Að lesa dagblaðið með morgunkaffinu

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona skrifar

Ég er ein af þeim sem hef lesið dagblað með morgunkaffinu alla mína fullorðinsævi og var jafnvel farin að lesa blöð þegar ég var smástelpa. Skrjáfið í blaðinu er alveg sérstök tilfinning og ilmurinn af kaffinu ómótstæðilegur. Þetta er ómissandi samsetning. Alltaf sama forvitnin að sjá blað morgunsins og sjá hvað er í fréttum þann daginn. Hlusta svo á fréttir Ríkisútvarpsins til að fá það allra nýjasta. Hvalveiðifrestunin?  Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að milda höggið af vaxtahækkunum og verðbólgu? Hvernig er veðrið á Egilsstöðum?

Ég var snemma byrjuð að lesa Moggann, en hann var keyptur á heimilinu þegar ég var lítil. Þegar ég fór að hafa áhuga á þjóðmálum og fréttum á unglingsárunum sá ég líka stundum fleiri blöð. Það var svo fyrir alvöru að ég fór að lesa öll blöðin þegar ég fór að vinna við blaðamennsku. Þvílík veisla að geta lesið þau öll með morgunkaffinu. Þetta voru auk Morgunblaðsins, Þjóðviljinn, Alþýðublaðið og Tíminn, sem öll höfðu aðsetur í Síðamúlanum í Reykjavík, sem gárngar kölluðu Blaðsíðumúla. DV og Vísir komu svo út síðdegis.

Það sem var svo áhugavert við að lesa öll dagblöðin var að maður fékk bæði fjölbreyttar fréttir og svo ákveðinn skammt af pólitík. Af því að stjórnmálaflokkarnir voru allir með sín flokksmálgögn, fékk sá sem las þau öll daglega, ágæta heildarmynd af ýmsum málefnum og skoðunum sem voru í gangi.  Fjölmiðlarnir í dag eru líkari hver öðrum en mér fannst þeir vera hér áður fyrr. Vefmiðlar, blöð og ljósvakamiðlar eru mikið með sömu málin í gangi. Það er auðvitað óhjákvæmilegt í okkar litla samfélagi, þar sem stórtíðindi gerast alls ekki á hverjum degi og magn frétta minna en í milljóna samfélögum. Í gúrkutíðinni á sumrin breytist þetta samt stundum hjá okkur og fréttirnar verða fjölbreyttari, því þá reynir virkilega á að finna fréttir og ekki hægt að stóla á að þær berist sjálfkrafa, sem fréttir gera býsna oft.

Fleiri og fleiri dagblöð  hafa lagt upp laupana á síðustu árum, ekki bara á Íslandi, heldur út um allan hinn vestræna heim. Flest hafa þau fært sig yfir á netið. Ein af ástæðum þess er mjög hár prent- og dreifingarkostnaður sem þau standa ekki undir. Á móti kemur að  fólk er orðið vant því að á netinu sé allt efni ókeypis og er ekki tilbúið að greiða fyrir það.  Það er heilmikill kostnaður því  samfara að gefa út blað á vefnum og margir vefmiðlar eru eingöngu bornir uppi af auglýsingum. Það segir sig sjálft á 360 þúsund manna markaði, að auglýsingarnar eru ekki endalaus tekjulind fyrir alla. Sennilega myndi fáum detta í hug í erlendri borg með þennan íbúafjölda að hægt væri að halda þar úti mörgum dagblöðum, útvarpsstöðvum og sjónvarpsstöðvum.   Enda var það upphaflega ein af ástæðum þess að Ríkisútvarpið var stofnað, að það var ekki talið á færi einstaklinga að reka útvarp í svo fámennu og dreifbýlu landi.

Það var mikið högg  fyrir íslenska fjölmiðla þegar Fréttablaðið hætti að koma út og sjónvarpsstöðvunum N4 og Hringbraut var lokað. Mikið hefur verið rætt um stöðu fjölmiðla hér á landi í kjölfarið og hvort ríkið eigi að styðja rekstur einkarekinna fjölmiðla. Umræðan um hvort  taka eigi Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði tengist þessu einnig.  Það veit hins vegar enginn hvort þær auglýsingar sem Ríkisútvarpið hefur í dag, myndu færast beint til einkarekinna fjölmiðla hér á landi ef það yrði ákveðið að RÚV hætti með auglýsingar. Eins og staðan er núna eru það samfélagsmiðlarnir sem hafa rakað til sín auglýsingum víða um heiminn. Ef niðurstaðan yrði að Ríkisútvarpið  færi af auglýsingamarkaði og myndi veikjast í kjölfarið  vegna þess að tekjurnar minnkuðu og umræddar tekjur skiluðu sér  ekki til einkarekinna miðla, er kannski verr af stað farið en heima setið, með breytingar í þessa veru.

Umræða um íslenska fjölmiðla er yfirgripsmeiri en svo að henni verði gerð skil í litlum pistli, sem var hugsaður sem vangaveltur um þær breytingar sem við sem tilheyrum eldri kynslóðinni stöndum frammi fyrir. Dagblaðið með morgunkaffinu verður brátt fyrir bí, og aðdáendur þess lífsstíls munu sjálfsagt enda með tölvuna á morgunverðarborðinu til að kíkja á það nýjasta á vefmiðlunum. Ég á eftir að saka blaðanna.

 

 

Erna Indriðadóttir júní 26, 2023 07:00