Viðkvæmt mál fyrir aldraða að hætta að keyra

Álfhildur

Álfhildur Hallgrímsdóttir

„Þegar kemur að aksturslokum aldraðra hvarflar að mér orðið “þöggun”. Aksturslok  fólks virðast vera töluvert viðkvæmara mál en starfslok. Allir vita að fyrir þeim liggur að hætta að vinna, en rannsóknir hafa sýnt að fólk hugsar lítið sem ekkert út í það að einn daginn þurfi það líklega að hætta að keyra líka.  Ýmisskonar starfslokanámskeið hafa verið í boði, en mér finnst að það ætti líka að bjóða upp á aksturslokanámskeið. Aksturslok hafa mikil áhrif á líf  einstaklinga; að hætta að keyra er að hefja lífið án bíls,“ segir Álfhildur Hallgrímsdóttir öldrunarfræðingur en hún gerði rannsókn á aksturlokum aldraðra í tengslum við mastersritgerð sína við Háskóla Íslands. Í rannsókninni var rætt við átta einstaklinga sem áttu það sameiginlegt að  vera komnir yfir áttrætt, búa á eigin heimili og hafa lagt bílnum endanlega. Markmiðið var að kanna viðhorf aldraðra fyrrum ökumanna til einkaaksturs og akstursloka. Hvernig aksturslok þeirra bar að garði, upplifun og reynslu af aksturslokunum, og að síðustu hvað hafi tekið við eftir að akstri einkabílsins lauk.

Kjósa helst að keyra sjálfir

Álfhildur segir að aldraðir kjósi helst að fara ferða sinna akandi á eigin bíl. Slíkt megi telja til almennra lífsgæða og farsællar öldrunar. „Einkabíllinn þykir tiltækur og sveigjanlegur ferðamáti sem veitir öldruðum ökumönnum tilfinningu fyrir frelsi og sjálfstæði. Það verða ákveðin tímamót hjá eldra fólki þegar það leggur bílnum fyrir lífstíð, og hugmyndin og umræðan um aksturslok getur verið viðkvæm og erfið. Spurning um það hvenær eigi að hætta að keyra verður gjarnan áleitnari eftir því sem lengra líður á ævina, og jafnvel skapast utanaðkomandi þrýstingur þar á,“ segir hún.  Af þeim sem Álfhildur ræddi við í rannsókn sinni hafði enginn viðmælenda hennar undirbúið sig eða gert ráðstafanir áður en þeir hættu að keyra, utan einn. Sá hinn sama hafði náð sér í leiðarbók Strætó. „Viðmælendur höfðu ekki orðið varir við umræðu meðal jafnaldra sinna um aksturslok og töldu líklegt að hún ætti sér almennt ekki stað. Að sama skapi kváðust fæstir viðmælenda rannsóknarinnar hafa rætt við aðra um eigin aksturslok. Ein kvennanna  kvaðst hafa rætt við lækninn sinn. Einn tilkynnti sínum nánustu að hann væri hættur að keyra og annar sagði syni sínum að hann ætlaði að selja bílinn. Þau kváðu enga frekari umræðu hafa átt sér stað um þeirra aksturslok,“ segir Álfhildur.

Að ákveða sjálfur aksturslok

Hún segir að helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefi vísbendingar um að það verði miklar breytingar á högum fólks þegar það hættir sjálft að keyra bíl.  „Það dró úr athöfnum utan heimilis og félagslegri þátttöku og flestir viðmælenda upplifðu verra heilsufar og skerðingu á sjálfstæði sínu og frelsi. Sumir upplifa þunglyndiseinkenni fyrst eftir að þeir leggja bílnum. En oftast dvína einkennin smám saman eftir því sem frá líður. Ástæður og aðdragandi akstursloka höfðu þó mikið með áhrif aksturslokanna á líf og líðan viðmælenda að gera. Í ljósi niðurstaðna rannsóknarinnar má telja að mikilvægt sé fyrir aldraða einstaklinga að taka sjálfir ákvörðun um að hætta að keyra og að sú ákvörðun sé tekin tímanlega. Afleiðingar akstursloka eru einkum komnar undir ferðamöguleikum, hreyfifærni og heilsufari ásamt tengslaneti, búsetu og efnahag. Það að geta aðlagast breyttum lífsstíl og öðlast sátt við tilveruna virðist vera úrslitaatriði fyrir líf og líðan aldraðra eftir aksturslok.“

Fá far með ættingjum og vinum

Álfhildur segir að fjöldi rannsókna hafi sýnt fram á það að ákjósanlegasta ferðaúrræðið eftir aksturslok er í hugum aldraðra að fá far með ættingjum eða vinum. Sá ferðamáti finnst þeim komast næst akstri einkabílsins, vera bæði persónulegur og gefa kost á félagslegum samskiptum. Engu að síður veigra aldraðir einstaklingar sér oft við að leita til aðstandenda eða vina um bílferð nema vegna brýnustu erinda, því þeir kæra sig hvorki um að virka krefjandi á fólk né að vera byrði á öðrum. Í þessari stöðu vilja aldraðir oft leggja eitthvað fram á móti, eins og til dæmis að borga í bensíni eða að bjóða á kaffihús eftir innkaup eða ferð til læknis. Tregða við að þiggja aðstoð við ferðir út fyrir heimilið getur leitt til meiri einangrunar en ella. Aldrað fólk tekur yfirleitt ekki leigubíla nema í undantekningartilvikum. Þeir þykja of dýrir og stundum finnst öldruðum erfitt og óþægilegt að fara í og úr bíl án persónulegrar aðstoðar.

Ekki einkamál aldraðra

Álfhildur segir að það þurfi að opna fyrir umræðuna um aksturslok aldraðra og tengja hana við starfslok og “normalisera” hana þannig í samfélaginu. Þessi tímamót séu ekki einkamál aldraðra heldur varði málið okkur öll. „Hér skortir aksturslokamenningu ef svo má að orði komast. Það þarf að kynna þá þjónustu sem í boði er og efla hana. Markviss undirbúningur fyrir lífið eftir aksturslok og fræðsla er alltaf af hinu góða. Mikilvægt er talið að aldraðir ökumenn kynni sér og venjist öðrum ferðaúrræðum áður en kemur að aksturslokum. Raunar fannst mér,  þegar ég var að gera þessa rannsókn, að viðmælendur mínir væru svolítið tregir að nýta sér akstursþjónustu eða þiggja far með aðstandendum sínum þegar þeir þurftu að skreppa eitthvað. Það var eins og þeir vildu forðast að að íþyngja öðrum með færniskerðingu sinni. Nóg væri á aðra lagt, þó ekki væri líka verið að styðja þá og aðstoða til að komst í og úr bílunum. Öldruðu fólki er vissulega í mun að halda reisn sinni.“

 

MA ritgerð Álfhildar er hægt að nálgast hér

 

 

 

Ritstjórn desember 1, 2016 11:45