Þarf bið eftir sérfræðilækni að vera svona löng?

Flestir þekkja þann vanda að bið eftir sérfræðilækni er allt of löng, jafnvel upp í nokkra mánuði. Það sama gildir um heilsugæslulækna en heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður fólks sem þarf að leita sér lækninga. Margt getur gerst á þeim tíma sem það tekur að bíða eftir tíma hjá lækni en þarf þetta að vera svona?

Davíð Ottó Arnar, yfirlæknir hjartalækninga, var áður sérfræðingur á stofu og þaulþekkir kerfi sérfræðilækna. Hann segir  að ástæður fyrir því að bið eftir sérfræðilækni er eins löng og raun ber vitni geta verið nokkrar.

„Það er kannski verið að reyna að komast að hjá ákveðnum lækni, það er líka mismunandi hvað þeir bjóða upp á marga tíma og hve setnir þeir eru, og síðast en ekki síst hve margir sérfræðingar eru starfandi í greininni. Þetta eru þrjár lykilástæður,“ segir Davíð.

Hann telur þó að fleira komi til, það þurfi að skipuleggja betur hvaða læknar sinni hvaða verkefnum og að það séu sóknarfæri í heilbrigðiskerfinu.

„Ég held að ef fólk þarf að bíða jafnvel upp í nokkra mánuði eftir tíma hjá sérfræðingi, þá sé það sé það vegna skorts á heildarskipulagi, bæði hvað varðar heildræna stýringu á því hvernig hlutunum er sinnt og hvað eigi að vera hvar.“

Davíð segir að ríkið greiði að mestu leyti fyrir alla eftirlitsþjónustu, það greiði að stórum hluta sérfræðiþjónustu á stofu og göngudeildareftirlit á Landspítala og fyrir komur á heilsugæslur. „Allar þessar einingar hafa virkað og þróast án samhengis hver við aðra, það er lítil samvinna á milli hvað verkefnum á að sinna hvar og hvernig á að standa að því að skapa aðgengi fólks. Það sem gerist er að þessar einingar verða frekar sjálfstæðar.“ Sjálfur var Davíð með stofu í mörg ár og þekkir því vel til hvernig fyrirkomulagið er þar. „Maður var með sinn hóp og var kominn með nokkuð hundruð manns og þurfti að sjá marga aftur og aftur en við það skapaðist lítill tími til að taka við nýjum þó að það væri gert að einhverju leyti.“

Vill sjá meiri samvinnu heilsugæslu og sérfræðilækna

Davíð segist vilja sjá að kaupandi þjónustunnar, sem er Sjúkratryggingar Íslands, myndi setja upp ákveðnar línur um það hvernig þeir vilji sjá þjónustuna. „Það væri t.d. hafa ákveðna tíma opna daglega sem mætti fylla tiltölulega seint, þannig að bæði gætu sjúklingar komist að sem virkilega þurfa að komast til sérfræðings og heilsugæslan gæti líka komið fólki að með stuttum fyrirvara.“

Er fólk að leita til sérfræðilækna með mál sem gætu farið til heimilislækna? „Ég tel að það megi svara þessu bæði játandi og neitandi. Ég held að tiltölulega margir séu í eftirliti hjá sérfræðilæknum með vandamál sem eru þó stöðug,“ segir hann með áherslu, „og sem heilsugæslan gæti sinnt en læknar þar þyrftu þó að hafa góðan aðgang að sérfræðilæknum ef það verður bráð versnun hjá fólki. Í mínum huga á heilsugæslan að vera hornsteinn í heilbrigðisþjónustu og þangað eiga flestir að leita, en sérfræðiþjónustan verður að vera boðin og búin að aðstoða eftir föngum. Ein af þeim hugmyndum sem hefur verið rædd er að í stað þess að þetta sé algjörleg aðskilið þá myndu sérfræðilæknar fara við og við á heilsugæslu og vera með sína móttöku þar.“

Með því móti segir Davíð að hægt sé nýta vel sérfræðiþjónustuna og heilsugæslulæknar gætu haft góðan aðgang að sérfræðingum, spurt spurninga og fengið álit þeirra sem oft þurfi e.t.v. bara einu sinni. Væri þessi háttur hafður á væri hægt að viðhalda meira flæði í stað þess að þjónustan sé föst á einum stað. En um leið og búið er að vísa einstaklingi á stofu þá finnst sérfræðilækni að hann verði að sjá sjúklinginn aftur þar og þá færist þjónustan af heilsugæslunni.

