Veggmyndir eru ævafornt listform. Listfræðingar telja það að minnsta kosti 40.000 ára gamalt. Hvernig litið var á viðleitni manna til að skreyta hellisveggi og útveggi híbýla sinna á fornum tímum er ekki vitað en í dag er hún umdeild. Þá virðist litlu skipta hvort um er að ræða verk viðurkenndra listamanna eða svokallaðra veggjakrotara.
Í austurhluta Lundúnaborgar eru stór hverfi fátækara og bjargarminna fólks í bresku samfélagi. Veggjakrot er þar algengt og menn alla jafna spreyja alla veggi um leið og þeir eru þrifnir. Verkefnið Wood Street Walls hefur staðið yfir í fimm ár og þar hjálpast listamenn og hverfisbúar að við að skapa myndir sem senda skilaboð og vekja athygli á margvíslegum málefnum. Borgin er strigi þessara listamanna og þeir njóta þess að tjá sig. Tilgangurinn er að lífga upp á umhverfið en gera það á jákvæðan og skipulegan hátt.
Hér er brugðið upp mannamyndum, dýramyndum, frumlegum gestaþrautum og abstract verkum. Mjög mörg verkanna eru heillandi og einstaklega falleg en á bak við sum er áhrifamikil saga. Eitt þeirra, Gestures of a Square eftir Aaron Li-Hill. Tiltilinn er erfitt að þýða því hann hefur nokkuð margræða merkingu. Gesture er hreyfing eða látbragð og square getur verið bæði torg og ferningur. Á síðari árum hefur orðið svo fengið yfirfærða merkingu og er oft notað um íhaldsamt eða afturhaldsamt fólk. Verkið stendur við Gillett Square, notalegt torg nálægt Ridley Road Market í Dalston og á vegginn eru máluð andlit þeirra hverfisbúa sem reglulega heimsækja torgið til að njóta sólar, hvíla sig ofurlitla stund á leið heim eða hitta hvern annan. Þetta sama fólk teiknaði síðan, skrifaði skilaboð eða nöfnin sín á blað og pappírssnifsin voru límd á vegginn og unnin inn í fatnað fígúruranna.
Gyðjan vakir yfir börnum sínum
Önnur athyglisverð mynd er af konu, hár hennar er myndað úr blómum og flæðir um vegginn. Þetta er eftir þá Tom Jackson og Craig Evans, en þeir eru tvíeyki, þekkt undir listamannsheitinu, Static. Konan minnir einna helst á gyðju og engu líkara en hún vaki yfir hverfinu. Hér á landi hefur orðið samskonar vakning í þá átt að innleiða list inn í almannarými utandyra og þá helst í fremur kuldalegt borgarlandslag sem ekki hefur nært fegurðarskynið fram að því.
Það vakti mikla athygli árið 2014 þegar Reykjavíkurborg réðst í það verkefni að flytja verk eftir Erró á tvo húsgafla í Breiðholti. Erró gaf góðfúslegt leyfi fyrir þessu en hann er heiðursborgari Reykjavíkur. Annars vegar var um að ræða bogadreginn vegg íþróttahússins við Austurberg en vegar vesturgafl íbúðablokkar við Álftahóla. Veggmyndir eftir listamanninn er að finna á byggingum í mörgum borgum erlendis en þetta var í fyrsta sinn sem list hans var sýnd á þennan hátt hér heima. Á blokkina var málverk Errós málið í heild en á íþróttahúsinu eru fígúrur úr verkinu. Síðar bættist svo við annað verk eftir listamanninn utan á verið sett upp en alls eru þau Silfurþeysir/Silver Surfer (2000), Réttlætisgyðjan (2014) og Frumskógardrottningin og veggmyndir Söru: Fönix (2012), Mushroom/Sveppur (2012) og Fjöður/Feather (2014) verða síðan tekin til lauslegrar greiningar.
