Gigtarskikkjan góða

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar      

Nú nálgast jólin og allir eru komnir í hörkupúl við að finna jólagjafir fyrir sína nánustu og jafnvel út fyrir þær raðir. Myndum af hugsanlegum jólagjöfum rignir inn á heimili í allskyns bæklingum. Fólk skoðar þetta, spáir og spekúlerar.

Fyrir þá sem eldri eru er þó niðurstaðan oft mjög einföld. Náttkjóll, hlý peysa, ullarsokkar – og hitapúðar og nuddtæki af ýmsum gerðum. Þeir eldri eru jú oft bæði kulsæknir og með gigtarverki.

Ég hef ekki farið varhluta af svona gjöfum og er hreint ekki að vanþakka þær. Ég var reyndar ung kona þegar fótanuddtækin voru upp á sitt besta og eignaðist því aldrei slíkt tæki. Verð reyndar að játa að ég var á þeim tíma ein af þeim sem gaf nákomnu eldra fólki sægrænt fótanuddtæki – sem það setti snarlega niður í kjallara og fannst tækið ekki fyrr en fólkið flutti búferlum áratugum síðar.

Seinni árin hefur mér áskotnast álitlegur fjöldi af herðapúðum af ýmsum gerðum sem hægt er að hita í örbylgjuofni og hafa þeir komið sér vel. Þrásetur við tölvu gera herðarnar þreyttar og bólgnar. Fólkið mitt veit að mér finnst hitinn góður. Ég hef líka fengið nuddtæki af ýmsum gerðum. Eitt nuddar fætur – það hef ég lítið notað. Maðurinn minn keypti til heimilisbrúks nuddstólbak með allskonar hringsnúandi tökkum. Það reynist svo öflugt að fólk úr fjölskyldunni lagðist í rúmið unnvörpum með harðsperrur eftir að hafa setið í því í rólegheitum og spjallað í svona um það bil klukkustund.

Sjálf greip ég með mér í snarhasti fyrir margt löngu nuddtæki sem er eins og tveir hnefar sem snúast og nuddar fólk ágætlega milli herðablaðanna. Ég var á ferðalagi í Oxford og sá þetta tæki í stórverslun. Fyrst leit ég bara á það með nokkurri lítilsvirðingu, fannst það varla geta verið til gagns. Fór svo að hugsa, sneri við og festi kaup á nuddhnefunum sem hafa staðið sig lengur og betur en flestir boxarar gera alla jafna – að mér er sagt.

Toppurinn á gigtartækjagjöfum sem mér hafa borist var þó klæði eitt mikið sem náði vel yfir axlir, fram yfir bringu og niður á rass. Þetta mátti setja í samband og hitnaði það þá mismikið eftir því sem maður vildi. Ég tók miklu ástfóstri við þessa gjöf frá æskuvinkonu minni. Gripur þessi hlaut afar virðulegt nafn. Ég hafði lánað einni dóttur minni hitaklæðið í skamman tíma þegar hún ofreyndi sig á tölvuvinnu. Hún skilað svo gripnum með þessum fleygu orðum: „Hér er gigtarskikkjan þín mamma. Takk fyrir lánið.“

Svo gerðist það allnokkru síðar að önnur dóttir mín fékk bólgur miklar í herðar í kjölfar veirusýkingar. Þar sem ég vildi gera henni gott fór ég með gigtarskikkjuna til hennar og bauð henni af höfðingsskap mínum að hafa hana svo lengi sem hún þyrfti – ég hefði einhver ráð á meðan.

Ekki fór þó betur en svo að stúlkan settist á gigtarskikkjuna í ógáti. Það þoldi þessi virðulega skikkja ekki og sprakk með hvelli svo buldi í húsinu. Það var niðurlút manneskja sem skilaði skikkjunni óvígri, allsendis ófærri um að hitna nokkurn tíma framar.

Ég neita því ekki að þetta atvik tók á mig en reyndi að láta ekki á því bera. Til þess að fá útrás fyrir skeknar tilfinningar mínar ákvað ég að fá útrás í ljóðlistinni, það hefur oft reynst gott ráð þegar í óefni er komið. Læt ég kvæðið fylgja hér með í minningu hinnar ástkæru skikkju.

Gigtarskikkjan góða

Er „gengin fyrir björg“.

Af sorg mig setti hljóða

og sit ég eftir örg.

Sem betur fer endar þessi saga ekki svona sorglega. Vinkona mín frétti af örlögum gigtarskikkjunnar og af góðsemi sinni útvegaði hún aðra skikkju af sama tagi og gaf mér nýlega. Ég ætla ekki að lýsa hlýjunni sem þessi gjöf hefur fært mér – líkamlegri sem andlegri. Nú sit ég glöð í bragði á kvöldin og horfi á endalausa gamla sakamálaþætti, umvafin hinni nýju gigtarskikkju. Ekki minnkar ánægja mín þegar ég í hlýjunni hugsa til jólahátíðarinnar og alls þess góða og skemmtilega sem hún færir okkar í skammdeginu hér norður á hjara veraldar.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir desember 3, 2018 08:44