Að halda orkunni gangandi

Það er eitthvað við vorið sem vekur með manni athafnasemi og löngun til að fara út. Margir ráðast í vorhreingerningu, aðrir leggjast í ferðalög og enn aðrir byrja að hlaupa. Stór hópur fólks byrjar á hverju vori í útivist en leggjast svo í híði á veturna. Hér eru nokkur góð ráð og umhugsunarefni sem geta haldið orkunni gangandi í allt sumar og jafnvel langt fram á haust.

Mundu að það ekkert rétt eða rangt þegar kemur að útivist

Hvort sem fólk kýs að hlaupa, skokka, ganga á fjöll, iðka kraftgöngu, eða bara rölta er útivist holl. Hún lyftir manneskjunni upp andlega og alltaf býðst ný reynsla. Útsýnið, umhverfið og veðrið sér til þess. Það er því um að gera að setja það að njóta hreyfingarinnar í fyrsta sæti og leyfa hraða, þolæfingum og þrekraunum að koma eftir því sem löngun og kraftur vex.

Vertu í núinu

Að hreyfa sig snýst um að vera í núinu, hlusta á líkama sinn og láta allar áhyggjur lönd og leið. Sumir kjósa að nota fitness-öpp eða skrefateljara til að hvetja sig áfram en hvernig væri að prófa að láta allt slíkt lönd og leiða og hafa ekki annað að leiðarljósi en njóta hverrar mínútu.

Fylgdu eigin reglum

Það þarf ekki alltaf að fara eftir fyrirfram gerðu prógrammi um hvernig á að auka álagið eða þolið. Fylgdu eigin reglum og eigin líðan. Suma daga getur verið gott og gaman að hlaupa, aðra að ganga hratt og næsta dag rölta. Fjölbreytni er líka af hinu góða, farðu á milli hverfa, milli staða eða taktu þátt í leikjum barnanna þinna. Skelltu þér á trampólínið, rifjaðu upp taktana við að sippa eða húla. Margir gera jóga á dýnu heima við eða sitjandi í stól.

Það má líka vera inni

Þótt vorið og sumarið kalli á þig og þig langi út er hreyfing innandyra fín tilbreyting inn á milli. Það bjóðast ótrúlega fjölbreyttir möguleikar í líkamsræktarstöðvum en það má líka gera jógaæfingar heima, dansa undir dunandi tónlist af playlista eða nota tröppur, borð og stóla til að gera teygjuæfingar.

Fagnaðu sjálfri/sjálfum þér

Í raun er sama hversu mikið eða lítið við gerum það er sjálfsagt að fagna því. Í sumum tilfellum er hvert skref árangur. Vertu ánægð/ur með allt sem þú gerir og í stað þess að skamma þig fyrir leti hrósaðu þér fyrir allan árangur sem þú nærð og hvern minnsta sigur. Mundu líka að hopp, dans, skokk, hlaup og leikur í garðinum er hreyfing og líka dansinn við ryksuguna.

Taktu þátt

Sumir setja sér háleit markmið og ákveða að taka þátt í maraþoni, landvættinum, járnkarlinum eða hvað þetta heitir allt saman. Það er gott og gilt og öllum til sóma að vinna slíkt afrek. En minni áreynsla er fín líka. Vertu endilega með í einhverjum af hlaupum sumarsins, Colour Run, Kvennahlaupið og jafnvel Reykjavíkurmaraþonið gefa færi á að fara styttra og ganga þá vegalengd ef það hentar betur. Hér gildir að hreyfingin og útivistin sé ekki enn einn streituvaldur í lífi þínu heldur það sem þú hlakkar til á hverjum degi.

Ekki búast við árangri strax

Þegar fólk fer að hreyfa sig eftir langan kyrrsetutíma verður að gefa líkamanum tíma til að vinna upp þol og þrek. Margir búast við að þetta gerist fljótt og verða vonsviknir þegar þeir finna ekki fyrir breytingu strax. Hver einstaklingur er mismunandi hvað þetta varðar og aldur fólks hefur einnig mikið að segja. Gerðu ráð fyrir að þetta taki tíma og gleðstu í hvert sinn sem þú finnur árangur. Þrautseigja er það sem gildir og betra að fara hægt en rasa um ráð fram og kannski meiða sig.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 30, 2024 07:00