Ódýrt til Tenerife

Fyrir sólarþyrsta íslendinga á öllum aldri er hægt að komast tiltölulega ódýrt til Tenerife. Með því að leggjast yfir veraldarvefinn og leita er oft hægt að finna ódýrar ferðir. Lifðu núna hafði spurnir af tveimur konum á besta aldri sem fóru í mánaðarferð til Tenerife og var heildarkostnaðurinn við ferðina rúmar 155 þúsund krónur á mann.

Flogið var með Wow flugfélaginu en það flugfélag býður uppá beint áætlunarflug til Tenerife. Miðinn var keyptur þann 7. nóvember, flogið var út þann 31. janúar og heim þann 28. febrúar sl. Hvor kvennanna um sig tók með sér eina ferðatösku og með tösku-, sæta- og bókunargjöldum kostaði hvor miði kr. 58.394.  Ekkert var að athuga við þjónustu flugfélagsins. Hefðu konurnar kært sig um að millilenda hefði mátt fá flugið enn ódýrara en þær kusu þægindin við beint flug.

Aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu notað þjónustu Airbnb með góðum árangri og því var ákveðið að leigja íbúð á þeirra vegum. Ágæt íbúð fannst í bænum Los Chistianos  í göngufæri við strönd og fjölda veitingastaða. Íbúðin var í blokk með aðgangi að sundlaug. Eitt svefnherbergi var í íbúðinni, þar var stofa með svefnsófa, eldhús  með þvottavél og baðherbergi. Internettenging innifalin. Íbúðin var afhent þrifin með sængurfötum og handlklæðum en þrif meðan á dvöl stóð voru ekki innifalin en stóðu til boða gegn gjaldi. Eigendur íbúðarinnar buðust til að aka konunum frá og til flugvallar gegn 50 evru gjaldi báðar leiðir, nokkuð sem þær nýttu sér og allt stóðst. Íbúðin kostaði kr. 187.488 í þessar fjórar vikur. Heildarkostnaður við ferð kvennanna, það er flug, akstur til og frá flugvelli og gisting kostaði þannig hvora konuna kr. 155.246. Sem var talsvert lægri upphæð en ef þær stöllur hefðu keypt ferðina í gegnum ferðaskrifstofu. Konurnar áætluðu að þær hefðu sparað um það bil 100 þúsund krónur hvor um sig á ferðinni miðað við ferðaskrifstofuverð.

Flugið var bókað í gegnum vef Wowair.is og gisting og akstur til og frá flugvelli í gegnum Airbnb.is. Svo er hægt að bóka gistingu í gegnum ýmsa vefi má þar nefna booking.com og hotels.com. Oft er hægt að finna ódýr flug í gegnum Dohop.is sömuleiðis gistingu og bílaleigubíla. Svo má nefna Skyscanner. Bókunarsíðurnar eru mun fleiri það er bara að setjast niður og fara að leita, vilji fólk kaupa ódýrar ferðir til útlanda.

Ritstjórn apríl 6, 2017 14:03