Flestir finna án efa fyrir neikvæðum áhrifum hraðans og asans í samfélagi nútímans. Innan borga er hvergi er kyrrð að finna, alls staðar niður, suð, glamur og skarkali. Ómur kyrrðar samanstendur af nokkrum hugleiðingum Eckharts um hluti, umhverfi mannsins, lífið og verðmæti. Hver hugleiðing er stuttur en vel ígrundaður texti og víða er spurt áleitna spurninga eða settar fram staðhæfingar sem vert er að hugsa um.
Þessi bók er frábær viðbót við fyrri bækur Eckharts en þegar bók hans, Mátturinn í núinu eða The Power of Now, kom út árið 1997 óraði engan fyrir því að hún ætti eftir að ná metsölu í Bandaríkjunum og verða þýdd á ótal tungumál. Þessi einfalda en jafnframt magnaða sjálfshjálparbók er talin meðal klassískar verka í sínum flokki og ótal margir telja sig hafa fengið mikið út úr nýta sér þær hugrenningar er þar birtast.
Lexíurnar sem Eckhart vill kenna eru þær að menn geta rofið hugsanaferlana í höfðinu og gefið sjálfum sér vald til að stjórna líðan sinni. Þú ert ekki eingöngu hugur þinn og þínar hugmyndir skilgreina þig ekki. Þú getur þjálfað hugann, stjórnað honum og öðlast aukna hugarró. Með því að taka sér frí frá ytra áreiti og hætta að láta hugsanirnar stjórna sér nær fólk að skynja og skilja sjálft sig á nýjan hátt. Í kyrrðinni heyrir manneskjan eigin rödd skýrt. Hún nær að skilgreina hvað hún raunverulega vill og hættir að láta gerviþarfir og óraunhæfar væntingar stjórna sér.
Eckhart Tolle vakti heimsathygli þegar hann fór að koma fram í þáttum Opruh Winfrey og miðla þar þekkingu sinni á hamingju og vellíðan. Hann er þýskur að uppruna en býr í Kanada. Hann vill kenna mönnum að öll svör, aukna vellíðan og meiri hamingju sé að finna innra með okkur og með því að einbeita sér að núinu geti hver og einn fundið lífi sínu bæði tilgang og gleði. Hugurinn þarfnast hvíldar rétt eins og líkaminn. Með því að gefa honum færi á að endurnærast í kyrrð og ró fækkar neikvæðum hugsunum og hugsanaferlum. Fortíðin á ekkert erindi inn í núið. Sársauki hennar er að baki og það er óþarfi að endurlifa hann stöðugt. Eckhart Tolle er einn áhrifamesti höfundur andlegra bóka í heiminum og alltaf þess virði að hlusta þegar hann talar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







