Tengdar greinar

Ævintýri í pizza sendiferð

Gísli Sigurgeirsson

Gísli Sigurgeirsson sjónvarpsmaður á Akureyri skrifaði þessa skemmtilegu færslu á Facebook og hún birtist hér með hans leyfi.

Ég lenti í ævintýri áðan. Við hjónin ákváðum að gera okkur dagamun í eiangruninni og pöntuðum okkur flatböku, pizzu, sem gerist nú ekki oft á þessum bæ. Konan pantaði, en ég sótti. Þegar ég er að ganga út úr Dominos við Undirhlíð rak ég tána í einhverja and……. misfellu. Ekki þarf að orðlengja það; þessi tveggja metra maður tókst á loft, fór flikk flakk þvert yfir bílastæðið í ógnvekjandi hæð og með ólýsanlegum stíl, en hlunkaðist síðan niður á syðri öxlina með skvampi. Stuttu síðar lenti pizzan í frumeindum á hausnum á mér; botninn fyrst, síðan sveppirnir, pepperonisneiðarnar og annað álegg. Loks lenti pappakassinn, sem átti að halda flatbökunni heitri. Um leið heyrði ég að gosflaskan small með smassi í malbikið úti í götu, þar sem trukkur frá Eimskip ók yfir hana. Eða var hann frá Samskip? Verra gat ástandið varla orðið. Nú sá ég fram á að verða rassskelltur við heimkomu! En þegar neyðin er stærst er hjálpin nær en maður heldur. Flatbökusendill kom aðvífandi og varð vitni að þessari flugferð. Hann var greinilega snortinn af stílnum sem ég sýndi í loftinu. En þegar hann hafði jafnað sig byrjaði kappinn á að draga mig upp úr „kvöldmatnum“ og studdi mig inn í afgreiðsluna. Þegar ég hafði sannfært hann um, að ég þyrfti ekki sjúkrabíl, fór hann út aftur og hreinsaði allt gumsið af slysstað. Á meðan heyrði ég að afgreiðslustjórinn skipaði sínum mönnum að búa til nýja flatböku fyrir mig í hvelli og sendillinn færði mér aðra kókflösku beint úr kæli. Innan fárra mínútna var ég aftur kominn með kvöldmatinn í fangið og gerði aðra tilraun til að komast með fenginn út í bíl og heim. Það tókst og nú er ég saddur og glaður eftir að hafa notið einstakrar þjónustu og greiðvikni hjá mannskapnum á Dominos við Undirhlíð 2 á Akureyri. Takk fyrir mig! 🙂

Ritstjórn nóvember 12, 2020 16:28