Koma endurnærðar af kóræfingu

Anna Kristine Magnúsdóttir skrifar

Degi er tekið að halla og haustið gerir vart við sig með hífandi roki og rigningu. Inn í hús gegnt Hlemmi má sjá huggulegar konur á öllum aldri ganga inn. Tigulegar. Flottar konur. Það er að hefjast kóræfing í söngskólanum Domus Vox en það er Margrét J. Pálmadóttir einn af eigendum skólans og kórstjóri sem ætlar að æfa konurnar í Cantabile.

Kórstjórinn frábæri

Konurnar í Cantabile kórnum eru úr öllum stéttum þjóðfélagsins og á aldrinum 30 til 76 ára. Þær eru flestar ennþá útivinnandi og þarna hittir maður hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, ritara, starfsfólk í sjúkraþjálfun, fyrirtækjaeigendur, fréttakonur, snyrtifræðinga og svona mætti lengi telja, enda 53 konur á æfingunni sem ég sæki. Það er hreint út sagt ótrúlegt að sjá hversu góður kennari Margrét er. Hún æfði þær í lagi sem virkaði mjög erfitt og ég hugsaði: Þetta tekur nú margar vikur að læra, en eftir eina og hálfa klukkustund söng kórinn lagið eins og þær hefðu aldrei gert annað.

Ég fékk sex söngkonur til að segja mér af starfinu og söngáhuga sínum, en þar sem flestar eru útivinnandi lá beinast við að spyrja hvort þær skrópi ekki stundum eftir fullan vinnudag?

Nei, segir Björg Ólafsdóttir sem nú er komin í hálfs dags vinnu á skrifstofu. Það er svo hressandi og gaman að koma á kóræfingu. Það kemur vissulega fyrir að ég sé þreytt og nenni ekki út aftur, en ég mæti alltaf á æfingu því þá veit ég að ég kem óþreytt heim. Ég held að söngáhugi minn sé meðfæddur. Ég söng í leikskólanum og í barnakór hjá Æfingadeildinni og síðar hjá Kvennó og Verzló. Ég byrjaði hjá Margréti J.Pálmadóttur haustið 1997 en hafði reyndar áður sungið með Kvennakór Reykjavíkur undir hennar stjórn, síðan með Gospelsystrum Reykjavíkur og einnig í Léttsveitinni sem Jóhanna Þórhalls stjórnaði haustið 1995. Þá hætti ég í smátíma og gerðist móðir. Síðan hef ég verið hérna meira og minna og dóttir mín, Marta Kristín líka. Hún er nú í námi við tónlistarháskólann í  Vínarborg.

Arna Sigríður Brynjólfsdóttirr er skurðstofuhjúkrunarfræðingur og segist hafa komið í kórinn þegar vinkona hennar setti auglýsingu inn á Facebook um að það vantaði raddir í kór.

Mig hafði alltaf langað til að syngja með kór og svo hafði sonur minn farið í raddprufu þremur kvöldum áður og var að segja mér hvernig þetta færi fram. Þegar ég var í sjö ára bekk reyndum við vinkona mín að komast í kór en var hafnað. Það sat svo í mér að mig hafði aldrei dreymt um að ég gæti sungið með kór. Svo kom ég í raddprufu til Möggu og hún sagði: Heyrðu elskan þú getur bara alveg sungið. Komdu bara í kórinn minn. Þá sagði ég henni frá því þegar ég og vinkona mín fengum ekki að vera í kór  en Magga sagði við mig að ég hefði ábyggilega bara verið í peysu sem kórstjóranum hefði fundist ljót eða eitthvað ámóta lítilfjörlegt, því ég gæti alveg sungið.  Ég  var mjög glöð að byrja með þessum kór þótt ég hafi ekki getað beitt mér og ennþá get ég ekki alveg beitt mér,en mér finnst svo gefandi að hlusta á hinar konurnar syngja. Söngurinn er endurnærandi og kórstjórinn hún Maggar svo gefandi.

Þær lesa flestar nótur en segja að fyrst og fremst þurfi gott tóneyra til að fylgja hópnum. Að hlusta og tileinka sér.

Sigríður Jóhannesdóttir hjúkrunarfræðingur er á öðru ári að syngja með Cantabile, en hún hefur lengi heillast af söng:

Hún Margrét er svo mikill kennari og ég hef lært margt af henni, segir Sigríður. En ég viðurkenni alveg að ég var stressuð þegar ég byrjaði en maður þurfti að standa sig. Ég hafði aðeins komið nálægt því að vera í kór í Söngskólanum og líka hjá Kjartani Ólafssyni söngvara, en mér finnst svo gaman að vera hjá Möggu því hún er svo professional. Hún gerir miklar kröfur og það finnst mér gott. Ég myndi ekki nenna að vera í kór þar sem ríkti agaleysi, segir Sigríður. Ég elska tónlist og hef alltaf sótt mikið tónleika. Ég var hætt að vinna þegar ég sótti um hér.

