Veislumatur að hætti landnámsmanna

Hvað borðuðu Íslendingar hér áður fyrr? Ansi margir telja að það hafi eingöngu verið súrmatur eða bragðlaust kjöt og soðinn fiskur. En mataræði var mun fjölbreyttara en menn gera sér grein fyrir og íslenskir höfðingjar kunnu vel að notfæra sér gjafir náttúrunnar og elda gómsætar steikur og bragðgóðan fisk. Í bókinni  Veislumatur landnámsaldar tekur Kristbjörn Helgi Björnsson sagnfræðingur saman heimildir um mataræði þeirra sem fyrstir komu hingað og veltir fyrir sér hráefni og eldunaraðferðum. Textinn er fróðlegur og vel  unninn. Þarna er óspart vitnað í Íslendingasögur og margt dregið fram sem gaman er að vita. Til dæmis bað Guðrún Ósvífursdóttir syni sína um að hitta sig í laukgarði sínum þegar hún ætlaði að eggja þá til hefnda eftir föður sinn. Hvönnin sem Þorgeir Hávarsson bjargaði lífi sínu með að hanga á var til að mynda öll nýtt, rót, stöngull og blóm. Eggjatekja var mikil og eggin nýtt á mun fjölbreyttari hátt en nú er. Allir sem hafa áhuga á mat og matarhefðum fá hér fróðleik sem bæði er áhugaverður og sérlega skemmtilegur. Listakokkurinn Úlfar Finnbjörnsson eldar síðan og setur saman uppskriftir að réttum sem vel hefðu getað verið á borðum í brúðkaupi Gunnars á Hlíðarenda og Hallgerðar eða í veislunni þar sem Egill Skallagrímsson vóg Grím Heggson sjö ára gamall. Karl Peterson tekur svo myndirnar. Þessi bók er mjög vönduð og vel úr garði gerð. Myndirnar eru einstaklega fallegar og umbrotið allt listilega vel unnið. Það verður spennandi að prófa þessar uppskriftir og bara að fletta þessari bók og skoða síðurnar er lystaukandi og einstaklega gaman. Hér er á ferð frumleg og athyglisverð leið til að brjóta upp matreiðslubókahefðina.

Ritstjórn nóvember 19, 2023 14:00