Allt í einum potti – kjúklingur með grísku ívafi

Það er ótrúlega þægilegt að elda allt í einum potti. Slíkur matur er líka oft afar ljúffengur. Þennan kjúklingarétt prófaði Lifðu núna ekki alls fyrir löngu og útkoman var dásamleg.  Það sem tilþarf er:

heill kjúklingur um það bil 1.5 kg.

120 ml kjúklingasoð eða hvítvín

4 bökunarkartöflur, afhýddar og skornar í hæfilega bita

1 rauðlaukur skorinn í báta

4 hvítlauksrif smátt söxuð

3 – 4 msk ólífuolía

2-3 tsk þurrkað oregano

2 lárviðarlauf

1 sítróna

Salt og pipar

Hitið ofninn í 170 gráður.

Þurrkið kjúklinginn með hreinni tusku eða eldhúsbréfi og nuddið hann með olíu. Kryddið vel með salti og pipar og setjið í eldfast mót eða pott. Kreistið safa úr hálfri sítrónu yfir kjúklinginn og setjið svo sítrónuna með kjúklingnum í fatið. Skerið laukinn í hæfilega bita og bætið í fatið ásamt öðru lárviðarlaufinu. Stráið einni til tveimur teskeiðum af oreganó yfir kjúklinginn, laukinn og sítrónubátana. Setjið lok á fatið og stingið því inn í ofn í 40 mínútur eða svo. Skrælið kartöflurnar og skerið í hæfilega bita, saxið hvítlauksrifin og bætið í bætið í fatið með kjúklingnum. Dreypið ólífuolíu yfir, restinni af oreganeókryddinu, safanum úr hinum helmingnum af sítrónunni og saltið og piprið. Setjið restina af soðinu eða hvítvíninu í fatið. Lokið og stingið fatinu aftur inn í ofn 40 mínútur. Snúið kartöflubitunum og eldið áfram í 20 til 30 mínútur eða þangað til kjúklingurinn er fullsteiktur og kartöflurnar orðnar mjúkar í gegn. Hækkið hitann í 200 gráður og takið lokið af fatinu og bakið í 5 til 10 mínútur eða þangað til skinnið á kjúklingum er orðið stökkt.  Takið úr ofninum og látið standa í fimm til tíu mínútur áður en sest er að snæðingi.

Ritstjórn júlí 19, 2019 10:36