu

Ég skrifa þessa grein um borð í lest frá Flórens á Ítalíu til Pomeii. Börnin fóru með okkur fyrsta hluta ferðarinnar, til að halda uppá 30 ára brúðkaupsafmælið okkar. Núna erum við Frank á leið til Calarbria. Ég pakkaði niðiur verkjartöflum, hnéhlífum, bíkíni og östrógen kremi. Við erum eldri, en við erum ekki hætt að lifa lífinu og erum enn að uppgötva nýja hluti.

Við skulum ekki tala um yfirgefið hreiður, heldur samlokur sem njóta þess að vera saman.

 

Ritstjórn desember 6, 2018 09:21