Tengdar greinar

Gott veður og maturinn hlægilega ódýr á Kanaríeyjum

Hjónin Dóra Stefánsdóttir og Stefán Rafn Geirsson hafa í vetur búið í þorpinu Arguineguín á eynni Gran Canaría í hinum fræga Kanaríeyjaklasa. Dóra deilir í þessari grein og tveim öðrum  sem verða birtar síðar, reynslu sinni af þessari dvöl.

Dóra með morgunkaffi á pallinum í upphafi dvalar, áður en húðin dökknaði talsvert.

Veðrið

Það fyrsta sem flestum dettur ugglaust í hug þegar rætt er um Kanaríeyjar er sólskin og hiti. Hvorugt hefur verið sparað við okkur hér í vetur. Lægsta hitastig að næturlagi hefur farið niður í 12-14 gráður í okkar litla þorpi á suðvesturströnd eyjarinnar og upp undir 30 gráður þá daga sem hafa verið heitastir. Skýjaðir dagar eru sjaldgæfir og samanlögð rigning í fimm mánuði hefur mælst í millimetrum frekar en sentimetrum. Stundum blæs hressilegur austanvindur sem færir með sér örfínt ryk frá Sahara eyðimörkinni en jafnvel þá er sjaldan þörf á þykkari flíkum en þunnum peysum eða jökkum. Sé haldið upp í fjöllin eða á norðurhluta eyjarinnar er hins vegar umtalsvert svalara og það náði að snjóa í hæstu tinda einu sinni í vetur. Sem betur fer, rignir mun meira þar og yfirleitt nær regnvatn að duga jafnt eyjarskeggjum og okkur útlendingunum árið um kring. Tveir bæir á norðanverðri eynni búa að öflugum vatnslindum og þar starfa öflug fyrirtæki við að tappa vatni á flöskur sem ekið er um alla eyna. Nágrannar okkar á Tenerife búa að enn hærri fjöllum en við og fáum við vatn þaðan til viðbótar. Klókir verkfræðingar eru sífellt að reyna að finna nýjar leiðir til vatnsvinnslu og sá ég um daginn á innlendu vefriti að nú er verið að setja upp rakafangara sem vinna eiga vatn úr þoku sem síðan á að nota til trjáræktar.

Hið þurra loftslag hér á suðurhlutanum veldur því að fátt er um skordýr. Engar eru hér moskítóflugur og fáar aðrar sem orð er á gerandi. Einn kakkalakka fengum við í heimsókn í upphafi dvalar og nokkrir smámaurar heimsóttu okkur líka á tímabili. Auðvitað veldur skordýrafátæktin því að ekki er mikið af fuglum hér, helst dúfur sem virðast geta búið við þennan þrönga kost.

Vetrargestir hér á eynni eru misduglegir við bein sólböð. Þegar gengið er með ströndinni sést að margir leggja á sig langa legu í sólbaði, ýmist á ströndinni sjálfri eða í sundlaugagörðum hótelanna sem þar eru eins og perlur á bandi. Fyrir þá sem ekki una sér við slíka legu er hægt að stunda göngur eða hjólreiðar í mismunandi styrkleikaflokkum. Þægilegir flísalagðir eða malbikaðir stígar liggja meðfram ströndinni en fyrir þá sem þrá meiri áskorun, liggja brattir stígar og vegir upp um öll fjöll.

Fólk á gangi í bænum Puerto Mogan. Það er flest ódýrara á Kanarí en á Íslandi.

Verðlagið

Skemmst er frá því að segja að flest er mun ódýrara hér en á ísa köldu landi. Matur er hlægilega ódýr, nema hvað verðlag á fiski og lambakjöti nálgast það sem við þekkjum frá Íslandi. Brauð, ávextir og grænmeti kostar brot af því sem við erum vön að heiman og áfengir drykkir eru hættulega ódýrir, (fyrir nú utan að þeir fást alstaðar – meira að segja á bensínstöðvum). Veitingahús leggja mismikið á vöru sína og þjónustu, ódýrastir eru staðir fjarri ys og þys strandbæjanna og mun ódýrara er að kaupa sér hádegisverð en kvöldverð. Strandbarirnir eru dýrastir, sérlega í grennd fínu hótelanna og er ugglaust hægt að komast upp í íslenskt verðlag á þeim dýrustu.

Húsnæði er vafalaust það dýrasta við dvölina. Mjög algengt er að útlendingar eigi hér bæði íbúðir og hús og leigi jafnvel út hluta af ári þegar þeir nota ekki eignina sjálfir. Spánverjar eru hins vegar algengustu leigusalarnir og nýta sér þá þjónustu fasteignamiðlara sem hér eru á hverju strái. Verðlag ræðst vitaskuld af staðsetningu, stærð og hvað er innifalið í leigunni. Algengt er t.d. að sameiginleg sundlaug sé fyrir 20-30 hús, pallur til sólbaða og í sumum húsum eru lyftur. Húsgögn eru oftast einföld og sterkleg og flestir leigusalar bjóða upp á rafmagn, hita og nettengingu sem hluta af pakkanum. Hægt er að finna íbúðir sem eru mun ódýrari en á Íslandi og enn hef ég ekki heyrt um húsaleigu eins og þá sem er algengt fréttaefni frá Reykjavík.

Mun ódýrara er að leigja sér bíl hér en á Íslandi og bensín og dísel er töluvert ódýrara. Almenningssamgöngur eru bæði góðar og ódýrar og strætisvagnar nýlegir og þægilegir. Kranavatnið er drykkjarhæft en af því er mikið klórbragð og því veitum við okkur þann munað að kaupa drykkjarvatn í flöskum og kostar hver lítri um hálfa evru.

Ritstjórn mars 29, 2023 06:36