Tengdar greinar

Aðaláskorunin er að ná til þeirra sem eru ekki að hreyfa sig

Ásgerður og Margrét Regína

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið lagði fram styrk í kjölfar Covid-19, í því skyni að stuðla að heilsueflingu eldra fólks í landinu, draga úr einangrun og gera eldra fólki kleift að búa sem lengst í heimahúsum. Verkefnið Bjartur lífsstíll var sett á laggirnar í samstarfi Landssambands eldri borgara (LEB) og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Markmið verkefnisins er að hreyfing  verði að lífsstíl hjá eldra fólki. Verkefnisstjórar eru þær Ásgerður Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari og íþróttakennari fyrir LEB og Margrét Regína Grétarsdóttir íþróttafræðingur fyrir ÍSÍ.

Hreyfing fer minnkandi

Þær segja að niðurstöður alþjóðlegra rannsókna bendi til þess að rúmlega þriðjungur mannkyns nái ekki ráðlögðu lágmarki daglegrar hreyfingar og að þrátt fyrir mikla þekkingu á jákvæðum áhrifum reglubundinnar hreyfingar fari hreyfing minnkandi.  „Það er þó aukin vitundarvakning að eiga sér stað hér á landi í ljósi þess að meðalaldur þjóðarinnar er að hækka. Því er mikilvægt að grípa til aðgerða, eins og að auka fjölbreytni hreyfingar fyrir eldra fólk og auðvelda aðgengi að henni. Aðaláskorunin er þó að ná til þeirra sem eru ekki að hreyfa sig“, segja þær stöllur.

Samvinna við sveitarfélög

Verkefnið Bjartur lífsstíll snýst ekki um að verkefnisstjórarnir vinni með eldra fólki sem vill fara að hreyfa sig, heldur er markmiðið að aðstoða sveitarfélög um allt land við að innleiða heilsueflingu eldra fólks til framtíðar. Lögð er áhersla á að veita þjálfurum og öðrum sem koma að hreyfingu eldra fólks faglegan stuðning og að varanleg aðstaða til hreyfingar standi öllu eldra fólki til boða í helstu byggðakjörnum landsins.

Umhverfið getur hvatt fólk til hreyfingar

Blaðamaður Lifðu núna spurði þær Ásgerði og Margréti hvort þær teldu  líkur á að fólk sem hefur aldrei hreyft sig, færi að gera það á efri árum?

„Ef umhverfið hvetur til hreyfingar eru meiri líkur á því að eldra fólk fari út og hreyfi sig. Á tiltölulega stuttum tíma hefur útivistarsvæðum, göngu- og hjólastígum fjölgað sem og sundlaugum. Aðgengi að íþróttamannvirkjum hefur batnað til muna og telst þetta allt til bættra lífsgæða. Samfélagsleg ábyrgð okkar allra skiptir máli í þessum efnum og við teljum að upplýsingamiðlun þurfi að vera betri þannig að eldra fólk sé upplýst um alla þá hreyfingu sem hægt er að sækja í nærumhverfi hvers og eins“, segja þær.

Félagslegi þátturinn er mikilvægur

„Þegar Covid-19 skall á einangraðist eldra fólk í auknu mæli. Sundlaugum og líkamsræktarstöðvum var lokað en það má telja til happs að eldra fólk sem var vant að hreyfa sig varð duglegra að fara út í göngur og dró jafnvel með sér vini og vandamenn sem ekki voru eins virkir. Þetta mættu fleiri hafa í huga í dag, það er að vera duglegir að hvetja aðra í kringum sig og segja frá því sem er í boði. Félagslegi þátturinn er ekki síður mikilvægur fyrir fólk sem er komið á efri ár“, segja þær Ásgerður og Margrét enn fremur.

Hreyfing eykur líkur á að fólk geti búið lengur heima

Ávinningur reglulegrar hreyfingar afmarkast ekki bara af því að halda holdafarinu í skefjum, segja þær. „Umfram allt veitir hreyfing aukinn líkamlegan og andlegan styrk til að takast á við dagleg verkefni, spornar gegn streitu, stuðlar að betri hvíld, bættu þoli, vöðvastyrk, jafnvægi og beinþéttni og eykur þannig líkur á að fólk geti búið lengur heima hjá sér. Þetta getur leitt til minni hættu á föllum og mjaðmarbrotum hjá eldra fólki. Hreyfing getur einnig dregið úr tíðni algengra sjúkdóma auk þess að hafa jákvæð áhrif á lífsgæði fólks. Því ætti hreyfing að vera notuð í meira mæli sem hluti af meðferð, sem er að vísu þróunin í dag með tilkomu hreyfiseðla hjá heilsugæslunni. Við fögnum því“, segja verkefnisstjórarnir tveir sem hafa sannarlega ekki setið auðum höndum. Þær hafa þegar fundað með 30 sveitarfélögum á landinu og komið á laggirnar stýrihópum fyrir verkefnið  í allflestum sveitarfélögum landsins. Í þeim er fólk sem kemur að heilsueflingu sextugra og eldri með beinum eða óbeinum hætti.

Á vefsíðu verkefnisins Bjartur lífsstíll er að finna hagnýtar upplýsingar, bæði almenna fræðslu um hreyfingu og einnig um þá hreyfingu sem er í boði á landsvísu fyrir eldra fólk. Smellið hér til að fara inná vefsíðuna.

Samstarfssamningur undirritaður um Bjartan lífstíl. Auk þeirra Ásgerðar og Margrétar Regínu eru á myndinni: Helgi Pétursson formaður LEB, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumálaráðherra og Lárus Blöndal forseti ÍSÍ

 

Ritstjórn apríl 25, 2023 07:00