Þeirra er enn hægt að njóta en einnig má sjá Fjöður Söru Riel í sömu ferð. Þetta er stór fjöður samsett úr fjöðrum margra fuglategunda. Með þessu vekur hún á skemmtilegan hátt athygli á fjölbreyttu fuglalífi landsins og hversu mikla ánægju fuglarnir veita. Ennfremur hafa fjaðrir og fuglar ávallt verið tákn um frelsisþrá mannsins og það kallast á við hið listræna frelsi og uppreisn sem vegglistin stendur fyrir. Allt frá tímum hellamálverka hefur þetta verið leið til að koma upplýsingum á framfæri, tjá tilfinningar og skrá viðburði. Rómverjar skreyttu híbýli sín vegglistaverkum og þeir máluðu marmarastytturnar sem nútímamenn dást að ekki hvað síst fyrir hreina og flekklausa fegurð.
Undirheimalist
Nákvæmlega hvenær veggjakrot og veggmyndir fóru frá því að teljast sjálfsögð umhverfisprýði yfir í versta sóðaskap er ekki vitað. Andy Warhol hóf hana hins vegar til vegs og virðingar að nýju og skjólstæðingur hans, Jean-Michel Basquiat sannaði að spreybrúsi og pensill eru jafnvíg tæki við að skapa list. Einn frægasti og virtast listamaður nútímans er einmitt graffítílistamaður eins og Jean-Michel þótt myndir þeirra séu mjög ólíkar. Banksy sendir áhrifamikil skilaboð með einföldum og fallegum myndum meðan Jean-Michel tjáði örvæntingu, ótta, firringu borgarinnar og baráttu þeldökkra.
En hvort sem vegglistin er litrík og kaótísk eins og Basquiat kaus eða áhrifamikil í einfaldleika sínum að hætti Banksy er hún áfram umdeild. Flestir muna eftir deilum sem spruttu upp vegna portrettmyndar af sjómanni á gafli Sjávarútvegshússins. Verkið var unnið í aðdragandi Iceland Airwaves árið 2015. Tveimur árum síðar var málað yfir það eftir ítrekaðar kvartanir Hjörleifs Guttormssonar fyrrverandi þingmanns og ráðherra. Honum fannst verkið ljótt en fjölmargir borgarbúar voru honum ekki sammála og vildu gjarnan halda því. Sú ákvörðun að mála yfir það var tekin án samráðs við Iceland Airwaves-hátíðina sem fjármagnaði verkið, eða listamanninn, Evocal frá Dóminíska lýðveldinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var á þessum tíma sjávarútvegsráðherra og vildi hún halda myndinni en byggingafulltrúinn í Reykjavík fór fram á að það yrði gert og að lokum ákvað hústjórn Sjávarútvegshússins að mála yfir hana.
Þetta varð ekki endir málsins því ósáttir borgarbúar vildu list á þennan glæsilega hvíta gafl og efnt var til samkeppni um verk á húsið. Glitur hafsins eftir Söru Riel varð fyrir valinu en á sama hátt og fjöðrin í Breiðholti varð að táknmynd allra fugla skapaði hún fisk sem er samansettur úr verðmætustu sjávarskepnu á miðunum við landið. Það hefur sögulega skírskotun auk þess að fjalla um það sem enn þann dag í dag er undirstöðuatvinnugrein hér á landi. En þessi hval, þorsk, síld, loðnu og netamynd hefur ótrúlegt aðdráttarafl og það er endalaust hægt að velta því fyrir sér og sjá út úr því nýjar kynjaverur.
