Upplifum ævintýrin heima og minnkum kolefnissporið

Sólveig Baldursdóttir

Sólveig Baldursdóttir blaðamaður og leiðsögumaður skrifar

Í leiðsögunámi mínu í HÍ í vetur kynntumst við hversu mikið og öflugt starf hefur verið unnið um allt land undanfarin ár í þeirri kornungu atvinnugrein sem ferðamennskan er. Bæði fyrirtæki og einstaklingar hafa lagt mikið undir og fært fórnir til að undirbúa komu erlendra ferðamanna sem best. Nokkrir skólar, þar á meðal Háskóli Íslands, þjálfa nemendur til að vera vel undirbúnir og óhætt er að fullyrða að nú standi greinin undir því að geta kynnt Ísland sem spennandi land þar sem gestir okkar geti búist við að upplifa ævintýri.

En nú er svo komið að mikið ójafnvægi ríkir og ferðaþjónustan er í vanda stödd. Erfitt hefur reynst að fá erlendu ferðamennina til að fara lengra en í ákveðinn „radius“ út frá höfuðborginni. Sökum gífurlegrar fjölgunar á skömmum tíma hefur verðlag farið úr skorðum hvað varðar bæði vörur og þjónustu

Hvetjum Íslendinga til að ferðast heima

Mér þykir rakið að nýta þær fjárfestingar sem ráðist hefur verið í um allt land og stýra þjóðinni á ákveðinn hátt til að upplifa ævintýrið í eigin landi.  Íslendingar hafa almennt ekki hugmynd um hversu mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðamennskunni hér á undanförnum árum, ég var þar á meðal. Tilvalið væri að í gang færi áætlun, ekki ósvipuð þeirri sem hleypt var af stokkunum þegar við vildum laða erlendu ferðamennina hingað með átaki eins og “Inspired by Iceland”, og snúa því átaki upp á heimamenn. Íslendingar yrðu hvattir til að verja tíma og fjármunum hér á landi í stað þess að streyma til útlanda ár eftir ár. Sagan okkar er hér og hana er þess virði að heyra um og upplifa. Hversu margir vita til dæmis að mamma hans Snorra Sturlusonar var frá Görðum á Akranesi?

Útbúum ævintýrið fyrir heimamenn. Nú er lag því með falli WOW og annarra aðstæðna skapast tækifæri þar sem fargjöld munu mjög líklega hækka og fleiri eru orðnir meðvitaðir um mikilvægi þess að minnka kolefnissporið.

Hvenær gekkst þú síðast að Skógarfossi?

Tenging við menntamálin

Tilvalið væri líka að tengja þetta átak menntamálum, setja til dæmis í gang hvatakerfi og leggja til að foreldrar færu frekar með börn sín í ferðir innanlands en taka þau úr skóla til að fara til annarra landa, eins og mikið hefur borið á. Í ferðum innanlands myndu börnin læra um söguna okkar og menningu sem yrði gott veganesti inn í framtíðina hvernig sem á það væri litið. Í því tilliti væri tilvalið að ráða fólk sem komið er á eftirlaun, t.d. kennara sem eru hættir störfum, en hafa enn starfsþrek, til að annast kynninguna á ævintýrunum um allt land. Margir eru snillingar í að segja söguna okkar á íslensku þótt þeir myndu ekki kjósa að gera það á erlendu tungumáli.

Tölur frá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF).

Íslendingar fóru í 668 þúsund ferðir til útlanda 2018.

Útgjöld þeirra námu 199 milljörðum króna samkvæmt SAF  (tækifæri til að ná í eitthvað af því fjármagni inn í landið)

Meðalgjöld á ferð voru 297 þúsund krónur.

Eyðsla Íslendinga í útlöndum var töluvert hærri en upphæðin sem erlendir ferðamenn eyddu hér eða 144 þúsund krónur að jafnaði.

Íslendingar dvelja að meðaltali mun lengur í ferðum erlendis á meðan erlendir ferðamenn dvelja hér í aðeins 6.3 daga (2018).

Íslendingar keyptu flugmiða fyrir 9 milljarða króna af erlendum flugfélögum árið 2018. Skýrsla SAF benti á að Íslendingar velji frekar að ferðast með innlendum flugfélögum en það gæti verið að breytast, sér í lagi með falli WOW air.

 

 

Sólveig Baldursdóttir júní 24, 2019 09:43