Að minnka við sig og kaupa eldri íbúð

Þær Dóra Hansen og Þóra Birna Björnsdóttir sem eru hluti af Innanhússarkitektar eitt A svöruðu spurningum um ýmislegt sem gott er að hafa í huga þegar fólk flytur búferlum á efri árum. 

Dóra Hansen

Dóra Hansen

Þóra Birna Björnsdóttir

Þóra Birna Björnsdóttir

Margir sem minnka við sig húsnæði, vilja búa áfram í gamla hverfinu sínu. „Menn eru þá orðnir vanir að stunda þar sitt daglega líf, versla og sækja aðra þjónustu“ segja þær stöllur . Þegar fólk býr í grónu hverfi, er fátt um nýjar íbúðabyggingar og lausnin getur verið sú að festa kaup á minni eign í eldra húsi í hverfinu. Það er oft ódýrara að kaupa slíka eign, en íbúð í nýbyggðu húsi. Á móti kemur hins vegar að það getur þurft að eyða umtalsverðu fé í að endurnýja íbúðina.

„Það þarf að vanda vel valið á húsnæðinu þegar fólk flytur og minkar við sig, hvort sem fólk ætlar í nýtt eða gamalt húsnæði. Gæði rýmisins skiptir miklu máli og góð dagsbirta hefur ótrúlega mikil áhrif á rýmið“, segja þær.

Við kaup á gamalli íbúð er gott að fá matsmann til að meta ástand íbúðar og ytrabyrði

húss og sameignar til að vita hvort að það séu framkvæmdir framundan. Það er kostnaðasamast að endurnýja eldhús og baðherbergi, oft á eftir að gera það í gömlum íbúðum. Gólfefni geta verið orðin slitin en oft er hægt að pússa upp og lakka gamalt parket. Endurnýjun á rafmagni og öðrum lögnum þarf líka að taka með í reikninginn.

Við kaup á nýju húsnæði er fólk oft að leita eftir góðu aðgegni eins og lyftu, hita í stétt og að losna við viðhald. Það getur verið erfitt að sjá fyrir sér rýmin í óbyggðu húsi, fáir geta lesið teikningar sér til gagns. Hægt er að fá fagaðstoð við að meta húsnæði út frá teikningum og sjá hvort að það nýtist viðkomandi og hvort að húsgögnin komist fyrir.

 

Ritstjórn nóvember 10, 2014 14:00