Tengdar greinar

Að hægja á sér í hröðum heimi

Hæglætishreyfingin á Íslandi stendur fyrir viðburði 14. desember nk., kl. 13-15, í sal H-102 á Háskólatorgi. Þar mun Carl Honoré kemur fram og flytja fyrirlestur um hugmyndafræði Hæglætishreyfingarinnar (The Slow Movement) en hann er talsmaður Hæglætishreyfingarinnar. Í fréttatilkynningu frá Hæglætishreyfingunni segir:

„Stöðug pressa um að gera allt hraðar hefur þau áhrif að við flýtum okkur í gegnum lífið í stað þess að lifa því í raun og veru. Ef þú gírar þig niður, stígur á bremsuna, nærðu yfirsýn og allt raðast á sinn stað. Þú tengir betur, skapar meira, einbeitir þér betur og afkastar meiru. Þú einfaldlega lifir meira og betur.“

-Carl Honoré

Carl Honoré er kanadískur rithöfundur og blaðamaður, sem nefndur hefur verið talsmaður hæglætis (The Voice of the Slow Movement). Carl Honoré hefur skrifað nokkrar bækur um ávinning hæglætis, m.a. bókina Lifum lífinu hægar, In Praise of Slow sem kom út árið 2004 og hefur síðan vakið heimsathygli fyrir boðskap sinn um ávinning hæglætis og hægara samfélags, hægari og betri ákvarðanatöku, gæði hægari samskipta og margt fleira. Carl er eftirsóttur fyrirlesari og vinnur mikið í Bandaríkjunum en einnig víða annars staðar í heiminum.

Sífellt oftar heyrum við talað um mikilvægi þess að við hægjum á, gætum að því að hlúa betur hvert að öðru innan samfélagsins, innan fjölskyldna, innan viðskiptalífsins og meðal starfsfólks hvarvetna. Hraði og streita eru einkennandi fyrir íslenskt samfélag og ástæða er til að efna til vitundarvakningar um að hægt sé að breyta því, þannig að samfélaginu takist að hlúa betur að lýðheilsu þjóðarinnar, skapa betri og innihaldsríkari félagsleg tengsl og byggja á betri ákvörðunum teknum í yfirvegun og af skynsemi. Há tíðni kulnunar, neikvæð áhrif og áreiti vegna snjalltækjanotkunar, aukinn einmanaleiki og kvíði eru áskoranir samtímans sem hægt er að vinna gegn með því að auka meðvitund um að það er hægt að velja að lifa hægar og í betri tengslum. Hæglæti getur þannig verið víðtæk forvörn gegn uppbyggingu skaðlegrar streitu, hún getur skapað tækifæri og rými fyrir hamingju og heilbrigði.

Hæglætishreyfingin á Íslandi (The Slow Movement in Iceland) er ungt félag, stofnað árið 2021. Hæglætishreyfingin er kynningar- og umræðuvettvangur fyrir fólk sem hefur tileinkað sér eða hefur áhuga á að tileinka sér hæglæti (e. Slow Living). Tilgangur Hæglætishreyfingarinnar er að tala fyrir og fjalla um hæglæti. Hæglæti er líf í meðvitund og svar við hraða og streitu samfélagsins.

Saga Hæglætishreyfingarinnar

Hæglætishreyfingin á rætur sínar að rekja til Hæglætisfæðuhreyfingarinnar (e. Slow-food movement) sem varð til á Ítalíu á níunda áratug liðinnar aldar.

Sagan segir að upphafsmaður hreyfingarinnar, Carlo Petrini, hafi í einskonar mótmælaaðgerð gegn skyndibitastöðum á borð við McDonalds, hafið baráttu við að vernda ítalskar matarhefðir og menningu sem fólu það í sér að taka sér góðan tíma til matargerðar og neyslu matar, að notast við hráefni sem væri ræktað sem mest í nálægð við neytandann og að matur væri útbúinn frá grunni. Aðalhvatningin var að njóta þess að matbúa og borða í hæglæti. Í dag hefur Slow-food hreyfingin breiðst út um allan heim og nýtur verðskuldaðrar hylli. Frá Slow-food hreyfingunni teygði Hæglætishreyfingin sig smám saman í ýmsar áttir, m.a. í tískuheiminn með Slow-fashion, í ferðamannaiðnaðinn með Slow-travel, í uppeldi með Slow-parenting og áfram mætti lengi telja.

Hæglætislíf er nokkuð sem fylgt hefur mannkyninu frá örófi alda en hefur ekki verið ástundað af stórum hópum fólks nú um langa hríð. Þessi ofsalegi hraði, kröfur og áreiti sem einkennir stóran hluta heimsin hefur verið að aukast síðustu 100 ár. Hæglætishugmyndir og hugmyndafræði eiga rætur sínar að rekja allt aftur til forngrikkja og þangað leitum við meðal annars að innblæstri.

Hæglæti er að breiðast út um heiminn og er afar gott mótvægi við gífurlegu áreiti sem stafar alls staðar frá, sérstaklega með sítengingu okkar við skjátækin og samfélagsmiðla.

Hæglæti er svar við hraðanum sem ríkt hefur í samfélaginu um langt skeið og getur það hjálpað okkur að ná aftur tökum á faraldri streitu, tengslarofs og kulnunar sem geisar.

www.haeglaeti.is

Ritstjórn desember 5, 2024 09:17