Virðingarstigi bóluefnaþega

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar:

Katrínu var fagnað sem og Svandísi þegar þær mættu í Laugardalshöllina til bólusetningar. Þórólfur og Alma fengu standandi lófatak. Þau áttu það skilið. Heilbrigðis- og stjórnvöld hafa staðið sig vel í Covid-faraldrinum sem hrellt hefur okkur á annað ár. Tekist hefur að halda lífi eftir atvikum eðlilegu í landinu undanfarin misseri, þótt vitaskuld hafi þurft að grípa til ýmissa aðgerða í því skyni að hindra útbreiðslu veiruskrattans.

Það stóð hins vegar enginn upp og klappaði þegar ég mætti í stuttermabol í sömu höll í apríllok, hafandi lagt upp á grasi því bílastæði var ekki að finna. Það var metdagur í bólusetningu, líklega tíu þúsund manns boðaðir þann daginn. Íslendingum hafði þá skömmu áður áskotnast aukaskammtur af AstraZeneca bóluefninu frá frændum okkar í Noregi. Þarlendur kollega Þórólfs vildi ekki sprauta því í sína menn, vegna hugsanlegra aukaverkana, en okkar Þórólfur sagði það nógu gott í karla sem komnir væru á virðulegan aldur. Farið hefur fé betra, hugsuðu sumir. en það voru þó ekki orð okkar ágæta sóttvarnalæknis. Hann hikaði heldur ekki sjálfur og lét sprauta sig með AstraZeneca, sýndi fínt fordæmi. Sama gilti um starfsbróður hans, Kára Stefánsson, og gott ef forseti lýðveldisins fékk ekki sama efni í kroppinn.

Ég gat því ómögulega verið með einhverja stæla þegar ég fékk boð um að mæta og meðtaka minn AstraZeneca skammt í vinstri handlegg. Grímuklæddur mætti ég í höllina, líkt og allir aðrir. Ég þekkti engan og enginn þekkti mig. Ég var aðeins strikamerkt kennitala. Hjúkrunarfræðingarnir gengu fumlaust til verks og sprautuðu með færibandatækni. Magnað skipulag.

Við erum öll orðin sérfræðingar í lyfjaheitum í kjölfar þessa faraldurs, þekkjum ekki aðeins nöfn lyfja heldur mismunandi eiginleika og virkni þeirra, að minnsta kosti bóluefna. Ég meðtók minn AstraZeneca skammt möglunarlaust, tók örlögum mínum, en viðurkenni þó að ég horfði nokkrum öfundaraugum á eiginkonu mína þegar hún fékk sína meldingu. Hún fékk hana raunar á undan mér, þótt hún sé árinu yngri. Frúin fékk Moderna. Það er, að mér skilst, nokkuð annarrar gerðar en AstraZeneca þótt veiruvörnin sé svipuð. Það er ekki laust við að það sé svolítill stéttamunur á þeim sem fá Pfizer og Moderna annars vegar og AstraZeneca og Janssen hins vegar, hvað sem líður bláu blóði þeirra Þórólfs, Kára og Guðna forseta. Ég segi ekki að Moderna- og Pfizerfólkið líti niður á okkur Astraþegana en það vottar kannski fyrir nokkurri vorkunn. Ég veit ekki hvað Janssenfólkið hugsar. Líklega er það á sama stað í tilverunni og við Astramenn, þótt sá kostur fylgi að aðeins þarf eina Janssensprautu. Norðmenn og Danir líta Janssen sömu augum og AstraZeneca og vilja ekki sprauta því efni í skandinavíska handleggi.

Því má heldur ekki gleyma að fólkið með „fínu” bóluefnin þarf ekki að bíða eins lengi á milli bólusetninga, aðeins 3-4 vikur á meðan Zenecasöfnuðurinn má búa við það að bíða í þrjá mánuði. Minn betri helmingur er nú þegar með tvöfalda og fulla bólusetningu en ég fæ seinni skammtinn ekki fyrr en í júlílok, ef að líkum lætur. Mín góða kona getur því „tjillað” að vild á meðan ég verð að halda mig til hlés. Ekki að það skipti sköpum. Við förum varla til útlanda fyrr en betur rætist úr ástandinu, minnug þess er við vorum sett í stofufangelsi á herbergi okkar á hóteli á Tenerife í upphafi faraldursins í mars í fyrra. Það var ekki skemmtilegt.

Óvíst er síðan hvar Spútnik V og Spútnik light lenda í virðingarstiga bóluefnanna, fáist leyfi til þess að bólusetja mörlandann með framlagi Rússa gegn heimsfaraldrinum. Tvær sprautur þarf af Spútnik V, sem gefur þá, að sögn, yfir 90 prósent veiruvörn, en aðeins þarf að sprauta einu sinni með Spútnik light. Sá létti veitir að vísu ekki alveg eins góða vörn, eða sem nemur tæpum 80 prósentum. Pútín sjálfur lét sprauta sig með sterkari Spútnikknum, hvað annað, eilífðarforseti sem lætur mynda sig beran að ofan, ríðandi á tígrisdýri.

Maður keppir ekki við kappa eins og Pútín. Hann þolir hvaða skammt sem er án aukaverkana – en ég tek fagnandi og fegins hendi (upphandlegg) seinni skammtinum af AstraZeneca – þegar Þórólfur okkar allra kallar.

 

Jónas Haraldsson maí 17, 2021 08:10