Listamaðurinn að baki verksins
Sara Riel, sú sem kýs að leika sér með svo stóra fleti og hér um ræðir er fædd árið 1980. Hún nam myndlist við Listaháskóla Íslands og Kunsthochschule Berlin- Weissensee á árunum 2000-2006. Hún er mikið náttúrubarn og list hennar endurspeglar þau tengsl. Hún valdi titilinn Glitur hafsins á myndina sína, enda hefur síldin verið kölluð silfur hafsins og hvallýsið var gullsígildi fyrr á öldum. Á efri parti myndarinnar eru litlir speglar sem fanga ljósið og undirstrika þannig þessi skilaboð um verðmæti afla sem dregin er úr sjó en gefur henni líka ævintýralegan blæ og skemmtilega og breytilega áferð.
Æ fleiri vegglistaverk skreyta orðið bæinn okkar og mörg mjög áhugaverð en listamennirnir séu að senda einhvern boðskap með sínum myndum er ekki gott að segja en Jane Mutiny vildi minna á dýr í útrýmingarhættu þegar hún málaði branduglu á flugi á húsgafl í Highams Park við Winchester Road í London. Hún sýnir gjarnan sjaldgæf dýr í verkum sínum og vill með því vekja fólk til umhugsunar um þá fegurð sem það hefur hjálpað til við að eyða úr umhverfinu með lifnaðarháttum sínum. Hún áritar verk sín með hjarta og orðunum love wildlife eða elska villta náttúru. Á svipuðum slóðum er einnig að finna mynd af hversdagshetjunni Beryl Swain. Hún bjó í þessu hverfi og var fyrsti kvenmótorhjólakappinn til að keppa í Isle of Man Tourist Tropy Race. Það var árið 1962 þegar allmörgum þótti ákaflega ókvenlegt aka mótorhjóli en fullkomlega sæmandi að setjast aftan við karl sem hélt um stýrið.
Það er ekki spurning að myndir af þessu tagi, á svo áberandi stöðum í almannarými, vekja ómælda athygli bæði á þeim málefnum sem listamaðurinn vill að menn hugsi um en eru einnig mögnuð kveikja fyrir ímyndunaraflið. Öllum langar að vita hver maðurinn eða konan er á myndinni, hvað hún táknar, hvers vegna hún var gerð einmitt svona en ekki öðruvísi. Svo skemmir ekki fyrir þegar einhver eins og Banksy stígur fram í skjóli nafnleyndar og sendir mögnuð skilaboð til stjórnmálamanna og stríðsherra þessa heims. Segir þeim að skammast sín og berjast fyrir friði fremur en að reka stríð.
Í borgum víða um heim eru borgaryfirvöld farin að leyfa veggjalist í æ fleiri hverfum. Fyrirtækjaeigendur eru einnig beinlínis teknir að sækjast eftir að fá listamenn til að skreyta umhverfi kráa sinna, búða eða verkstæða. Þetta dregur að. Í gráum blokkarhverfum, fátækari hlutum stórborganna gefa veggmyndirnar líf og lit. Skapa nýja tilveru og stærri drauma. Það hefur verið sýnt fram á með rannsóknum og einnig virða veggjakrotarar ótrúlega oft vel unnin málverk listamanna og þau fá að standa. Sumir listamenn sýna svo ótrúlega hugkvæmni í þeim flötum sem þeir velja sér til að vinna með til að mynda má nefna verkið Towards a New Normal en það er kallað The Staircase of Dreams eða Tröppur draumanna af íbúum í nágrenninu. Það er málað á tröppur framhaldsskólans í hverfinu og var upphaflega gert í aðdraganda Hönnunarhátíðar Lundúnaborgar árið 2020 en fékk að standa því það heillaði nemendurnar og kallaðist vel á við drauma og hugmyndir ungmennanna. Það var einnig unnið í samvinnu þeirra og listamanns sem kallar sig Fandangoe Kid. Tröppur draumanna eru vel þess virði að ganga og túristar gera sér orðið sérstakar ferðir um úthverfin til að skoða þær og aðra veggjalist. Hið sama gildir um myndirnar í Reykjavík og alveg víst að íbúar Breiðholts kunna að meta myndir Errós og Söru.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.