Því eldri sem við verðum því meiri tíma verjum við ein

Við verjum meiri og meiri tíma ein, þegar aldurinn færist yfir, ef marka má nýja bandaríska rannsókn.

Bandaríkjamenn sem eru komnir yfir sextugt, verja tvisvar sinnum lengri tíma einir, en samlandar þeirra sem eru innan við fertugt. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem gerð var af Pew Research Center, sem er hlutlaus rannsóknarstofnun í Washington.

Það þýðir að meðaltali að um 73 milljónir eldra fólks eru einar, í um það bil 7 klukkustundir á dag.

Næstum 17 milljónir Bandaríkjamanna sem eru orðnir sextugir og eldri, búa einir, samkvæmt því sem fram kemur í rannsókninni. Þó ekki sé hægt að alhæfa að á íslandi sé staðan sú sama og í Bandaríkjunum, er engu að síður áhugavert að vita hvað eldra fólk í öðrum löndum er að glíma við.

Það þarf ekki nauðsynlega að vera slæmt að vera mikið einn, en það er hætta á að það dragi úr virkni þeirra sem eru mikð einir, þeir einangrist og geti ekki útvegað sér aðstoð ef bráðan vanda ber að höndum. Búsetan sem fólk er í skiptir máli í þessu sambandi, segir jafnframt í rannsókninni.

Næstum 17 milljónir Bandaríkjamanna yfir sextugu búa út af fyrir sig og þeir verja tvisvar sinnum lengri tíma einir, en þeir sem búa með maka eða félaga. Einn af hverjum þremur í hópnum sem býr einn, segist vera aleinn alla daga.

Tíminn sem við verjum alein eykst með aldrinum. Yngsta fólkið í Pew rannsókninni, var eitt í um þrjár og hálfa klukkustund á dag. Elsta fólkið, sem var komið yfir áttrætt, var aleitt  í næstum átta klukkustundir á dag.

Þegar konur eldast eru þær meira einar en karlarnir, sem skýrist af því að þær lifa almennt lengur og búa frekar einar en þeir.

Menntun skiptir þarna líka máli. Eldra fólk með grunnskólapróf, eða minni menntun, er meira eitt, en þeir sem eru með háskólapróf.  Fólkið sem hefur minni menntun er nefnilega líklegra til að vera ógift en betur menntaðir og ógiftir verja eðli málsins samkvæmt meiri tíma einir, en þeir sem eru í sambúð.

En hvað er fólk þá að gera sem er svona mikið eitt? Önnur Pew rannsókn hefur sýnt fram á að þeir sem eru sextugir og eldri, verja meira en helmingi tímans sem þeir hafa til ráðstöfunar, fyrir framan sjónvarpið, tölvuskjáinn, Ipadinn og sambærileg tæki. Á sama tíma hefur dregið úr bóklestri og umgengni við aðra hjá þessum hópi, segir í rannsókninni sem vefritið grandparents.com greindi frá.

Ritstjórn júlí 10, 2019 07:48