Vill geta ráðið sínum tíma sjálf

„Ég vakna alltaf um klukkan sex, hálfsjö á morgnana og tek mig til fyrir daginn. Mér finnst yndislegt að geta notið lífsins og þurfa ekki að fara neitt, þurfa ekki rjúka út strax eftir morgunkaffið“, segir Guðrún Birgisdóttir sem hætti í launuðu starfi 1.apríl síðast liðinn. Hún starfaði sem verkefnisstjóri alþjóðamála á Hugvísinasviði  Háskóla Íslands. Guðrún býr ásamt manninum sínum Chuck Mack í fallegu einbýlishúsi í Grafarvogi, á einni hæð. Samtals eiga þau 5 börn og 13 barnabörn. Börnin búa öll erlendis, nema yngsta dóttir Guðrúnar, sem býr hér heima. Chuck sem á íslenska móður ólst upp í Bandaríkjunum og bjó þar árum saman.

Guðrún í heimsókn hjá dóttur sinni og fjölskyldu í Sviss

Langaði ekki að vinna til sjötugs

Guðrún segir að hún hafi verið búin að pæla í því í rúmt ár að hætta að vinna. „Mig langaði ekki að vinna í Háskólanum til sjötugs“, segir hún í viðtali við blaðamann Lifðu núna. „Ég var alveg til í að vinna til 67 ára, en það dróst aðeins að ég hætti. Ég hugsaði alltaf að ég ætlaði ekki að hafa nein plön þegar ég hætti að vinna. Ekki fara til Indlands til að sjá Thasmahal, eða skoða þjóðgarða í Arfíku og ég pantaði mér ekki golfkennslu“, segir hún brosandi. „Það er algeng spurning sem maður fær, Eruð þið ekki á fullu í golfinu?  Ég á 9 barnabörn, sem mörg búa ásamt foreldrunum í útlöndum og samanlagt eigum við Chuck 13 barnabörn. Mér finnst mikilvægara að geta heimsótt þau og að þau geti komið hingað, en að fara í golfferðir“.

Vil ekki festa mig í einhverju

„Ég heyri að margir plana að taka sér langt og gott frí til dæmis á Tenerife eða Florida þegar þeir hætta að vinna. Það var aldrei mín hugmynd að gera það, þaðan af síður að drífa mig aftur í háskólanám eða bóka fjölda námskeiða hjá Endurmenntun. En ég myndi alveg fara á námskeið ef ég sæi eitthvað sem höfðaði til mín. Það er gott að hafa fullt af bókum og ég er búin að lesa kynstrin öll af bókum undanfarna mánuði. Svo er nóg af námskeiðum í boði á netinu ef vill. Ég vil geta ráðið mínum tíma sjálf og vil ekki festa mig í einhverju“, segir Guðrún.

Í stofunni heima

Finnst gott að vera heima hjá mér

Guðrún nýtur þess til fulls að vera heima eftir að hún hætti að vinna, „Ég er mjög heimakær og finnst gott að vera heima hjá mér. Ég er með garð þar sem ég rækta matjurtir á sumrin, salat, broccoli, kryddjurtir og jarðaber. Svo er ég með hinberjarunna og rifsberjarunna og lítil tré, kirsuberjatré og eplatré. Mér finnst gott að vera úti í garði þegar veðrið er gott, það er eins konar hugleiðsla. Ég hlakka til að vakna á morgnana, fá mér kaffibolla og fara út í garð, það er stundum alveg nóg fyrir mig“, segir hún. Um þessar mundir er lífið mjög rólegt og eftir morgunkaffið vindur hún sér í Kundalini eða Nidra jóga sem hún hefur stundað í mörg ár. Fyrir tveimur árum sótti hún námskeið í fræðunum í Arizona og tók þá líka fjarnámskeið í núvitund. „Svo er ég alltaf að skrifa eitthvað“, segir hún íbyggin.