Helga  Guðrún Sigurjónsdóttir, aðstoðarmaður sjúkraþjálfara á Grensásdeildinni, segist hafa byrjað 17 ára að syngja með kórum. Ég söng með kór Nýja Tónlistarskólans og þá hafði Magga auglýst eftir röddum í kór og við hittumst nokkrar stelpur heima hjá Möggu og æfðum þar. Þetta var í kringum 1986. Svo var Magga með blandaðan kór í Breiðholti sem við Helgurnar sungum með í tvö ár. Þetta var ótrúlega gaman og gefandi. Svo hefur Magga líka þann hæfileika að geta auðveldlega hrifið fólk með sér.  Ég Söng með kvennakór Reykjavíkur frá upphafi 1993 og svo þegar Magga hætti að stjórna var ég eina önn án hennar. Mér fannst vanta svo mikið að ég fór í Gospelsystur sem hún stjórnaði og hef  sungið með þeim með hléum síðan.

Helga Maria Rúnarsdóttir er vinkona Helgu Guðrúnar og starfar einnig sem aðstoðarmaður sjúkraþjálfara.  Ég grenja á öllum tónleikum!

Arna bætir við: Margrét er svo blíð og góð við okkur, svo umfaðmandi en á sama tíma er hún mjög kröfuhörð þegar æfingin byrjar. Ég tek allt beint til mín sem hún segir!

Helga María segist bara hafa mæmað allan fyrsta veturinn með Cantabile.

Ef við værum sjónvarptæki þá yrði okkur stungið í samband hér í skólanum. Að koma hingað er að láta opna fyrir rásir líkamans, það er svo mikil og gefandi orka hér. Margrét er svo góð í að hrífa fólk með sér. Hún er svo drífandi.

Það var stór stund þegar kórinn söng í Péturskirkjunni í Róm

Elísabet Frímansdóttir starfar hjá Orf líftækni sem framleiðir EFG dropana .

Ég er búin að vera hjá Möggu síðan hún byrjaði í Aðventistakirkjunni með Kvennakór Reykjavíkur og þegar hún hætti með Kvennakórinn tók ég mér smá hvíld, en ég saknaði þess að vera ekki að syngja, það er svo stór partur lífs míns, svo ég fór í Gospelsystur sem breyttist svo í Cantabile og ég er hérna ennþá, eftir meira en 26 ár. Þegar ég var lítil söng ég alltaf með afa mínum í sumarbústaðnum. Við kveiktum upp í arninum, horfðum á eldinn og sungum. Systir mín er söngkona og lærði með Margréti hja Ratti í Piacenza á Ítalíu. Hún heitir líka Margrét og ég kynntist Möggu í gegnum hana. Ég tók tvö stig í tónfræði og hef ferðast út um allt með Möggu. Það var heiður að syngja í Péturskirkjunni í Róm. Við fórum flestar að gráta þegar sá draumur varð að veruleika. Þegar Margrét er að stjórna, þá drögumst við að henni því hún gefur okkur svo mikla orku. Það er bara stórkostlegt.

Hvaða ráð hafið þið handa konum sem eru hættar að vinna og langar að eiga gott áhugamál?

Bara leita fyrir sér með hvað þær langar helst að gera, segr Sigríður. Þetta kemur ekki endilega til manns þótt það hafi gert það í mínu tilviki þegar vinkona mín bað mig að koma i Cantabile. Prófa bara og vera lifandi.

Þær eru sammála um að konurnar í Cantabile tengist vel og haldi saman. Arna Sigríður biður um lokaorðin:

Mín skilaboð til samfélagsins eru: Bannið ekki börnunum að syngja, menntið börn í tónlist frá unga aldri og haldið tónlist að þeim því hún gefur svo mikið.

Það var merkilegt að sjá í lok tímans hversu vel skipulagðar Cantabile systur eru.  Þegar þurfti að koma konu með göngugrind niður tvö þrep mættu strax fjórar konur að aðstoða og aðrar fjóra biðu við lyftuna. Mér finnst alltaf jafn gaman að upplifa vináttuna í svona kórum, en ætla að ljúka skrifunum hér með því að vitna í Margréti J.Pálmadóttur sem segir: „Kór er ekki síður félagslegt afl en tónlistarupplifun.“

Konurnar í Cantabile. Eftir æfingar koma tónleikar. Mynd: Ralph Reutiman

Ritstjórn október 4, 2019 07:49