Plastpokar nú og þá

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Plastpokar eru, eins og flestar aðrar plastvörur, orðnir hin mesta umhverfis plága. Margar borgir í Bandaríkjunum, meðal annarra San Francisco, hafa alfarið bannað notkun plastpoka í verslunum sínum, en viðskiptavinir geta fengið pappírspoka til afnota gegn vægu gjaldi. Reyndin er sú að flestir kúnnar koma með sína eigin innkaupapoka þegar þeir versla. Þessi þróun hefur verið mikill þyrnir í augum olíuframleiðenda, en plastpokar eru, eins og allir vita, framleiddir úr olíuefnum. Nýverið samþykkti ríkisþing Kalíforníu lög um að banna plastpoka noktun um gjörvallt Kaliforníuríki, en olíufélögunum tókst með klækjum að ná því fram að til þess að að fá þessi lög staðfest verði fyrst að kjósa um þau í almennum kosningum.

Það er því erfitt að trúa því í dag að eitt sinn voru plastpokar afar sjaldgæfir og eftirsótt munaðarvara. Þegar móðir mín var ung gaf erlendur gestur, sem dvaldi á heimili hennar, henni plastpoka. Ekki veit ég af hverju það var hún ein sem hreppti það hnossið, en systur hennar tvær fengu enga plastpoka og voru að vonum mjög leiðar yfir því. Sumarið eftir að móðir minni áskotnaðist plaspokinn, var eldri systur hennar boðið til mánaðar dvalar á miklu menningarheimili í Þingeyjarsýslu. Það var mikil upphefð og lagði hún sig alla fram við að tryggja að hún mundi sóma sér vel á slíku fyrirmyndar heimili. Til að tryggja að svo yrði bað hún móðir mína að lána sér plastpokann undir snyrtidótið sitt. Upphófust langar og strangar samningaviðræður milli þeirra systra, því móðir mín vildi ekki láta plastpokann af hendi fyrr en hún fékk samþykki eldri systur sinnar fyrir því að hún mætti klæðast fínustu kjólunum hennar og skreyta sig með skartgripum meðan á sveitadvölinni stæði. Það varð úr, og fór eldri systirin alsæl norður í Þingeyjarsýslu með plastpokann góða.

Ekki fara sögur af því hvað fólkinu á fyrirmyndarheimilinu fannst um plastpokann, en hann reyndist eldri systur móður minnar algjör bjargvættur. Íbúðarhúsið á bænum var hið nýtískulegasta, þar voru bæði rafmagns- og vatnslagnir og vatnsklósett og fyrir vikið engir koppar undir rúmi. Eina nóttina varð eldri systir móður minnar mikið mál, en hún þorði ekki fyrir sitt litla líf að fara á klósettið. Herbergið sem hún svaf í var inn af svefnherbergi höfðingshjónanna og hún var hrædd um að vekja þau ef hún gengi þar í gegn til að komast á klósettið. Nú voru góð ráð dýr og að lokum ákvað elsta systir mömmu að tæma plastpokann og pissa í hann. Þegar hún hafði létt á sér, skvetti hún úr pokanum út um gluggann úti í fagra sumarnóttina. Morguninn eftir þvoði hún pokann vel og vandlega, raðaði snyrtidótinu sínu í hann aftur og þegar heim kom skilaði hún mömmu honum og þakkaði henni kærlega fyrir lánið og sagði að hann hefði komið sér vel.

Á hvern hátt það var, vissi móðir mín auðvitað ekki fyrr en mörgum árum síðar, þegar plastpokinn var fokinn út í veður og vind. Hún hló dátt við að heyra hið sanna í málinu og alltaf eftir það, þegar hún sagði fólki söguna af plastpokanum góða.

Inga Dóra Björnsdóttir janúar 26, 2015 14:48