Saknar ekki starfsins

„Það hefur ekki komið einn dagur sem ég hef hugsað Ó hvað ég vildi að ég væri að fara í vinnuna. Það er svo gott að geta verið heima og lesið fréttir í rólegheitum, bæði íslenska og erlenda miðla“, segir Guðrún og bætir við að hún hafi heldur ekki átt þess kost að fara og hitta vinnufélagana. „Ég var að vinna með frábæru fólki“, segir hún. Vinnustaðnum hennar var hins vegar skipt upp vegna Covid og þegar hún hætti 1. apríl, voru bara tveir á hennar skrifstofu í HÍ af 11 manna starfsliði, Aðrir voru  heima að vinna. Hún kvaddi þessa tvo en  kveðjuhóf var ekki inni í myndinni á þeim tíma

Á ömmudegi með Kára litla

Ömmudagur einu sinni í viku

Frá því Guðrún hætti að vinna hefur hún hjálpað yngri dóttur sinni með fyrsta barn foreldranna, rúmlega ársgamlan dreng.  „Ég er með ömmudag einu sinni í viku og hleyp svo til ef á þarf að halda“, segir hún hæstánægð, þetta er svo skemmtilegt. Eins og aðrir hitta þau Chuck fátt fólk þessa dagana. „Eina fólkið sem ég hitti er nánasta fólkið mitt hér á Íslandi, yngri dóttir mín og hennar fjölskylda. Auk þess koma tvær ömmustelpur mínar stundum í mat en foreldrarnir og tvær yngri systur búa eins og stendur í Noregi. Þær búa hér núna í húsi fjölskyldunnar á Íslandi og stunda báðar nám í læknisfræði við HÍ“, segir hún. Vegna Covid varð ekkert úr því að þau færu og yrðu við útskrift dótturdóttur Guðrúnar sem útskrifaðist úr alþjóðlegum skóla síðast liðið sumar. „Ég vissi að hún myndi fara til náms í læknisfræði í Danmörku, og okkur Chuck langaði mikið að fara og vera við útskriftina í Sviss. Núna er þá bara á dagskrá að fara oftar til Danmerkur sem er ekki slæmt en ég bjó þar sjálf í nokkur ár og  finnst gott að koma þangað. Ég var löngu búin að panta ferðina í útskriftina , en þegar að henni kom var ekki einu sinni flogið til Sviss og útskriftin varð öðruvísi en ætlað var“, segir hún.  Sonur Chucks sem ætlaði að koma í heimsókn í sumar frá Kaliforníu ásamt fjölskyldu, varð líka að hætta við sína ferð hingað

Hafa gengið og gengið

Líkamsræktin undanfarna mánuði hefur falist í gönguferðum fyrir utan yoga heima.  Guðrún og Chuck fara út að ganga á hverjum morgni, en hann er hönnuður sem vinnur að sinni hönnun heima og er með vinnuaðstöðu í bílskúrnum við húsið.  Guðrún aðstoðar hann við ýmis verkefni. Um tíma fór hún vikulega í gönguferðir með nokkrum vinkonum, en síðustu 2-3 mánuði hafa þær ekki gengið saman en það stendur til bóta.

Guðrún í gönguferð í Grafarvoginum

Mikilvægast að halda heilsu

Guðrún sér ekki fram á að minnka við sig húsnæði  í bráð, enda býr hún á einni hæð, húsið er mátulega stórt fyrir þau með góðri vinnuaðstöðu  og góðu gestaherbergi „Ef við höldum heilsu er helsta óskin að eiga góð ár framundan og ég óska börnunum og fjölskyldunni þess sama. Ef fólk er ánægt og við góða heilsu, er hægt að gera svo margt á þessum aldri, til dæmis að ferðast eitthvað, en fyrir okkur Chuck liggur leiðin fyrst og fremst til þeirra staða þar sem börnin okkar og fjölskyldur búa. Okkur langar að geta farið og heimsótt börn og barnabörn í þessum löndum.  Það er þetta sem er mikilvægast, að halda heilsu og geta farið til þessara staða til að heimsækja okkar fólk“

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 17, 2020 06:31