Eftirfarandi ályktun var samþykkt á landsfundi LEB sem nú stendur yfir.
Landsfundur Landssambands eldri borgara, haldinn á Selfossi, bendir á að enn eitt kjörtímabil er að líða án þess að launakjör eldra fólks hafi verið bætt. Stjórnvöld hafa í engu sinnt margvíslegum ábendingum um að afkoma eldra fólks hafi í raun versnað og hafa þverbrotið lög og samþykktir til þess að komast hjá greiðslum til þess. Má þar nefna ákvörðun Alþingis um hækkun ellilífeyris um síðustu áramót. Þá má benda á að laun margra hópa eldra fólks ná ekki lágmarkslaunum, sem er óboðleg staða.
Nú er svo komið að skerðing á lífeyri frá almannatryggingum er hvergi meiri á byggðu bóli og ríkissjóður telst nú taka til sín meginhluta hins almenna lífeyris.
Athygli tæplega 75 þúsund eldri kjósenda við kosningarnar í haust er vakin á þessari staðreynd.