Að njóta óþægilegra aðstæðna

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Öll lendum við í því að takast á við óþægilegar aðstæður. Slíkar aðstæður geta verið eitthvað sem við komum okkur í að eigin frumkvæði eða aðstæður sem aðrir skapa og við höfum sjálf ekkert með að gera. Mér hefur oft þótt áhugavert að fylgast með viðbrögðum þeirra sem eru orsakarvaldar aðstæðnanna og þeirra sem lenda í þeim. Viðbrögðin eru afar misjöfn.

Fyrir nokkrum dögum lentum við í óþægilegum aðstæðum á flugferð okkar til eyjunnar Madeira sem við höldum mikið upp á. Þar erum við hjónin þegar þetta er skrifað. Madeiringar segja að eyjan sem oft er nefnd blómaeyjan komist hugsanlega næst því í heimi hér að líkast aldingarðinum Eden. Við hjónin getum ímyndað okkar að svo sé.

Við vorum langt kominn í flugi okkar með EasyJet frá London til Madeira þegar flugstjórinn, Peter Barkley, tilkynnti  að illt væri í efni. Mikill vindur hefði undanfarna daga háð flugi til Madeira en góð spá hafi verið fyrir lendingarstæður á Madeira áður en lagt var af stað. Nú hefði það ótrúlega gerst á skömmum tíma að lending á Madeira væri óframkvæmanleg vegna vinds sem væri 40 hnútar. Því yrði að beina flugvélinni til Lissabon en þar hugðist flugstjórinn bíða kvölds þar til vind myndi lægja. Hann hafði í hyggju að koma farþegum á áfangastað um kvöldið. Þegar til Lissabon var komið hafði vindur aukist á Madeira og ákveðið var að farþegar færu á hótel og beðið yrði morguns. Um morguninn var brottför frá hótelinu frestað um tíma og síðan haldið af stað. Flugstjórinn sat í flugstjórnarklefanum við opin glugga og spjallaði í léttum tón við farþegana á leið upp stigann inn í vélina. Þegar komið var til Madeira um hádegi stóð Peter flugstjóri við enda landgangsins og kvaddi farþegana marga með handabandi. Margir þökkuðu flugstjóranum fyrir frábæra framkomu. Einn farþega heyrði ég þakka flugstjóranum fyrir að hafa gefið farþegunum svo mikið traust með framkomu sinni. Fólk gekk sátt frá borði.

Peter Barkley flugstjóri kveður farþega á flugvellinum á Madeira.

Þessar aðstæður eru ekki óalgengar hjá flugfarþegum. Mér fannst áhugavert hvernig EasyJet starfsfólkið og farþegar og mættu þessum aðstæðum. Þegar tilkynnt var um flugið til Lissabon varð töluverður kurr meðal farþega. Flugstjórinn hélt farþegum vel upplýstum gegnum hátalarakerfið. Hann sagði m.a. að værum ekki ein á ferð til Lissabon. Fjöldi flugvéla hefði orðið að hætta við lendingu á Madeira og fljúga til Portúgal. Þegar vélin var lent í Lissabon kom flugstjórinn fram i farþegarýmið og ávarpaði farþega. Hann gerði það á einkar viðfeldinn og skemmilegan hátt og fékk fólk til þess að brosa og jafnvel hlæja. Hann sagðist ekki myndi yfirgefa farþegana fyrr en hann hefði komið þeim á áfangastað. Flugstjórinn bað þá sem ekki voru sáttir að rétta upp hönd og síðan ræddi hann sérstaklega við þá. Margt virðist hafa farið úr skorðum á flugstöðinni vegna þessarar óvæntu komu nokkurra flugvéla sem voru fullar af farþegum. Nokkkurra tíma bið var eftir farangri. Síðan var bið og biðröð eftir rútum til þess að flytja farþegana á hótelið. Alls staðar var lipurt og glaðvært starfsfólk EasyJet til þess að upplýsa farþega og leysa úr vandamálum þeirra ef einhver voru. Etir að komið var á hótelið var löng biðröð að skrá sig inn á hótelið. Boðið var upp á úrvals hlaðborð í kvöldverð.

Skemmtilegt var að fylgjast með fólkinu. Nokkrir voru stúrnir og höfðu allt á hornum sér varðandi seinkunina og þjónustu EasyJet. Vel flestir sættu sig við ástandið. Athygli mína vöktu hins vegar nokkur hjón sem reyndu að gera það besta úr ástandinu og hafa gaman af því. Þessi hópur eldri borgara í hópnum sem ferðaðist saman fann öll tilefni til þess að vera með gamanyrði á vörum og var stöðugt hlæjandi. Það smitaði út frá sér. Þegar ég sagði við manninn sem virtist leiða hópum með glaðværðinni að ég dáðist að hópnum og hvernig hann tæki aðstæðunum svaraði hann. „Er nokkuð um annað að gera?“ Fólkið sem var „strandað“ saman fór líka að tala saman. Við kynntumst fólki sem mest voru Bretar einnig fólki frá Ástralíu sem höfðu frá ýmsu skemmtilega að segja. Við ræddum við eldri hjón frá Norður-Írlandi sem fluttu til Englands til þess að vera nálægt dætrum sínum. Þegar ég spurði hvernig þeim líkaði dvölin í Englandi og sögðust þau sakna Írlands mikið. Englendingar væru allt öðruvísi í umgengni en Írar og ekki eins vinsamlegir hver við annan. Þau fyndu miklu meira fyrir vinarþeli og opnari samskiptum í daglegri umgengi á Írlandi.

Mér varð þessi reynsla tilefni til þess að íhuga hve mikilvægt er að taka óþægilegum aðstæðum með jafnaðargeði. Því ekki að gera það besta úr stöðunni og reyna að njóta ástandsins og jafnvel fræðast af samferðafólkinu? Við getum hvort sem er engu breytt um framvindu mála. Lærdómurinn af þessari uppákomu er að ábyrgir aðilar upplýsi þátttakendur vel um gang mála, komi þeirri tilfinningu að með bros á vör að þeir séu á sama báti og þjáningarsystkin og væru að gera allt til þess að létta óþægindin. Farþegarnir mæta þessum aðstæðum best með því að sýna þolinmæði og gera það besta úr óþægilegu stöðunni og jafnvel njóta hennar. Á þetta ekki við um aðrar óþægilegar aðstæðum en á ferðalögum?  

 

 

 

Þráinn Þorvaldsson mars 20, 2017 11:44