Amma merkilegri en hvaða „deit“ sem er

Eliza Reid  forsetafrú var gestur á landsfundi Landssambands eldri borgara og heillaði fundarmenn með ávarpi sínu og framkomu.  Í nýjasta blaði Landssambandsins er einnig forsíðuviðtal við Elizu sem fór þar yfir ýmislegt sem tengist lífi og viðhorfum til eldra fólks í samfélaginu.

Ávarpið sem hún flutti á fundinum var á svipuðum nótum. Hún sagði málefni eldri borgara snerta okkur öll sem byggjum í þessu samfélagi og þá skipti ekki máli á hvaða aldri við værum. Hún talaði um ömmur sínar, en önnur þeirra tók uppá því að læra að synda um áttrætt. Hin lést í fyrra, skömmu fyrir 102 ára afmælið sitt.  Hún sagðist hafa verið heppin að hafa afa sína og ömmur sem fyrirmyndir í lífinu.  Hún sagði líka að við ættum að hugsa vel hvert um annað, nýta tímann vel og ekki búa til ímyndað kynslóðabil, þar sem við settum fólk í heimatilbúin hólf eftir aldri.  Eliza var ýmist á alvarlegu nótunum í ávarpinu eða  sló á létta strengi og sagði meðal annars eftirfarandi sögu úr smiðju þeirra forestahjóna.

Guðni hafði lesið á Facebook frásögn manns af ungum manni sem fékk símtal í afgreiðslusal sundlaugar, þar sem hann var staddur ásamt félögum sínum.

Nei, hæ, gott að heyra í þér, sagði ungi maðurinn þegar hann svarði í símann.

Hann hlustaði í  smástund og bætti svo við

Ég er reyndar upptekinn á leið í sund núna, heyrðu ég kem til þín annað kvöld, kaupi kínverskt og við borðum saman.

Nú viltu ekki kínverskt núna? Ég kem með eitthvað annað og við höfum það kósí saman.

Hann hlustaði áfram í símann og  lauk svo samtalinu á þessum orðum.

Bless amma mín, hlakka til að sjá þig!

Þá fóru félagar hans að skellihlæja, en hann horfði hissa á þá. Eruð þið að hlæja  að mér af því ég er að tala við ömmu mína?

Já, sagði þá einn úr hópnum, við héldum að þetta væri eitthvert „deit“.  En vinur þeirra átti síðasta orðið.

Hún amma mín sem er 86 ára er miklu merkilegri en hvaða „deit“ sem er.

Eliza sagði að þetta lýsti því vel að við ættum ekki að búa til óþarfa bil á milli kynslóða heldur njóta lífsins saman. „Eldri borgarar eru fullgildir liðsmenn í samfélagi okkar og geta lagt svo margt af mörkum til að bæta það, og ekki þrátt fyrir aldurinn heldur miklu frekar vegna hans“, sagði hún og vék í lokin að kórónuveirunni sem hefur herjað á okkur í vetur.

„Síðustu vikur og mánuði höfum við glímt við skæða farsótt, og það sér ekki fyrir endann á  þeirri baráttu. Við einsettum okkur saman að verja fyrst og fremst líf og heilsu þeirra sem eru í áhættuhópnum. Fólk með undirliggjandi sjúkdóma og þá elstu í samfélaginu, bæði þá sem búa í heimahúsum og hina sem eru á hjúkrunarheimilum. Við misstum fólk  af völdum veirunnar skæðu. Hugsum hlýtt til þeirra sem sakna ástvina. En,  samt verður ekki annað sagt en að þessi varnarbarátta hafi tekist  vel“, sagði Eliza og sagðist telja að þeir yngri  hefðu lært margt af þeim eldri á þessum tíma. Tengdamóðir hennar hefði farið í sjálfskipaða sóttkví og Guðni og bræður hans hefðu rætt um að þetta væri erfitt, leiðinlegt en nauðsynlegt fyrir hana. „Ó nei, ég kvarta ekki“, hafði hún þá sagt og þegar þeir höfðu áhyggjur af því að hún saknaði þeirra sagðist hún ekkert gera það í stuttan tíma, hún væri búin að ala þá upp frá því þeir komu í þennan heim, en hún saknaði barnabarnanna.   Eliza sagði að það hefði ekki þurft að sýna eldra fólki meðaumkun  eða sérstaka gæsku á þessum tíma „ Það var  miklu frekar að þið eldri sýnduð okkur hinum hvernig ætti að takast á við áskoranir með því að sýna, og það er ekki auðvelt fyrir mig að segja þessi orð á íslensku, þrautsegju, seiglu, æðruleysi og jafnaðargeð“.

(Endurbirt frá 2020)

 

 

Ritstjórn júlí 7, 2020 09:27