Ferðafélag barnanna er félagsskapur sem Ferðafélag Íslands hefur staðið fyrir frá 2009. Undanfarið hefur Ferðafélagið verið í samstarfi við Háskóla Íslands í þessum ferðum þar sem fulltrúar Háskólans hafa verið með í för og frætt börn og fullorðna um sögu þeirra staða sem gengið er um. Þátttaka í göngunum er ókeypis en höfuðmarkmiðið er að hvetja börn og fullorðna til útiveru saman. Ferðafélag barnanna er með einhverjar ferðir í hverjum mánuði allt árið, þótt fleiri ferðir séu farnar yfir hásumarið en háveturinn. Farnar eru nokkrar lengri ferðir, en dagsferðirnar eru tilvaldar fyrir ömmu og afa með barnabörnunum. Allar ferðir þessa félagsskapar eru sniðnar að þörfum barna og til þess að svala forvitni þeirra um náttúruna og leyndardómana sem í henni felast. Gott er að hafa í huga að leiðin er oftast mikilvægari en takmarkið sjálft þegar börn eru annars vegar. Á meðan þeir fullorðnu keppast við að ná upp á topp vilja börnin taka sinn tíma í að upplifa ævintýrin á leiðinni. Mjög gaman er að ferðin hafi líka tilgang eins og að veiða fisk eða tína ber, leita að sveppum, skoða gjótur eða kveikja varðeld.
Tilvaldar jólagjafir
Fyrirheit um skemmtilegt gönguár ásamt einhvers konar göngubúnaði er tilvalin jólagjöf frá mömmu og pabba eða ömmu og afa. Upplýsingar um slíkan búnað er að finna á heimasíðum Fí og Útivistar. Hægt er að finna sérlega skemmtilegar gönguferðir sem Ferðafélag barnanna hjá FÍ stendur fyrir inni á vef ferðafélagsins fi.is. Þar finnur maður „ferðafélag barnanna“ ofarlega í slá með gagnlegum upplýsingum og fróðleik. Viðlíka upplýsingar er líka að finna hjá ferðafélaginu Útivist. Inni á heimasíðu Ferðafélagsins er að finna hugmyndir sem tilvalið er að nota þegar leika á við börnin úti í náttúrunni:
Að finna hlut og fjársjóðsleit
Finna sem flesta hluti, plöntur og annað sem byrja t.d. á bókstafnum S eða B. Það er hægt að búa til keppni í kringum þetta, annað hvort liða- eða einstaklingskeppni. Ákveðið byrjunarreit og búið til skriflega lýsingu á því hvar fjársjóðurinn er falinn, svo sem tvö skref í suður eða í átt að sjónum, þrjú skref í vestur o.s.frv. Það er líka hægt að fara í fjársjóðsleit með kort þar sem krakkarnir merkja inn á kortið hvert þau fara samkvæmt skriflegu lýsingunni.
Rötun með korti
Hægt er að nota kort af næsta nágrenni sem krakkarnir hafa tekið þátt í að teikna. Skiptið krökkunum niður í hópa. Merkið inn mörk eða áfangastaði á leiðinni sem farin er á kortinu. Þátttakendurnir fá kortið, finna áfangastaðina, svara spurningum eða gátum um hvað þar er að sjá og koma svo til baka á byrjunarreitinn. Þá fá þau kortið aftur með nýjum áfangastað. Staðsetjið áfangastaðina þannig að börnin þjálfist í að fylgja bestu leið þangað, t.d. eftir stíg eða árbakka.