Fullorðnir í nýsköpun

Gestur Ólafsson, Guðrún Hallgrímsdóttir og Bjarni Bjarnason eru stofnendur nýsköpunarfyrirtækisins Hyndla. Þau eru öll orðin sjötug og Gestur og Guðrún rúmlega áttræð.

Þessir þremenningar hafa afrekað ýmislegt eftir að aldrinum var náð þegar samfélag okkar segir okkur að fara að hægja á. Sum þeirra hafa gengið á hæsta fjall Afríku Kilimanjaro og Machu Picchu í Perú. Flestir telja mikið afrek að leggja í að ganga á þessi fjöll en það láta þau sér detta í hug á þessum aldri. Þau víla þess vegna ekki fyrir sér að gerast frumkvöðlar og stofna fyrirtæki sem nú er farið að vekja athygli um allan heim.

Nýsköpunarfyrirtækið Hyndla

Guðrún tók á móti viðurkenningu fyrir störf sín.

Í sumar foru tvær alþjóðlegar ráðstefnur sem þau í Hyndlu tóku þátt í. Önnur, ,,Arctic Algae“ fjallaði sérstaklega um þörunga og möguleika efna sem í þeim finnast fyrir mannkynið og þar hélt Gestur erindi um starfsemi Hyndlu en fyrirtæki þeirra Gests, Guðrúnar og Bjarna heitir Hyndla og var stofnað 2017. Markmið þess er að framleiða þörunga, aðallega til manneldis með umhverfisvænum aðferðum, sem hafa engin neikvæð áhrif á vistkerfið. Stuðlað er að þróun, ræktun og nýtingu á íslenskm þörungum á sjálfbæran hátt. Starf þeirra hefur vakið gífurlega athygli og á hinni ráðstefnunni, „Global Win 2023“, tók Guðrún á móti viðurkenningu fyrir þátt sinn í ræktunartilraunum Hyndlu. Þessi viðurkenning er umtalsverð og til þess fallin að hvetja frumkvöðlana til dáða.

Hvernig varð Hyndla til? 

Gestur, Guðrún og Bjarni fara reglulega í fjöruferðir og tína verðmæti.

Gestur segir að tilurð Hyndlu hafi komið þannig til að sonur hans og dóttir Bjarna séu hjón og þeir tveir hafi hist hjá þeim í áramótagleði 2013. Bjarni hafði starfað lengst af við tryggingamál en þarna var komið að starfslokum hjá honum. Gestur er arkitekt og skipulagsfræðingur og var búinn að þurfa að slást við pólitíkusa í borgarskipulaginu lengi og var alveg tilbúinn að fara að takast á við eitthvað nýtt. ,,Við veltum fyrir okkur ýmsum hugmyndum þar sem við sátum þarna í partíinu og Bjarni nefnir áhugamál sitt sem var þörungar. Já, segi ég og dettur strax í hug kona sem ég þekki sem væri gott að fá til liðs í svona vinnu. Það var Guðrún Hallgrímsdóttir en við vorum saman í menntaskóla og þekkjumst vel. Guðrún kveikti strax á perunni en hún er matvælafræðingur með mikla reynslu og hafði starfað í pólitíkinni og ekki sakaði það. Svo mundi ég eftir nágranna mínum hér í Grjótaþorpinu sem er Karl Gunnarsson líffræðingur  en hann er einna fremstur á sviði þörungaræktunar hér á landi. Guðrún hafði átt skráð fyrirtæki sem hún hafði ekki notað en nafn þess ,,Hyndla“ merkir gömul kvenvalkyrja sem kom og reddaði málunum þegar goðin voru búin að klúðra og allt var komið í vitleysu. Það fannst okkur vel við hæfi,“ segir Gestur og brosir. ,,Við fórum að hugsa að þetta væri nú gott teymi nema Karl var ekki tilbúinn í fyrirtækjarekstur. Við hin þrjú fórum af stað og höfum lært geysilega mikið á þessum árum frá því við hófum þörungaræktina.“

Fengu inni hjá Hafró í Grindavík

Þörungar í ræktun.

Hyndla fékk aðstöðu hjá Hafró í Grindavík til bráðabirgða þar sem þau gátu hafið tilraunir með þörungana og hafa safnað geysilega miklum upplýsingum. ,,Við komumst til dæmis að því að undir öllu Reykjanesinu er sjór sem er fullur af næringarefnum allt árið um kring. Þetta er sjór sem ekki þarf að bæta næringarefnum saman við. Við dælum honum upp úr 30 – 40 metra djúpum holum og getum notað hann beint í ræktunina. Á meðan fiskeldið þarf að kaupa næringu fyrir fiskana getum við notað sjóinn eins og við dælum honum upp.

Næstu skref fyrir okkur er að koma okkur upp húsnæði og allt kostar þetta mikla peninga. Framtíðin er björt því um leið og ráðamenn átta sig á mikilvægi þess að rækta þessa vöru fara hjólin að snúast, það getur ekki farið öðruvísi. Það hefur ekki verið hefð fyrir því hér á landi að borða þörunga en söl fyrr en við byrjuðum á því og þetta er gífurlega góð fæða, þrungin næringarefnum og andoxunarefnum. Hyndla er í rannsóknarverkefni með háskólum erlendis við að þróa klóblöðkuna sérstaklega. En af því þetta er nýjung tekur mikinn tíma að fá fólk til að prófa og þróa með sér smekkinn. Við viljum ekki fara að hlaupa fyrir en við getum almennilega gengið en við erum þolinmóð,“ segir Gestur.

Þörungar 

Gestur segir að þörungarnir vaxi talsvert hraðar en plöntur á landi og klóblaðkan, í ræktun hjá okkur,  þrefaldaði þyngd sína á einum mánuði. Klóblaðkan uppgötvaðist fyrst við Öndverðarnes á Snæfellsnesi um aldamótin 1900 en var ekki lýst sem nýrri tegund fyrr en árið 2020.

,,Þörungar búa til 90% af öllu súrefni jarðarinnar, miklu meira en allir skógarnir í Amazon, svo verðmætið er gífurlegt,“ segir Gestur. ,,Þetta er eitt af því sem við verðum að fara að hugsa um og mjög nauðsynlegt að koma að í kennslubókum barna okkar svo þau alist upp við hugsunina um verðmætið sem býr í sjónum,“ segir Gestur og ástríða hans fyrir verkefninu er auglós.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn október 20, 2023 07:00