Það er enginn fyrir framan okkur í röðinni

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

Kynslóð kemur og kynslóð fer sagði í texta dægurlagsins í bílútvarpinu. Þulurinn kynnti lagið og þar með textann sem keppnislag í söngvakeppni evrópsku sjónvarpsstöðvanna en þau lög hafa tröllriðið dagskrá Ríkisútvarpsins undanfarna daga, hvort heldur er í útvarpi eða sjónvarpi. Enn á eftir að velja sigurlag þessa árs en hvort það mun ríða feitum hesti frá aðalkeppninni í vor skal ósagt látið.

Það skiptir heldur ekki höfuðmáli en það er rétt sem textahöfundur fyrrnefnds lags segir, kynslóðirnar koma og fara. Á það vorum við hjónin minnt í liðnum janúarmánuði þegar ágætur tengdafaðir minn safnaðist til feðra sinna. Hann hafði skilað sínu dagsverki og rúmlega það á þeim tæpu 88 árum sem hann lifði. Með fráfalli hans urðu jafnframt þau tímamót í okkar lífi að foreldrar okkar beggja eru gengnir. Feður okkar lifðu lengur en mæðurnar, mamma dó aðeins sjötug að aldri, en pabbi náði því að verða níræður áður en hann andaðist fyrir hálfu öðru ári. Tengdamamma var á 83. aldursári þegar hún lést fyrir tæpum fimm árum. Meðaltalstölur um aldur kynjanna, konum í hag, segja því ekki alla sögu.

Okkar góðu foreldrar lifðu góðu lífi, eignuðust marga afkomendur og komu vel undir sig fótunum. Þau náðu öll prýðilega háum aldri, nema mamma. Það kann að vera ósanngjörn krafa til almættisins en engu að síður finnst manni sjö áratugir nánast enginn aldur. Þá geta nefnilega fylgt góð ár í kjölfarið, ef heilsa leyfir.

En hvað þýðir það fyrir okkur tvö, hjónakorn í Kópavogi, að hafa fylgt föður og tengdaföður til grafar á dögunum? Jú, það blasir við þegar horft er á stórfjölskyldu okkar. Við erum orðin elst. Það er enginn fyrir framan okkur í röðinni. Hún kemur, að öllu forfallalausu, næst að okkur.

Samt erum við alls ekki gömul, eða það finnst okkur að minnsta kosti ekki, 65 og 64 ára, í fullu fjöri, bæði í fullri vinnu og höfum það gott. Það er helst að við vinnum of mikið, ef eitthvað er, því við höfum svo mörgu öðru að sinna. Tvö af fjórum börnum okkar búa í útlöndum – og með þeim meirihluti barnabarna okkar. Við þurfum að gefa okkur tíma til að heimsækja þau – sem og börnin og barnabörnin sem heima búa. Sumarkot eigum við líka austur í sveit. Um það þarf að hirða um leið og vistarinnar þar er notið, auk alls annars sem að okkur snýr.

Við erum sem sagt spræk og fjörug þótt hárið á mér sé grárra en á eiginkonunni, einhverra hluta vegna, en andlát hins síðasta í foreldrapörum okkar verður þó óneitanlega til þess að maður staldrar við. Hvað okkar bíður, sem nú stöndum fremst í röðinni, er ekki gott að segja, sem betur fer, en líti maður til forfeðra og -mæðra má sjá hvaða línur hafa verið lagðar. Afar mínir náðu báðir níræðisaldri, sem og móðuramma mín, en föðuramman potaði sér á tíræðisaldurinn. Ömmur konu minnar hurfu úr heimi í kringum áttrætt, föðurafinn dó á sjötugsaldri en móðurafinn lifði í hartnær heila öld, ansi brattur lengst af.

Ómögulegt er að segja hvort afkomendum okkar finnst við vera gömul, enda skiptir það ekki máli. Aðalatriðið er hvað okkur sjálfum finnst. Okkur finnst Elli kelling ansi fjarri, satt best að segja, og hugsum nánast ekki til hennar. Vitaskuld sér maður það á kollinum að hárið er öðruvísi á litinn en áður var, að minnsta kosti hvað mig varðar – og ef vel er gáð í hársverði frúarinnar, að minnsta kosti ef hún gleymir sér!

Telji barnabörnin að amma og afi séu orðin svolítið gömul er það bara eðlilegt. Fyrir utan okkur eru foreldrar þeirra fyrir framan þau í röðinni. Ég man það glöggt þegar við, núverandi amma og afi, mættum með frumburð okkar ársgamlan í gullbrúðkaup ömmu minnar og afa að mér þótti þau orðin ansi gömul. Samt voru þau ekki nema fimm til sjö árum eldri en við erum núna. En þau stóðu þá fremst í sinni röð. Við það tækifæri var tekin mynd af okkur fjórum, litla drengnum, mér, pabba og afa. Fjórir ættliðir í beinan legg. Afinn og langafinn virðulegir, drengurinn fallegur í sínum æskuljóma en faðir hans á síðhærða tímabilinu. Tönturnar í viðhafnarveislunni í stórhýsinu við Háteigsveg slógu sér á lær, undrandi á útliti þeirra sem erfa áttu land.

Nokkrum áratugum síðar birtist sambærileg mynd af fjórum kynslóðum, í beinan karllegg, í ættfræðigrein Morgunblaðsins. Tilefnið var sextugsafmæli pistilhöfundarins. Uppröðunin var sú sama nema hvað skipt hafði verið um hlutverk, allt hafði færst um eina kynslóð. Pabbi var orðinn langafinn og ég afinn. Nýr faðir prýddi myndina, yngri bróðir frumburðarins, ekki eins síðhærður og faðir þeirra í gullbrúðkaupinu forðum daga, en skeggjaður að sið samtímans. Yngsti liðurinn fallegur sem fyrr í æskuljóma sínum.

Nú, hálfu sjötta ári síðar, hefur enn verið skipt um hlutverk. Ég er kominn á kantinn í stað forfeðranna, fremstur í röðinni, en það er samt ekki öll von úti. Kynslóðirnar núna eru bara þrjár. Börnin okkar eru mun seinni til að eignast börn en okkar kynslóð og þær sem á undan fóru. Því líða án efa allmörg ár þar til aftur verður hægt að mynda fjóra ættliði saman. Vonandi lifi ég það sem langafi, hver veit.

Ef ekki – þá verður bara að fótósjoppa kallinn inn á myndina.

 

Jónas Haraldsson febrúar 19, 2018 09:22