Tengdar greinar

Ákvarðanir okkar stjórna því hver við erum

„Ég er summan af vali mínu í lífinu og það eru uppkomin börn mín og fyrrverandi eiginmaður líka,“ segir Christine Field, lögmaður og reynslubolti í þessari þýddu grein af vef sixtyandme.com þar sem hún segir frá eigin lífi. Christine heldur úti vefsíðunni www.realmomlife.com. Þar hvetur hún fólk til að endurmeta líf sitt eftir miðjan aldur.

„Nú þegar ár er liðið síðan ég varð fráskilin 65 ára gömul kona og móðir fjögurra uppkominna barna, hef ég haft tíma til að ígrunda líf mitt. Skilnaðurinn var mitt val. Ég fagnaði honum eftir margra ára sinnuleysi og fjandskap sem ég upplifði. Ég gat ekki breytt tilfinningum þeirra sem voru mér næstir og þar með gat ég ekki nálgast lífið á réttan hátt.

En þrátt fyrir þetta val mitt var samt tilfinningalegur tollur sem þurfti að greiða. Börnin mín myndu til dæmis ekki eiga heimili barnæskunnar sem snertiflöt ef við foreldrarnir skildum.

Tvær tegundir af fólki

Eftir því sem ég lifi lengur, verður mér stöðugt ljósara að það eru til tvær tegundir af fólki. Það eru fórnarlömbin og þeir sem neita að vera fórnarlömb. Ég er í síðari hópnum.

Ég er ekki alveg ókunnug harmleik og hef mátt þola sorg. En alltaf stóð ég frammi fyrir vali. Ég gat látið upplifunina tortíma mér eða valið að læra af reynslunni og halda áfram og verða sigurvegari.

Ásökunarleikurinn!

Það er í mannlegu eðli að finna sökudólg. Þegar lífið reynist ekki þróast á þann veg sem við áttum von á er mjög auðvelt að líta í kringum sig og finna þann sem ber sökina í stað þess að horfa í eigin barm.

Í eigin meðferðum og trúið mér að ég hef farið í þær nokkrar, hafa „sjúkdómseinkenni“ mín verið krufin í ljósi fortíðarinnar. Hvað höfðu foreldrar mínir gert, eða ekki gert, sem olli því hvernig ég brást við því sem henti mig. Á meðan það var auðvitað eðlileg spurning átti ég alltaf eftir að svara því hvernig ég ætlaði að velja að bregðast við aðstæðunum. Myndu börnin mín bregðast öðruvísi við svipuðum aðstæðum? þegar þau kryfja sína erfiðleika, munu þau alveg örugglega finna sök hjá mér eða föður þeirra. Sumt er réttlætanlegt og annað ekki.

Ákvarðanir voru teknar

Ég, börnin mín og fyrrverandi eiginmaður tókum öll ákvarðanir á leiðinni þangað sem við erum nú komin. Hver við vorum og hver við erum orðin, er útkoman úr þeirri ákvarðanatöku.

Ég tók ákvarðanir í hjónabandi mínu og móðurhlutverki ,um að reyna að stjórna tilfinningum annarra. Ég hélt að það væri mitt hlutverk að hvetja þau áfram og gleðja þau.

En gettu hvað? Ekkert þeirra bað mig um að gera einmitt það.  Enginn sagði: „Mamma, nú á líf þitt að snúast fullkomlega um okkur og þú átt alltaf að vera í öðru sæti.“

Þetta var mitt val af því að ég hélt að þetta væri það rétta. En í staðinn týndi ég sjálfri mér og fékk fjölskyldu mína upp á móti mér.

Nú hef ég breytt um stefnu. Nú hef ég komið auga á að þarfir mínar og væntingar eru alveg jafn mikilvægar og þarfir og væntingar fjölskyldu minnar.

Hver er þá raunveruleikinn?

Auðvitað höfðu styrkleikar mínir og veikleikar áhrif á hvernig hjónaband mitt reyndist og hvernig börnin mín eru. En á sama hátt og ég, tóku þau ákvarðanir.

Fyrrverandi eiginmaður minn tók ákvörðun um að gefa alla sína orku í starfsferil sinn á kostnað fjölskyldunnar. Það var hans val og nú býr hann við afleiðingar þeirrar ákvörðunar. Hann kaus að koma fram við mig og börnin af fjandskap af því að honum þótti við standa í vegi fyrir honum. Hann hefði getað valið öðruvísi.

Börnin mín tóku ákvarðanir sem þjónuðu þeim ekki vel. Þau ákváðu að umgangast vini sem höfðu ekki góð áhrif á þau. Þau völdu tölvuleiki fram yfir lestur, lærdóm og að efla sig á annan hátt. Það var þeirra val.

Hvað er orðið um okkur?

Við hringsólum hvert um annað, á eigin sporbaug, enn að reyna að finna út hvernig við getum verið fjölskylda. Sumir velja að vera í nánu sambandi á meðan aðrir rífa sig í burtu og næra óhamingjuna með stöðu sína.

Einhvern tímann var sagt að enginn slyppi óskaddaður frá fjölskyldulífi. Ég óska þess einfaldlega að við finnum út hvernig við getum best verið fjölskylda sem heldur áfram að lifa lífinu. Við ráfum núna um skákborðið að reyna að finna næsta leik. Mættum við öll muna eftir djúpu, skilyrðislausu ástinni sem við deilum þrátt fyrir allt.

Ritstjórn september 30, 2021 13:53