Það er kliður eins og í fuglabjargi hjá Báru í JSB, þegar 40 konur mæta í sextíu plús tímann hjá henni, en tímarnir, svokallaðir FIT form tímar, eru í gangi alla virka daga fyrir hádegi. Blaðamaður Lifðu núna tekur konurnar tali, móðar eftir sextíu plús leikfimina dag einn fyrir skömmu, já sumar ekki nógu vel greiddar og ekki búnar að setja á sig varalitinn!! Þrjár konur sátu í sófa, fengu sér engifer snafs og hældu sextíu plús tímunum á hvert reipi. „Það eru þrír yndislegir kennarar með okkur sitt hvorn daginn“, segir Úlfhildur Guðmundsdóttir, sem flutti úr Grafarvogi í Kringluna og vildi vera í leikfimi nær heimilinu. Áður var hún í Heilsuborg sem var hentugt á meðan hún bjó í Grafarvoginum. „Það er óþarfi að leita langt yfir skammt og keyra Ártúnsbrekkuna í alls kyns veðrum“, segir hún hæstánægð með sig hjá Báru.
Snafsinn kemur í veg fyrir kvef
Þær fá sér meiri engifer snafs. „Við trúum á hann“, segja þær og eru ánægðar með samverustundirnar og spjallið eftir leikfimina. „Það er svo notalegt þegar snafsinn rífur í og við höldum að við fáum ekki kvef“, segja þær. Steinunn Guðjónsdóttir hefur verið mjög lengi hjá Báru. „Mér finnst leikfimin alveg halda mér gangandi, segir hún“. „Fyrir utan hvað leikfimin er góð fyrir líkamann finnst mér hún líka gera mikið fyrir mig andlega. Maður verður ánægður að gera eitthvað fyrir sig“. Sigfríður Þormar byrjaði í sextíu plús tímunum í haust og líkar vel. Henni stóð til boða um áramótin að fara með eiginmanninum í golfjóga, en ákvað frekar að halda áfram í leikfiminni hjá Báru. „Það eru gerðar teygjur í golfjóga svo menn séu ekki eins og tréhestar í golfinu“, segir hún hlæjandi. „En hér er góð leikfimi og góður félagsskapur sem ég vildi ekki missa“.
Heldur gigtinni alveg niðri
Hrafnhildur Ásgeirsdóttir er búin að vera í leikfimi hjá Báru í næstum hálfa öld og valdi sextíu plús leikfimina núna, þar sem hún er orðin fullorðin. En hvað er öðruvísi í þessari leikfimi? „Það eru alla vega engir pallar“, segir hún. Soffía Ákadóttir segir að það sé ekki alveg sami hraðinn og í venjulegri leikfimi og konurnar ráði hvað þær reyni mikið á sig. „Ég er í þessari leikfimi vegna þess að ég er með gigt“, segir hún. „Ég held henni alveg niðri með leikfiminni og væri orðin pillusjúklingur ef ég stundaði hana ekki“. Hún er í golfi á sumrin og segir leikfimina hjálpa sér. Ein kvennanna nefnir að hún sé að vísu svolítið feit, þrátt fyrir líkamsræktina. Hvaða kona skyldi ekki hafa áhyggjur af því? „Það skiptir máli máli að konur á þessum aldri séu ekki of grannar. Það er ekki fallegt“, grípur Auður Ragna Guðmundsdóttir frammí. Hún hefur verið hjá Báru meira og minna síðan árið 2000, byrjaði fljótlega eftir að hún flutti til Reykjavíkur, en áður bjó hún í Þorlákshöfn. Hún vaknaði klukkan sex á morgnana og fór á TT námskeið. Hún fékk hins vegar brjósklos og fór í aðgerð í október. „Ég er öll að koma til og finn hvað þetta gerir mér gott“, segir hún.
Halda á barnabörnunum og bera pokana úr Bónus
Linda Sigurjónsdóttir sem kenndi hópnum daginn sem Lifðu núna kom í heimsókn, segir að tímar fyrir sextíu plús séu í raun ekki mjög frábrugðnir venjulegri líkamsrækt. Það sé lögð mikil áhersla á að bæta líkamsstöðu, jafnvægisskyn og liðleika, ásamt fjölbreyttum styrktar- og þolæfingum. „Það er svo mikilvægt að átta sig á því hvað það hefur mikil áhrif á lífsgæðin að vera í góðu líkamlegu standi því það er jú líkaminn sem við notum alla daga. Ef við hugsum um þessa einföldu hversdagslegu hluti eins og að bera Bónus pokana heim, tala nú ekki um fyrir þær sem búa upp á þriðju hæð eða halda á barnabörnunum, þá er nauðsynlegt að byggja upp styrk og úthald til að geta sinnt þessum störfum og liðið vel í eigin líkama“, segir hún og bætir við að það sé unnið með að bæta líkamsstöðuna í leikfimi fyrir konur á öllum aldri, en okkur hætti til þegar við eldumst að beygja okkur fram og verða hoknar í baki. „Þá þarf að rétta betur úr bakinu og bera sig vel, það kennum við í tímunum og reynum að vera meðvitaðar um þetta“, segir hún.
Menn finna sjálfir hvað þeir geta
Linda segir ekki endilega öðruvísi að kenna eldri konum en yngri. „Það myndast svo mikil stemning í svona lokuðum hópum. Hjá okkur eru farin að myndast fjölmörg vinasambönd í hópnum, margar hafa verið saman í ræktinni í mörg ár og alltaf eru nýjar að bætast í hópinn. Það er verið að spjalla um allt og ekkert, bæði fyrir og eftir tímann. Hún segir gaman að sjá konurnar ögra sér svolítið og gera betur og betur. Það sé skemmtilegt að sjá þær verða öruggari í æfingunum. Hún segir einstaklingsbundið hversu lengi fram eftir aldri fólk geti verið í leikfimi. „Menn finna sjálfir hvað þeir geta gert, það er líka hægt að fara sér aðeins hægar en áður og gera minna ef þess þar. Aðalatriðið er að forðast öfgar. Ef þetta snýst fyrst og fremst um hreysti dagsdaglega, sé ég ekkert nema jákvætt við að eldra fólk sé í leikfimi eins lengi og það treystir sér til. Fólk finnur það best sjálft. Þeir sem hafa verið að stunda hreyfingu reglulega finna fljótt þegar þeir hætta að hreyfa sig hversu hratt maður stirðnar upp“, segir Linda að lokum.