Aldrei klikka á einhvern link

Nýlega varð Lifðu núna fyrir því að brotist var inn á facebook-síðu vefjarins og við tók margra vikna barátta við að ná henni til baka. Einhver óprúttinn aðili í Bandaríkjunum náði að fá stjórn á síðunni og gerði tilraun til að ná til sín peningum gegnum auglýsingareikninginn. Góðu fréttirnar eru að ritstjórninni tókst að ná síðunni aftur en þær slæmu að falskir póstar og netsvindl verða sífellt vandaðri svo erfiðara og erfiðara reynist að verjast því.

Falskir póstar í umferð frá alls konar virtum fyrirtækjum hafa aldrei verið fleiri en nú. Þetta er plága sem herjar á allan heiminn jafnt og víða í þriðja heims ríkjum eru símaver þar sem fólk vinnur beinlínis við það allan daginn að tæla saklaust fólk á Vesturlöndum til að gefa peninga ýmist til einstaklinga eða meintra góðgerðafélaga.

Á bak við flesta netreikninga eru kreditkort og þau eru fjársjóðskistan sem þessir svindlarar eru að sækjast eftir að komast í. Þótt flestir séu fljótir að uppgötva svindlið ná þeir engu að síður samt einhverju áður en það gerist og það dugir til að gera þetta að arðbærum „bisness“.

Ástarsvindl

Verst að tegund svindls af þessu tagi eru menn sem herja á einmana manneskjur um allan heim, hefja netspjall við þær, byggja upp samband og leika sér að tilfinningum þeirra. Oft ná slíkir svindlarar ævisparnaði fórnarlamba sinna áður en þau átta sig á að þau eru leiksoppar óvenjulega samviskulausra manneskja. Hér á landi ná þessir ástarsvindlarar tugum milljóna af hrekklausu fólki. Í Fréttablaðinu birtist frétt árið 2021 um að tuttugu tilkynningar um svindl af þessu tagi hefðu borist lögreglu á því herrans ári en vitað er fæst fórnarlömb svona glæpa tilkynna þá. Skömmin er of mikil til þess. Að auki er tilgangslítið að kæra því þótt hægt sé að hafa upp á símaverinu eða tölvunni að baki svindlinu er sjaldnast hægt að koma nokkru réttlæti yfir svindlarana og peningarnir eru að eilífu glataðir.

Algengasta svindlið er að senda pósta í nafni einhvers fyrirtækis. Oft er um að ræða virt fyrirtæki eða stofnanir í því landi sem um ræðir. Allir hér á landi kannast við svindlpósta í nafni Íslandspósts en íslenskir bankar hafa einnig verið notaðir í þessum tilgangi. Facebook er vinsælt meðal svindlara og póstar um að reikningi þínum verði lokað bregðist þú ekki strax við eða að þú verðir að staðfesta reikninginn þinn ekki seinna en strax því eitthvert efni inn á honum stríði gegnum reglum facebook-samfélagsins eru meðal þess algengasta.

Viðvörunarbjöllur ættu þegar að taka að hringja þegar eitthvað er sagt áríðandi eða svo aðkallandi að bregðast verði við strax. Í netheimum er gerast hlutirnir ekki svo hratt. Hið sama gildir ef menn eru beðnir að staðfesta kort sín eða greiða fyrir eitthvað eins aukapóstburðargjöld. Um leið og beðið er um slíkti hugsið ykkur vandlega um. Það er líka góð og gullin regla að klikka aldrei á neinn link nema að vel athuguðu máli.

Hvað ástarsvindlið varðar er gott að hafa í huga þá gömlu speki ef eitthvað virkar of gott til að vera satt er það oftast of gott til að vera satt. Stundum er tilgangurinn með þessu öllu hins vegar hálfóskiljanlegur. Fyrir nokkru tröllreið facebook svindl þar sem fólk fékk vinabeiðnir frá einhverjum sem umsvifalaust eftir að þær voru samþykktar sendi skilaboð og bað um símanúmerið þitt. Stundum komu þessar beiðnir reyndar frá fólki sem þegar voru vinir viðkomandi á facebook og hann þekkti vel. Hakkarnir höfðu þá þegar komist yfir reikning hans. Fólki var talin trú um að um facebook-leik væri að ræða og það beðið að slá inn kvóta. Þegar það hafði verið gert höfðu svindlararnir náð yfirráðum yfir reikningi þínum. En í þessum tilvikum virtust menn ekki vera á höttunum eftir peningum, í það minnsta heyrðist ekki um það talað en margir lentu í miklum vanda við að ná stjórn á síðunum sínum aftur.

Skoðaðu netföng að baki pósta

Nokkrar öryggisreglur er gott að hafa í huga hvað sem verið er að gera á netinu. Skoðaðu alltaf netföngin að baki öllum póstum sem þú færð. Fyrirtæki senda venjulega úr póstforritum sem sett eru upp í þeirra nafni og þá er það jafnan í netfanginu. Hvað íslensk fyrirtæki varðar er þetta auðvelt, landsbankinn.is, posturinn.is, islandsbanki.is og svo framvegis. Outlook.com er ekki öruggt netfang sé um að ræða erlend stórfyrirtæki.

Ef einhver linkur fylgir pósti frá sendanda sem þú þekkir ekki aldrei klikka á hann nema að vel athuguðu máli. Staðfestu fyrst með símtali í fyrirtækið sem sett er að baki eða einhvern tæknivísan aðila að skilaboðin séu raunverulega frá þeim sem þau eru sögð vera frá.

Gott er líka að staðfesta alltaf að þær netsíður sem verslað er við séu virtar og selji góðar vörur. Margir hafa lent í að panta eitthvað fallegt á netinu en fá annað hvort aldrei vöruna eða eitthvað sem líkist ekki einu sinni því sem pantað var. Neytendur um allan heim hafa brugðist við þessu með því að tilkynna síður og nú er oftast hægt að gúggla netverslanir og fá umsagnir um þær, góðar og slæmar.

Það er einnig gott að hafa vírusvörn í tölvunni og skanna hana af og til. En umfram allt flýta sér hægt og taka öllu á veraldarvefnum með ákveðinni tortryggni.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 31, 2024 07:00