María og Jésú á vatnsspúluðum götum Malaga  

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar og hún tók einnig myndirnar sem fylgja greininni.

Pálmasunnudagur er vinsæll dagur þar sem hann markar upphafið á viku margra frídaga sem má nota til þess að bregða sér norður á skíði eða sleikja vorsólina á svölunum heima. Að þessu sinni nutum við sambýlisfólkið dagsins í Malaga á Spáni og urðum margs vísari.

Við búum í þröngri götu í miðbænum, með brotnum götusteinum og yfirfullum rusladöllum. Fyrir síðustu helgi brá svo við að her manns kom og fjarlægði alla brotnu steinana, sorpið hvarf og gatan var vatnsspúluð. Stórar dyr opnuðust víða um borgina og við blöstu engin önnur en María mey, Jesús á krossinum, illa farinn á bakinu og fleiri einstaklingar sem tengjast biblíulegum atburðum. Í miðborginni hamaðist fólk við að raða upp áhorfendabekkjum og stólum og greinilegt að mikið væri í vændum.

Fólk klæðist sérstökum búningum

Svo byrjaði ballið strax í morgunsárið og stóð langt fram yfir miðnætti. Hljómsveitir börðu bumbur og þeyttu lúðra og göngurnar hófust. Í hverri göngu var að minnsta kosti einn burðarpallur með líkneski á, níðþung að sjá, borin af rennsveittum körlum og konum. Fólk í alls konar búningum kom í kjölfarið. Sumir voru með höfuðföt sem minntu á Ku Klux Klan vestur í Bandaríkjunum, en þarna voru líka ungar stúlkur sem voru klæddar eins og litlar Maríur. Prúðbúnir áhorfendur hylltu burðarfólkið, gaf þeim vatn og veifuðu litlum pálmagreinum.

Burðarfólkið var á öllum aldri, íklætt kuflum í sama lit. Það tók greinilega á að bera líkneskin upp og niður þröngar göturnar í miðborginni í hitasvækjunni. Það var eins að það væri með stöðu hetju þennan dag. Á gangstéttunum voru karlar að selja sælgæti og blöðrur. Það voru allir í stuði. 17. júní í miðborg Reykjavíkur verður fölur í samanburði við pálmasunnudag í Malaga.

Líkneski borin um göturnar

Það er ekki langt á milli Spánar og Íslands en á pálmasunnudag fannst mér haf og himinn á milli. Að ganga inn í þennan dag svo sterkra trúarlegra hefða var mjög áhugavert. Þvílík orka sem fór í undirbúning og framkvæmdina. Hér á Spáni gilda enn mjög strangar reglur um notkun andlitsgríma vegna Covid. Þú ferð hvergi inn fyrir dyr nema með grímu. Þessar reglur gleymdust  að hluta til á pálmasunnudag. Þetta var umhugsunarverð upplifun. Á vissan hátt finnst mér við á Íslandi kannski svolítið fátæk hvað varðar hefðir, en á hinn bóginn er það umhugsunarvert hvað trúarbrögð geta verið sterkt afl. Í þessu tilfelli fólki til gleði en því miður er það ekki alltaf svo.

Og síðast en ekki síst veit ég núna að pálmasunnudagur er nefndur eftir sögunni af innreið Jesú inn í Jerúsalem en þá veifaði fólkið pálmagreinum.

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn apríl 14, 2022 07:00