„Hinn hlutinn af þessu er náttúrlega að göngudeildir spítalanna hafa verið reknar með ýmsu sniði í mörg ár, bæði með hefðbundnu sniði þar sem fólk hittir sinn lækni og er í venjubundnu eftirliti eins og um sérfræðilæknastofu væri að ræða en við erum sífellt meira að feta okkur í átt að því sem við köllum þverfaglegar göngudeildir. Þar sem læknir, hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur, lífeindafræðingur, sjúkraliði eða aðrir, eftir eðli málsins, standa saman að því að fylgja eftir sjúklingum. Þá er oft um að ræða sjúklinga með flókin og erfið vandamál sem er erfitt að sinna annars staðar, þeir koma og fá heildræna þjónustu og títt eftirlit.“

Biðin mislöng eftir sérfræðigreinum

Er mislöng bið hjá sérfræðilæknum eftir greinum? „Framboð hjartalækna hefur aðeins minnkað síðatsliðin ár, margir þeirra hafa farið á eftirlaun og sumir í fullt starf á spítalanum. Ég held að þetta sé misjafnt frá einum tíma til annars hve margir eru starfandi í ákveðnum sérgreinum.“

En eru þá allir sérfræðilæknar með samning við SÍ og ef ekki skapar það þá ekki vandamál? „Ég þekki ekki þá sögu lengur, veit þó að ef samningur rann út fyrir nokkrum árum þá fengu læknar ekki endurnýjaðan samning við SÍ.“

Hvað telur þú að sé eðlileg bið eftir sérfræðingi, er eðlilegt að sjúklingur þurfi að bíða í 5 mánuði eins og dæmi eru um? „Ég myndi segja að eðlileg bið ætti að vera 1-4 vikur, ekki meira. Alla jafna ef fólk er með vandamál þá er augljóslega ekki gott að bíða í 5 mánuði,“ segir Davíð.

Eru kannski ekki nægir læknar hér? „Ég held að við búum ágætlega hvað það varðar, við bjóðum almennt upp á góða heilbrigðisþjónustu, held að hér sé almennt tiltölulega gott aðgengi að læknum en eins og þú bendir á þá getur það verið breytilegt eftir læknum og sérgreinum. Við eru þó í stöðu til að gera heilbrigðiskerfið enn betra með því einfaldlega að skipuleggja okkur betur, hvar á að sinna hverju og með miklu betri stýringu og samvinnu milli þessara þriggja eininga, spítalans, heilsugæslunnar og stofum sérfræðilækna.“

Aðspurður um hvernig málum sé háttað í nágrannalöndum, svarar Davíð að það sé misjafnt frá einu landi til annars, en að sérfræðiþjónusta sé ekki eins í boði eins og hér. „Það er eitthvað um einkareknar stofur en ekki með hlutagreiðslu frá ríkinu eins og hérlendis.“

Þarf að nútímavæða bókunarkerfi heilbrigðisþjónustunnar

Davíð tekur fram að nú sé nánast hægt að gera allt á netinu og því mætti nota sér það í heilbrigðiskerfinu, bókunarkerfið sé til dæmis úrelt. Fólk bíði oft lengi í síma eftir að komast í sambandi til að geta bókað tíma hjá sérfræðilækni. „Það mætti nútímavæða bókunarkerfi í heilbrigðisþjónustunni en fólk þarf að hringja á einkareknar stofur og bíða lengi eftir að geta pantað tíma. Það þarf að nútímavæða þetta. Það er margt gott þarna en við getum gert betur í samskiptum og vinnulagi.“ 

Hægt að skapa pláss hjá sérfræðingum með því að setja venjubundið eftirlit til heilsugæslunnar

