Elsta og veikasta fólkið heldur áfram að bíða

Biðlistar eftir varanlegri búsetu aldraðra í hjúkrunarrými halda áfram að lengjast með tilheyrandi álagi á aðstandendur hinna öldruðu og heilbrigðiskerfið. Í tilkynningu frá Landlæknisembættinu segir að það sé verulegt áhyggjuefni hvað biðlistinn hefur lengst á undanförnum árum. Í byrjun árs 2014 voru 226 á biðlista eftir varanlegri búsetu í hjúkrunarrými, í ársbyrjun þessa árs voru þeir 362. Þeim sem bíða hefur svo fjölgað um 20 prósent á árinu og í september voru þeir orðnir 411. Eftir að fólk hefur fengið fullgilt heilsu og færnimat tekur við löng bið áður en það fær inni á hjúkrunarheimili Meðalbiðtíminn á landsvísu er 121 dagur. Landlæknisembættið lýsir yfir þungum áhyggjum af þessari stöðu og þeim áhrifum sem löng bið eftir hjúkrunarrými getur haft á lífsgæði þeirra sem bíða og heilbrigðiskerfið allt.

Í fréttum RÚV í gær kom fram að framlög til uppbyggingar hjúkrunarheimila lækka um rúman milljarð, samkvæmt tillögu meirihluta fjárlaganefndar. Í fréttinni segir: „Þar er meðal annars tillaga um að framlög til uppbyggingar hjúkrunarrýma verði lækkuð um 734 milljónir króna frá því sem lagt var til í september, auk þess sem lækka á framlög til stofnkostnaðar og endurbóta hjúkrunarheimila um 300 milljónir. Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að eftir að Hagstofan endurmat Þjóðhagsspá sína hafi komið í ljós að nauðsynlegt væri að hækka liði á borð við laun og verðlagsbætur í frumvarpinu. Þeirri hækkun hafi verið mætt með ýmsum ráðstöfunum.

„Þannig að menn fóru að skoða hvar væru tafir á framkvæmdum á þessum lið. Og við erum komin það nálægt árinu 2019 að það er útséð með að fjárheimildir sem lagt var upp með í frumvarpi sem er unnið framan af ári verði ekki hægt að nýta á næsta ári. Þannig að þeim er hliðrað til. Og það útskýrir þessa lækkun. Á móti er verið að hækka framlög til rekstrar.“

Willum segir að sú hækkun nemi tæpum 300 milljónum. Þessar fréttir þýði ekki að uppbyggingu hjúkrunarheimila seinki, enda sé mikil þörf á þeirri uppbyggingu. „Nei þetta eru tiltekin verkefni þar sem blasir við að hafa tafist af ýmsum orsökum. Þetta gildir ekki um alla uppbyggingu,“ sagði Willum, í fréttum RÚV.

Ritstjórn nóvember 15, 2018 09:14