Tengdar greinar

Til hamingju Vigdís!

Vigdís Finnbogadóttir er níræð í dag og fjalla allir  helstu fjölmiðlar landsins um afmælið. Vigdís ólst upp í vesturbænum í Reykjavík, gekk í Menntaskólann í Reykjavík  og fór síðan til Frakklands í frönskunám.  Heimkomin varð hún frönskukennari, kenndi frönsku bæði í MR og Menntaskólann í Hamrahlíð og í Ríkisútvarpinu um skeið. Vigdís var einn af stofnendum framúrstefnuleikhópsins Grímunnar og varð síðar leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur, sem þá var til húsa í Iðnó. Í umróti kvennabaráttunnar á áttunda áratugnum var farið að huga að því að finna konu til að fara í forsetaframboð. Vigdís var hvött til að taka slaginn og var hún kjörin forseti árið 1980. Hún var fyrsta konan í heiminum sem var kjörin þjóðhöfðingi í almennum kosningum og vakti kjör hennar mikla athygli. Vigdís var forseti í 16 ár og vann á þeim tíma hug og hjörtu landsmanna. Stofnun Vigdísar í erlendum tungumálum tók til starfa í húsinu Veröld,  uppúr aldamótunum síðustu.  Stofnandi Lifðu núna lærði frönsku hjá Vigdísi í MH á sínum tíma. Hún var frábær kennari og glæsileg kona. Auk þess að kenna frönsku, fræddi hún nemendur um franska menningu og ræddi einnig við þá um stöðu kvenna og jafnréttismál. Hún var þannig áhrifavaldur í lífi margra ungra stúlkna og drengja. Ríkisútvarpið býður allri þjóðinni að njóta afmælisdagskrár um Vigdísi, í Sjónvarpinu í kvöld klukkan 20:00.

Ritstjórn apríl 15, 2020 10:24