Hvort sjúklingur sem er með háþrýsting og er meðhöndlaður með lyfjum, þurfi að koma endurtekið til sérfræðings segir Davíð að sennilega sé það ekki svo. Hann geti verið í heilsugæslunni. Með því móti opnast pláss fyrir nýja sjúklinga hjá sérfræðingum. „Þá erum við ekki að að lenda í því að það eru ekki tímar fyrir fólk sem þarf að komast til sérfræðings vegna þess að það er búið að festa tímana með þessu eftirliti með tiltölulega stöðugum sjúklingum marga mánuði fram í tímann. Og það má spyrja hvort þessir sjúklingar séu þá að fá þjónustu sem er á of háu stigi. Þannig að þegar málum sjúklinga er búið að koma í góðan farveg ættu sjúklingar að geta farið með sín mál á heilsugæsluna. Ég tel að meiri tilfærslur og dýnamík í kerfinu sé eitthvað sem við þurfum að horfa til varðandi þetta.“

Hver ætti að stýra þessu? „Líklega heilbrigðisráðuneytið, sérfræðilæknar heyra undir SÍ sem er undir heilbrigðisráðuneytinu þar sem er línur eru lagðar og verkstjórn á að vera.

Áskorunin núna er: hvernig gjörnýtum við þessa möguleika? Það er margt mjög vel gert á mismunandi stöðum. Samvinnan er hins vegar lítil en það ætti ekki að vera svo mikið mál hér að stilla upp einhvers konar eftirlitskerfi þar sem verkefnum er sinnt á viðeigandi stað. Það þarf að eiga sér stað samtal um hvað hentar hvar í kerfinu.“

Tryggja þarf að sérfræðilæknar sinni nýjum tilvísunum og skjólstæðingum 

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Eru heimilislæknar í vandræðum með að koma sjúklingum til sérfræðilækna vegna langs biðlista? „Já, það getur verið erfitt. Við höfum ekki upplýsingar um biðlista en vitum að biðin getur verið löng hjá mörgum. Heimilislæknar senda  gjarnan tilvísanir á aðra sérfræðinga um ákveðin vandamál án þess að tiltaka ákveðinn viðtakanda.“

Er verra að komast að hjá læknum í sérgreinum en öðrum? Já, sérgreinar s.s. geðlækningar og gigtarlækningar eru sérlega erfiðar.“

Hvernig er séð fyrir því að aðgengi sé viðunandi fyrir fólk? 

„Heimilislæknar reyna að senda skýrar og greinagóðar tilvísanir á sérfræðistofur, yfirleitt komast tilvísanir og skjólstæðingurinn í góðar hendur. Göngudeildaþjónusta hefur einnig aukist á LSH í ýmsum sérgreinum og góður kostur að vísa þangað. Við sérstök áríðandi vandamál er besta leiðin oft að hringja í sérfræðing.“

Eru þeir sem eru í brýnni þörf þá að bíða of lengi vegna þess að fólk hópast til sérfræðinga með væg vandamál, þarf að stýra þessu með ákv. hætti? 

„Án efa eru sérfræðingar oft að sinna einföldum vandamálum sem eiga betur heima í heilsugæslu. Heilsugæslan er sífellt að bæta við sig margvíslegum verkefnum og við fögnum því en mikilvægt er að nýjum verkefnum fylgi fjármagn, annars getur heilsugæslan ekki tekið við.“

Telur þú að það þyrfti að stýra þessu miðlægt? „Já, að hluta a.m.k. Tryggja þarf að allir sérfræðilæknar á stofu sinni nýjum tilvísunum og skjólstæðingum. Við miðlæga tilvísanagátt einfaldast væntanlega öll samskipti milli heimilislækna og annarra sérfræðinga.“

Telur þú að fólk sé að fara til sérfræðilækna með mál sem gætu verið hjá heimilislæknum og þar með kannski hindrað aðgengi þeirra sem verulega þurfa að komast að hjá þeim? „Ég tel að mörg vandamál sem sérfræðilæknar sinna væri auðvelt að sinna hjá heimilislækni. Sérfræðilæknir með fullbókaða daga á erfitt með að bæta við sig nýjum erindum og heimilislæknar eru með næga sjúklinga. Á heilsugæslustöðvum eru margar starfsstéttir og möguleiki á teymisvinnu.

Án efa eru sérfræðilæknar oft að sinna einföldum vandamálum sem eiga betur heima í heilsugæslu. Heilsugæslan er sífellt að bæta við sig margvíslegum verkefnum og við fögnum því en mikilvægt er að nýjum verkefnum fylgi fjármagn, annars getur heilsugæslan ekki tekið við fleiri skjólstæðingum.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn apríl 21, 2024 07:00