Andleg vanlíðan á ekki að vera fylgifiskur ellinnar

Á vef landlæknisembættisins er að finna margvíslegt efni um geðrækt og eldra fólk.  Sjá hér.  Þar er einnig að finna grein eftir Guðrúnu Guðmundsdóttur verkefnisstjóra geðræktar á lýðheilsustöð, þar sem hún fullyrðir að andleg vanlíðan eigi ekki að vera fylgifiskur ellinnar. Þar segir meðal annars að þegar fólk hætti störfum á vinnumarkaði, verði þáttaskil hjá flestum. Tekjur minnki og tengslin við starfsfélaga og vinnustað rofni.  Síðan segir orðrétt.

Margir kvíða þessum umskiptum vegna óvissu um hvað tekur við og sumir upplifa sig útilokaða frá öllu því sem áður hafði einhvern tilgang í lífinu og finnst sem þeir séu orðnir gagnslausir og öðrum byrði. Eldra fólk býr einnig oft við stór og ófyllt skörð þegar vinir þeirra eða lífsförunautar eru fallnir frá. Það fer því ekki hjá því að margir finni fyrir einmanaleika og þá eykst hætta á einangrun. Neikvæðar tilfinningar eins og depurð, reiði, sektarkennd, kvíði eða ótti vilja þá skjóta upp kollinum.

Ekki er óeðlilegt að finna fyrir slíkri vanlíðan við ofangreindar aðstæður, en þegar ástandið er orðið langvinnt og jafnvel fer versnandi er nauðsynlegt að staldra við og leita sér aðstoðar fagfólks.

Það er áhyggjuefni að niðurstöður rannsókna hafa ítrekað gefið til kynna að andleg vanlíðan og þunglyndi meðal eldra fólks sé vangreint vandamál þrátt fyrir að því fólki sé hættara við slíkri vanlíðan en þeim yngri. Líkum hefur verið leitt að því að eldra fólk líti svo á að andleg vanlíðan eða þunglyndi sé óhjákvæmilegur fylgifiskur ellinnar og leiti sér því ekki aðstoðar fagfólks. Mikilvægt er að hafa það í huga að hvorki þunglyndi né kvíði eru eðlilegir fylgifiskar þess að eldast. Það sama á við um önnur aldursskeið.

Farsæl öldrun felst ekki síst í því að vera fær um að finna lífi sínu tilgang og skilgreina stöðu sína að nýju og finna og rækta hæfileika sína. Sjálfsímynd aldraðra og sýn þjóðfélagsins á aldraða er ákaflega mikilvæg í þessu sambandi. Það er þjóðfélagsins alls að leggja áherslu á gæði lífsins og þau tækifæri sem fylgja efri árum eins og öðrum aldursskeiðum.

Flestir geta tekist á við ný viðfangsefni og haldið áfram að læra svo lengi sem þeir lifa. Sú kenning að eldra fólk missi að mestu hæfileikann til að læra og tileinka sér nýja færni, stenst ekki.

Rannsóknir síðari ára á þessu sviði hafa leitt í ljós hið gagnstæða. Eldra fólk, ekkert síður en yngra, getur þannig haldið áfram að setja sér markmið og látið drauma sína rætast. Það getur tekist á við verkefni sem bæði einstaklingurinn og samfélagið meta að verðleikum.

Þarna þarf bæði að koma til frumkvæði einstaklingsins sjálfs og umhverfisins sem hvetur og býður upp á möguleika til ofangreinds. Vert er að hafa í huga í þessu sambandi, að sá sem dregur sig inn í skel og hættir að sækjast eftir samskiptum við aðra á það á hættu að tapa fyrr færni en ella.

Forsenda þess að okkur geti liðið vel er góð heilsa, andleg, líkamleg og félagsleg. Og allt spilar þetta saman. Geðorðin 10 eru góður leiðarvísir fyrir unga sem aldna.

 

 

Ritstjórn september 26, 2017 14:53