Það er fátt leiðinlegra en að leggjast í flensu. Flensupestir geta verið skæðar og oft á tíðum er fólk lengi að jafna sig. Síðustu hundrað árin hafa gengið nokkrar bráðsmitandi flensur yfir heimsbyggðina. Um þær má fræðast í Farsóttarskýrslu 2017 með sögulegum upplýsingum. Lifðu núna ákvað að stikla á stóru um flensufaraldra en greinagóðar upplýsingar um þá er að finna í skýrslunni. Sá fyrsti gekk yfir fyrir einni öld.
Líklegt er að heimsfaraldur inflúensu 1918, spænska veikin, hafi átt upptök sín í Bandaríkjunum í marsmánuði það ár. Þaðan breiddist hann í austurátt til Evrópu með bandarískum hermönnum sem tóku þátt í heimsstyrjöldinni fyrri. Framan af var inflúensan tiltölulega væg. Í ágúst 1918 tók faraldurinn óvænt breytingum á mismunandi svæðum nánast samtímis. Dánartíðni sjúkdómsins margfaldaðist þegar inflúensan barst til Afríku með skipi frá Bretlandi. Í Frakklandi jókst dánartíðnin skyndilega og einnig í Rússland en þaðan barst sóttin með skipakomum til Arkangelsk. Þá barst inflúensan aftur til Boston og þaðan um öll ríki Bandaríkjanna, mun mannskæðari en áður. Mörg ríki veraldar urðu fyrir annarri og þriðju bylgju faraldursins 1918-1919 og 1919-1920.
Inflúensan barst til Íslands í byrjun júní 1918. Hún gekk um landið og var tiltölulega væg hér eins og annars staðar. Var hún kölluð sumarinflúensan. Í októberlok 1918 sótti inflúensan aftur mjög í sig veðrið og varð skyndilega afar mannskæð. Yfir 500 manns eru taldir hafa látist af völdum veikinnar, flestir á aldrinum 20-40 ára. Í Reykjavík er talið að um 10 þúsund bæjarbúar eða 65 prósent hafi sýkst af spönsku veikinni. Af þeim létust 2,8 prósent. Hún geisaði fyrst og fremst á suðvesturhluta landsins en líklegt má telja að sóttvarnarráðstafanir, sem fólust í ferðabanni á milli landshluta, hafi skilað þessum árangri og hlíft norður- og austurhluta landsins.
Slæm kvefpest gekk um landið vorið 1919, en óljóst er hvort um inflúensu hafi verið að ræða. Seinni bylgjur inflúensunnar gengu yfir vorið 1920 og sumarið 1921 en voru ekki eins mannskæðar og haustið 1918.
Aðrir heimsfaraldrar sem gengu yfir á 20. öld voru Asíuinflúensan 1957-1958, Hong Kong inflúensan 1968-1970 og svínainflúensan 2009.
Asíuinflúensan hófst í Kína 1957 og barst þaðan til allra ríkja veraldar. Til Íslands kom hún hausið 1957 frá Rússlandi að því talið var. Inflúensufaraldurinn var ekki mjög mannskæður, hvorki hér né annars staðar. Önnur bylgja heimsfaraldursins reið yfir í ársbyrjun 1958 en á Íslandi gekk önnur bylgja ekki yfir fyrr en vorið 1959. Var önnur bylgja metin mun þyngri en sú fyrri og var það einnig reynsla annarra þjóða. Lagðist flensan þungt á eldra fólk og veikburða.
Hong Kong inflúensan hófst í júlímánuði 1968 í Kína og barst þaðan til flestra landa heimsins. Til Íslands barst hún í desember 1968. Önnur bylgja flensunnar reið yfir í árslok 1969 og ársbyrjun 1970. Þessi faraldur var talinn í meðallagi þungur.
Heimsfaraldur af völdum inflúensu, svínaflensan, hófst síðvetrar 2009 í Bandaríkjunum og síðar í Mexíkó. Hann barst skjótt um allan heim, fyrst í austurátt til Evrópu vorið 2009. Þegar leið á sumarið fjölgaði tilfellum en veikin reyndist væg framan af, ekki ólíkt því sem gerðist sumarið 1918. Í september og og byrjun október fjölgaði tilfellum mikið með auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Inflúensan hafði mikil áhrif í samfélaginu og voru skólafjarvistir áberandi. Bólusetning gegn svínaflensunni hófst um miðjan október 2009 og var helmingur landsmanna bólusettur á næstu mánuðum. Að mati sóttvarnarlæknis sýktist um fimmtungur þjóðarinnar af völdum inflúensunnar og að minnsta kosti tvö dauðsföll af völdum hennar voru staðfest. Ekki bar á nýrri bylgju flensunnar á árunum 2010 til 2015.