Æ þetta eilífa pissustand

Einn hvimleiðasti fylgifiskur hækkandi aldurs hjá mörgum er minnkandi geta til að halda í sér þurfi þeir að pissa. Sumir upplifa einnig að þeir þurfi að fara mun oftar á klósettið og þegar fylgist að brýnni þörf til að losa blöðruna og aukin tíðni þvagláta getur þetta farið að hafa áhrif á lífsgæði fólks.

Ein kunningjakona Lifðu núna glímir við þennan vanda og hún segir: „Það er eitthvað við að sitja í bíl sem gerir það að verkum að ég þarf oftar á klósettið en venjulega. Við hjónin höfum alltaf haft gaman af að skreppa í bíltúra út fyrir bæinn en við erum eiginlega hætt því vegna þessa vanda míns. Við þurfum að stoppa í nánast hverri vegasjoppu sem á vegi okkar verður til að ég geti farið á klósett. Eitt sinn vorum við að koma úr ferðalagi og lentum í eftirmiðdagsumferðinni í Reykjavík. Við vorum föst á Reykjanesbraut í bílröð sem varla mjakaðist úr stað. Ég var auðvitað alveg að pissa á mig og var orðin svo örvæntingarfull undir lokin að ég var í alvöru farin að íhuga að fara út úr bílnum og pissa við vegkantinn fyrir allra augum.“

Til allrar lukku kom ekki til þess því umferðin tók að þokast af stað og hjónin komust heim áður en illa fór. En þetta hvimleiða vandamál heftir ansi marga í að taka þátt í og njóta viðburða af ýmsu tagi. Talið er að allt að helmingur kvenna finni fyrir truflunum á þvaglátum á breytingaskeiði og eftir það og um það bil 11% karlmanna. Oft tengjast blöðruvandamál karla stækkun í blöðruhálskirtli. Það er ákaflega eðlilegt að pissa um það bil átta sinnum á dag og að vakna einu sinni á nóttu til að fara á klósettið. Ef þú ferð oftar en þetta gætir þú verið að glíma við það sem kallast ofvirk blaðra. Þetta er ekki eitthvað sem þarf að sætta sig við og margt hægt að gera til að breyta því.

Ofvirk blaðra

Í sumum tilfellum getur ofvirk blaðra verið vísbending um sjúkdóma eins og sykursýki, blöðrubólgu eða millivefsvöðvabólgu. Um aukaverkanir lyfja getur einnig verið að ræða. Engin veit nákvæmlega hvað veldur millivefsvöðvabólgu en einkennin eru verkir í blöðru og neðra kviðarholi og skyndileg og mikil þörf til að pissa. Stundum er hún svo yfirþyrmandi að viðkomandi nær ekki að koma í veg fyrir þvagleka áður en hann kemst á klósettið.

Góðu fréttirnar eru þær að þetta þarf ekki að vera svona og ótalmargt hægt að gera til að bæta ástandið. Meðal annars að velja vel hvað maður drekkur. Kaffi, áfengi og margir gosdrykkir, einkum drykkir með gervisætu, virka þvagræsandi og fólk ætti þess vegna að neyta þeirra í hófi. Talað er um að meðalmaður þurfi að drekka átta glös af vatni á dag en það er auðvitað breytilegt eftir aðstæðum, m.a. hvort menn eru úti í sólskini og hita eða hvort þeir reyna á sig og svitna mikið. Átta glös er hins vegar gott viðmið hjá fólki sem vinnur ekki erfiðisvinnu. Ef þvagið er ljósgult er það vísbending um að einstaklingurinn fái nægan vökva en ef það er dökkt á litinn bendir það til að viðkomandi þurfi að drekka meira.

Mataræði hefur einnig áhrif á hversu oft fólk þarf að pissa. Sterkkryddaður matur og mikil sýra í mat eykur þörfina fyrir að pissa. Tómatar og sítrusávextir eru í hópi þeirra matartegunda sem örva þvagrásarkerfið en líka íslenski súrmaturinn. Edik hefur einnig þessi áhrif og þess vegna ættu menn að forðast sýrt grænmeti, salatsósur með ediki og að taka eplaedik ef þeir vilja draga úr klósettferðum yfir daginn. Það gæti verið ráð að prófa í viku eða svo að taka þetta af matseðlinum og sjá hvort það hefur áhrif í þínu tilfelli.

Vaninn er harður húsbóndi

Það er einnig til í dæminu að fólk einfaldlega venji sig á að fara of oft á klósett yfir daginn. Margir halda að það slæmt að halda í sér en svo er ekki. Þetta er mýta. Grindarbotninn er hannaður til að menn geti haldið í sér og vöðvunum þar þarf að halda við eins og öðrum. Allir, bæði konur og karlar, ættu að gera grindarbotnsæfingar á hverjum degi. Þá draga menn saman grindarbotnsvöðvana, eins og þeir séu að reyna að stöðva þvaglát, halda í nokkrar sekúndur og slaka svo á. Þetta er gott að gera 10-15 sinnum yfir daginn. Sérfræðingar mæla einnig með því að gera grindarbotnsæfingar þurfi fólk að pissa en komist ekki á klósett. Það að draga saman og slaka á vöðvunum geti dregið úr spennunni og þeirri tilfinningu að allt sé á leið í buxurnar. Séu menn að glíma við þvagleka geta grindbotnsæfingar skilað góðum árangri en einnig nálarstungur.

Auk þess getur breytt miklu að einsetja sér að fara ekki oftar en 8 sinnum á klósettið á dag og halda í sér eins lengi og maður getur. Í stað þess að fara á klósettið til vonar og vara áður en haldið er af stað út í daginn er ágætt að fara bara og gera sitt besta til að halda í sér geri þörfin vart við sig. Það hjálpar flestum að halda í sér að setjast niður og það getur einnig verið gott að gera öndunaræfingar, anda djúpt, halda niðri í sér andanum í nokkrar mínútur og anda síðan hægt frá sér. Virki ekkert af þessu ættu menn hiklaust að leita til læknis.

Version 1.0.0

Skipulagning er alltaf góð

Meðan að blaðran er ofvirk og stöðugt að minna á sig er hins vegar hægt að gera sér lífið léttara á margan hátt, m.a. með því skipuleggja öll ferðalög vel. Vera búin að ákveða hvar eigi að stoppa og vera viss um að þar sé aðgangur að klósetti. Hægt er að hafa klósettstopp á tveggja eða fjögurra tíma fresti eftir atvikum. Sé þvagleki að plaga þig er hægt að setja bindi í nærbuxurnar og taka með sér aukanærföt í handtöskunni til að nota í neyðartilfellum. Svo munar engu að vera með klósettrúllu í bílnum og blautþurrkur sem nota má á kynfærasvæðinu. Einnig er ágætt að hafa í huga nokkrum dögum áður en haldið er af stað að neyta ekki matartegunda sem örva þvagrásarkerfið og drekka eingöngu vatn.

Vegna þess hve algengt þetta vandamál er búið að hanna pissuflöskur fyrir karla og konur sem fólk getur haft í bílnum. Það er auðvitað alls ekki auðvelt fyrir konur að pissa í bíl en allt er betra en að pissa á sig. Þeirra flöskur eru með stút sem hannaður til að leggjast vel yfir þvagrásina þannig að ekkert ætti að fara út fyrir. Pissuflöskurnar eru fáanlegar m.a. á ebay og amazon og kallast Pee as you go.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 30, 2024 07:00