Jónínu Benediktsdóttir þekkja margir enda hefur konan verið áberandi í íslensku samfélagi um langa hríð. Hún vakti ung athygli fyrir það að hvetja almenning til huga að heilsu sinni og það er enn helsta hugðarefni Jónínu sem nú er komin á miðjan aldur. Hún stofnaði snemma líkamsræktarstöð enda er hún íþróttafræðingur að mennt. Jónína er mikil baráttukona og hefur látið rækilega í sér heyra opinberlega ef henni hefur boðið svo við að horfa.
“Það væri lygi að segja að það að eldast væri svo frábært en því fylgja bara ný verkefni,” segir Jónína. Hún er ein af þeim sem hefur tekið markvisst á móti aldrinum og hefur ekki gefið eftir fyrir ellikerlingu “Ég hef reyndar aldrei lagt mikið upp úr útliti enda ekki þurft þess, fæddist falleg,” segir hún en bætir við að það sé nú auðvitað grín en í fullyrðingunni er broddur því Jónína er þekkt fyrir að storka. “Auðvitað hef ég viljað vera upp á mitt besta á hverjum tíma og gert það sem ég trúi að sé best til þess fallið. Það að veikjast líkamlega er hins vegar alvarlegra og þar kemur aldurinn vissulega inn sem þjófur að nóttu. Allt í einu getum við ekki gert það sem við gátum áður því eitthvað gefur sig hjá öllum. Í mínu tilfelli var það stoðkerfið. Ofþjálfun er nefnilega skaðleg engu síður en vanþjálfun. Það er því lykilatriði að finna æfingar sem framleiða þessa vellíðan sem allir elska og þrá en það er náttúrulega morfínið sem heilinn framleiðir við þjálfun og skaðar engan heldur þvert á móti.
Ég fann út að vatnið væri galdurinn sem líkami minn gat nýtt sér. Að æfa í vatni er mín jarðtenging jafnframt því að vera í líkama sem er andlega tengdur. Sundleikfimi hentar mjög vel fyrir þá sem eiga við stoðkerfisvandamál vegna slita að stríða. Slitin koma einfaldlega til af því við vorum of dugleg þegar við vorum yngri,” segir Jónína. “Við bítum úr nálinni með það þegar við eldumst. En það er ekki einfalt að segja það við ungt fólk því, alveg eins og ég var, þykir þeim ekki líklegt að líkami þeirra gefi sig nokkurn tímann. En það er einmitt verkefnið sem bíður okkar allra. Lífið eftir miðjan aldur getur nefnilega vel verið ljúft og gott ef við erum skynsöm.
Nú er tíminn til að núllstilla okkur
Þegar Jónína er spurð hvort þessir skrýtnu kóvíd tímar hafi breytt plönum hennar segir hún að svo sé ekki en vonast til að geta notað þekkingu sína til að hjálpa fólki. “Nú upplifa margir mikla óvissu vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu út af kóvíd og afleiðinga sem veiran hefur haft á samfélagið. Nú er tíminn til að núllstilla sig og anda djúpt. Andi, sál og líkami þurfa að vera í jafnvægi til að við getum haldið áfram. Guð vinnur þannig að þegar við misbjóðum honum og föllum í gildru græðgi, streitu, kvíða, misréttis o.s.frv. þá hendir hann okkur aldir aftur í tímann og segir örugglega eitthvað á þessa leið: “Þið voruð ekki sköpuð til þess að stela, slátra og eyða jörðinni og hvort öðru. Nú eruð þið komin á vissa endastöð og neyðist til að taka til í ykkar eigin garði.” Sem betur fer hafa margir áttað sig á þessu og fjölmenna nú til dæmis á heilsunámskeið til okkar á Hótel Örk í Hveragerði og vonandi víða um landið.”
Vill kenna fólki að lækna sig sjálft
Jónína segist ekki vera bundin af neinu nema hugsjón sinni um að kenna fólki að lækna sig sjálft með réttu mataræði, hugarfari, hreyfingu, hvíld, svefni og samveru við aðra. “Á þessum tímum einangra margir sig og einmanaleiki er vondur ferðafélagi, sérstaklega þegar við eldumst. Þá er hætta á að kyrrseta, matur og áfengi verði það eina sem gefur okkur gleði. En gleði sem er þannig fengin breytist fljótt í martröð því afleiðingarnar segja fljótt til sín.”
Hætt að ofbjóða sjálfri sér
“Ég hef átt það til að vinna of mikið og ofbjóða sjálfri mér en reynslan hefur nú kennt mér lexíu og það ætla ég ekki að gera aftur. Við lærum í erfiðleikum og veikindum en ekkert þegar við fljótum um í gerviveröld velsældar og ofneyslu.”
Jónína býr í Hveragerði og segir að það sé bær þar sem náttúran minni okkur daglega á hver við séum. “Hveragerði er eitt lítið púsl í stóra samhengi hlutanna,” segir hún. “Bærinn þar sem náttúran minnir okkur daglega á hver við erum og þar sem náttúruöflin minna rækilega á sig. Jarðhitinn blasir við mér þegar ég vakna á morgnanna og horfi út um eldhúsgluggann heima.”
Paradísin Hveragerði
Enginn vafi leikur á því að Jónína fann sína paradís þegar hún flutti til Hveragerðis. “Hjá okkur eru til dæmis þrjár sundlaugar, þ.e. Hótel Örk fyrir rómantíkina, Laugaskarð fyrir félagsskapinn og leikfimina og svo NLFÍ fyrir þetta allt en þar er gufan best og kalda kerlaugin.
Í Hveragerði þurfum við ekki bíl því hægt er að fara fótgangandi um allt. Svo er hægt að taka strætó til borgarinnar á 30 mínútum. Við erum líka svo heppin með bæjarstjórann okkar, Aldísi Hafsteinsdóttur. Hún hefur gríðarlegan drifkraft, alltaf til í að hlusta á bæjarbúa og koma nýjungum af stað. Hún er jafningi allra og fólk finnur það. Auðvitað er álagið á henni mikið og fólk oft frekt á tíma hennar. Það blæs oft á toppnum en Aldís stendur það allt af sér. Nú á tímum Kóvit höfum við verið minnt á að borða hreina fæðu og vera sjálfbær. Í Hveragerði, “blóma-heilsubæ Íslands”, fáum við allt sem við þurfum. Ég mæli með að fólk hætti að borða allan óþarfann sem við troðum okkur út af og þurfum sannarlega ekki á að halda. Þannig getur maður lifað bæði ódýrt og heilsusamlega,” segir þessi kona sem hefur sannarlega nýtt þau tækifæri sem lífið hefur boðið henni upp á.
r.