Hvað er hjarðónæmi?

Bólusetning gegn Covid er hafin hér á landi og takmarkið er að ná svokölluðu hjarðónæmi, en sóttvarnarlæknir hefur gefið það út að til að það náist þurfi 70% fólks að láta bólusetja sig.  Jóhann Heiðar Jóhannsson læknir  skrifaði pistil á Facebook þar sem hann lýsir því nákvæmlega hvað hjarðónæmi er og fer lýsing hans hér á eftir:

Jóhann Heiðar Jóhannsson

Nú er oft minnst á svonefnt „hjarðónæmi“ í tengslum við kórónuveirusjúkdóminn og því finnst mér sjálfsagt að ræða það fyrirbæri aðeins. Heitið gefur til kynna að tiltekin „hjörð“ (hópur innan samfélags eða þjóðar) sé samanlagt orðin svo „ónæm“ fyrir ákveðnum smitsjúkdómi að lítil hætta sé á að hann dreifist mikið milli manna í þeim hópi. „Ónæmið“ byggist á því að nógu margir einstaklingar í hópnum hafi myndað mótefni eða mótfrumur gegn sýklinum, svo sem bakteríu eða veiru, þannig að þeir smitist ekki og áframhaldandi smitun og útbreiðsla sýkingarinnar eigi sér ekki stað.

Nú á tímum er bólusetning gegn tilteknum sjúkdómi algengasta og besta aðferðin til að ná slíku „hjarðónæmi“. Bólusetningin er þá markvisst skipulögð og á að leiða til virkjunar ónæmiskerfisins og mótefna- og mótfrumumyndunar hjá þeim sem bólusettir eru, án þess að þeir veikist af sjúkdómnum. Oft er miðað við að 60-80% einstaklinga innan hópsins verði að hafa myndað sértækt ónæmi til að bólusetningin dugi til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins.

Hins vegar getur hjarðónæmi einnig myndast við útbreidda, náttúrulega sýkingu í samfélaginu eða við þá aðferð að „láta“ einstaklinga sýkjast til að virkja ónæmiskerfi þeirra til ofangreindrar sjúkdómsvarnar. Til dæmis var það oft gert í mínu ungdæmi að ungar stúlkur voru sendar á heimili þar sem rauðir hundar höfðu komið upp og þær þannig „látnar“ sýkjast af þessum tiltölulega saklausa sjúkdómi. Markmiðið var að þær gætu þá ekki sýkst á meðgöngutíma, en slíkt gat valdið alvarlegum vanskapnaði hjá fóstri.

Tilraunir til að mynda hjarðónæmi með því að leyfa eða stuðla að útbreiðslu náttúrulegrar sýkingar eru þó mjög varasamar ef um alvarlegan sjúkdóm er að ræða, hvort sem „alvarleikinn“ felst í miklum veikindum eða dauða af völdum sjúkdómsins, erfiðum fylgikvillum eða langvarandi afleiðingum. Síðast en ekki síst getur mikil og skyndileg útbreiðsla tiltekins sjúkdóms með slíkum hætti valdið yfirþyrmandi álagi á heilbrigðiskerfi viðkomandi „hjarðar“ og þannig komið í veg fyrir nauðsynlega þjónustu við sjúklinga þessa sjúkdóms og sömuleiðis truflað þjónustu við aðra sjúklinga.

Ritstjórn desember 30, 2020 07:20