Þöggunarsamfélag hefur breyst í játningasamfélag

Guðrún Guðlaugsdóttir

 

Guðrún Guðlaugsdóttir sendir frá sér fimmtu bókina um Ölmu blaðamann, fyrir þessi jól. Bókin heitir Erfðaskráin og sagan gerist í uppsveitum Árnessýslu. „Það sem ég er að fjalla um er hin mikla þöggun sem ríkti fyrr á tíð. Nú á tímum er þessu þveröfugt farið“, segir Guðrún. „Nú búum við í einskonar játningasamfélagi, þar sem æði mikið er fjallað um einkamál“. Hérna fyrir neðan er stuttur kafli úr upphafi sögunnar.

„ER HANN BRYNJÓLFUR DÁINN?“ sagði Alma.

„Já – hann dó einhvern tíma í nótt,“ svaraði Gunnhildur skjálfrödduð.

„Hvernig dó hann?“ sagði Alma og beygði inn á útskot á veginum. Hún drap á bílnum. Snjómugga varnaði henni fljótlega sýn á umhverfið.

„Ég veit það ekki. Í morgun þegar ég ætlaði að vekja hann lá hann bara náhvítur á rúminu sínu. Ég ýtti við honum, svo áttaði ég mig á að hann var ekki lengur lifandi. Hann var ískaldur. Ég sá lík þegar ég var í hjúkrunarnáminu á Akureyriu en þau voru öðruvísi. Kannski eru engin lík eins? Brynjólfur var helblár á vörunum og líka í kringum augun. Það var óhugnanlegt að sjá.“

„Ertu búin að tala við lækni?“ Þetta yrði langt samtal. Alma kom sér betur fyrir í sætinu.

„Auðvitað. Ég hringdi niður á Heilsugæslu og lýsti aðkomunni. Læknirinn er á leiðinni hingað. Líka lögreglan hérna fyrir austan – læknirinn vildi það. Guð minn almáttugur, þetta var nú helst það sem ég þurfi á að halda eftir það sem á undan er gengið í mínu lífi.“

„Hvar er Alma Gunnur?“ sagði Alma og reyndi að halda ró sinni.

„Hérna við hliðina á mér. Hún skilur ekkert – barn á þriðja ári.“

„Var eitthvað sérstakt sem gerðist í gær?“

„Nei. Ég gaf bara Brynjólfi lyfin sín í gærkvöldi – svo var hann dáinn í morgun. Ég hef alltaf haft opið inn til mín á nóttunni ef eitthvað skyldi koma fyrir þau gömlu. Ég varð ekki vör við að Brynjólfur færi neitt fram í nótt en gömlu systurnar fóru niður á klósett. Það brakar svo í stiganum að ég vakna oftast þegar þær fara niður. Ástandið er ömurlegt hérna núna – og ég sem var svo fegin að Brynjólfur svæfi loksins almennilega. Hann er búinn að vera erfiður undanfarið.

„Hvers vegna?“

„Hann var algjörlega kominn með á heilann að gera gamla húsið hér á Bjargarlæk að safni. Talaði varla um annað. Mér fannst það reyndar sniðug hugmynd en annarri systur hans alls ekki. Systkinin þrjú eiga enga afkomendur og hér er allt fullt af gömlum munum, næstum eins og tíminn hafi staðið kyrr.“

„Hvað vildi hann sýna á þessu safni?“

„Hvernig líf og starf venjulegrar bændafjölskyldu hefur verið. Alveg frá millistríðsárunum til nútímans. Mér finnst skiljanlegt að Brynjólfur vildi þannig halda nafni ættarinnar á lofti úr því enginn er til að taka við. En Þórdís, yngri systir hans, hefur aðra skoðun á þessu máli. Klara, hin systirin var sammála Brynjólfi. Nú tala þær ekki saman lengur.“

Það er ljóst að eitthvað undarlegt hefur gerst á Bjargarlæk og Alma snýr sér að rannsókn málsins, þar sem dóttir hennar leikur stórt hlutverk.  Henni verður fljótlega ljóst að dauði gamla mannsins er grunsamlegur, erfðamál blandast inn í málið og gömul leyndarmál leita uppá yfirborðið, eins og segir á baksíðu bókakápunnar. Guðrún segir að hún sé að fjalla um hvernig fólki leið, á þeim tímum sem ekki var til siðs að bera einkamál á torg, og hvernig það brást við. „Þetta leiddi til glataðra tækifæra en svo gerist eitthvað og þá þarf að kafa ofan í þetta allt saman“.

 

Ritstjórn desember 12, 2018 10:27